Áhugi á Grænlandi hefur stóraukist eftir að forseti Bandaríkjanna lýsti yfir vilja sínum til að eignast landið. Mikilvægi Grænlands hefur aukist verulega í breyttri heimsmynd. Auðlindir Grænlands eru afar miklar á sviði málma og steinefna, olíu og gass, vatns, orku, fiskveiða og ferðaþjónustu. Vegna loftslagsbreytinga aukast líkurnar á því að hægt sé að nýta auðlindir Grænlands í meira mæli en síðustu árhundruðin.
Samskipti og saga Íslands og Grænlands er stórmerkileg og er vel skrásett í tengslum við landnám og siglingar milli Íslands, Noregs og Norður-Ameríku.
Nefna má í þessu samhengi; Eiríks sögu rauða, Grænlendingasögu, fornmannasögur og fleiri rit eins og Flateyjarbók.
Í þessum ritum má finna atvinnusögu ríkjanna og hvernig siglingar skipuðu veigamikinn sess í viðskiptum og velsæld þeirra.
Sögunar gefa einstaka innsýn í fyrstu skrásettu viðskiptasamskipti Evrópubúa við frumbyggja Norður-Ameríku og hver ávinningur og áhættan voru í þessum efnum.
Saga ríkjanna er samofin frá landnámsöld fram á 15. öld, en síðustu ritaðar heimildir um norrænt samfélag á Grænlandi eru frá árinu 1408, þegar íslensk hjónavígsla átti sér stað í Hvalseyjarkirkju í Eystribyggð.
Ein stærsta ráðgáta sögu norðurslóða er hvarf þessarar byggðar norræns fólks af Grænlandi. Ýmsar tilgátur hafa verið nefndar og eru þessari sögu, til dæmis, gerð góð skil í bókinni: „Hrun samfélaga – hvers vegna lifa sum meðan önnur deyja“ eftir Jared Diamond prófessor.
Meginástæðurnar fyrir þessari þróun á Grænlandi eru loftslagsbreytingar, það er að kólnandi loftslag hafi gert allan landbúnað erfiðari.
Dregið hafi úr siglingum vegna minna framboðs af rekaviði og öðrum efniviði í skipagerð og því hafi samgöngur minnkað verulega.
Einnig er nefnt að eftirspurn eftir einni aðalútflutningsafurð Grænlands, rostungstönnum, hafi hrunið vegna aukinnar samkeppni frá fílabeinstönnum í Afríku og Asíu ásamt því að svartidauðinn hafi leitt til mikillar fólksfækkunar á Norðurlöndum, sem hafi minnkað Grænlandsviðskiptin verulega.
Grænland er í brennidepli alþjóðastjórnmálanna vegna vaxandi tækifæra til frekari auðlindanýtingar og landfræðilegrar legu, ekki ósvipuð staða og var fyrir um 1000 árum.
Lykilatriði fyrir Ísland er að tryggja greið alþjóðaviðskipti og farsæl samskipti við okkar helstu bandamenn, þar sem lýðræði er helsta grunngildi þjóðarinnar.
Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. febrúar 2025.