Categories
Fréttir Greinar

Saga Íslands og Grænlands samofin

Deila grein

13/02/2025

Saga Íslands og Grænlands samofin

Áhugi á Græn­landi hef­ur stór­auk­ist eft­ir að for­seti Banda­ríkj­anna lýsti yfir vilja sín­um til að eign­ast landið. Mik­il­vægi Græn­lands hef­ur auk­ist veru­lega í breyttri heims­mynd. Auðlind­ir Græn­lands eru afar mikl­ar á sviði málma og steinefna, olíu og gass, vatns, orku, fisk­veiða og ferðaþjón­ustu. Vegna lofts­lags­breyt­inga aukast lík­urn­ar á því að hægt sé að nýta auðlind­ir Græn­lands í meira mæli en síðustu ár­hundruðin.

Sam­skipti og saga Íslands og Græn­lands er stór­merki­leg og er vel skrá­sett í tengsl­um við land­nám og sigl­ing­ar milli Íslands, Nor­egs og Norður-Am­er­íku.

Nefna má í þessu sam­hengi; Ei­ríks sögu rauða, Græn­lend­inga­sögu, forn­manna­sög­ur og fleiri rit eins og Flat­eyj­ar­bók.

Í þess­um rit­um má finna at­vinnu­sögu ríkj­anna og hvernig sigl­ing­ar skipuðu veiga­mik­inn sess í viðskipt­um og vel­sæld þeirra.

Sög­un­ar gefa ein­staka inn­sýn í fyrstu skrá­settu viðskipta­sam­skipti Evr­ópu­búa við frum­byggja Norður-Am­er­íku og hver ávinn­ing­ur og áhætt­an voru í þess­um efn­um.

Saga ríkj­anna er samof­in frá land­náms­öld fram á 15. öld, en síðustu ritaðar heim­ild­ir um nor­rænt sam­fé­lag á Græn­landi eru frá ár­inu 1408, þegar ís­lensk hjóna­vígsla átti sér stað í Hvals­eyj­ar­kirkju í Eystri­byggð.

Ein stærsta ráðgáta sögu norður­slóða er hvarf þess­ar­ar byggðar nor­ræns fólks af Græn­landi. Ýmsar til­gát­ur hafa verið nefnd­ar og eru þess­ari sögu, til dæm­is, gerð góð skil í bók­inni: „Hrun sam­fé­laga – hvers vegna lifa sum meðan önn­ur deyja“ eft­ir Jared Diamond pró­fess­or.

Megin­á­stæðurn­ar fyr­ir þess­ari þróun á Græn­landi eru lofts­lags­breyt­ing­ar, það er að kóln­andi lofts­lag hafi gert all­an land­búnað erfiðari.

Dregið hafi úr sigl­ing­um vegna minna fram­boðs af rekaviði og öðrum efniviði í skipa­gerð og því hafi sam­göng­ur minnkað veru­lega.

Einnig er nefnt að eft­ir­spurn eft­ir einni aðal­út­flutn­ingsaf­urð Græn­lands, rost­ung­stönn­um, hafi hrunið vegna auk­inn­ar sam­keppni frá fíla­bein­stönn­um í Afr­íku og Asíu ásamt því að svarti­dauðinn hafi leitt til mik­ill­ar fólks­fækk­un­ar á Norður­lönd­um, sem hafi minnkað Græn­landsviðskipt­in veru­lega.

Græn­land er í brenni­depli alþjóðastjórn­mál­anna vegna vax­andi tæki­færa til frek­ari auðlinda­nýt­ing­ar og land­fræðilegr­ar legu, ekki ósvipuð staða og var fyr­ir um 1000 árum.

Lyk­il­atriði fyr­ir Ísland er að tryggja greið alþjóðaviðskipti og far­sæl sam­skipti við okk­ar helstu banda­menn, þar sem lýðræði er helsta grunn­gildi þjóðar­inn­ar.

Lilja Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. febrúar 2025.