Categories
Fréttir

„Sameiginlegt markmið að ná niður verðbólgu og vaxtastigi í landinu“

Deila grein

12/03/2024

„Sameiginlegt markmið að ná niður verðbólgu og vaxtastigi í landinu“

„Nú er það í annað sinn sem ríkisstjórn sem er skipuð Framsókn, Sjálfstæðisflokki og Vinstri hreyfingunni- Grænu framboði nær samtali við aðila vinnumarkaðarins og ég held að það sé engin tilviljun. Það var einnig gert í Lífskjarasamningunum á sínum tíma og þá var einnig horft til kjarasamnings til nokkurra ára,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, í þættinum Silfrinu á RÚV í gær.

„Nú þegar við erum að horfa til fjögurra ára þá getur ríkið og sveitarfélög komið fram með þetta sameiginlega markmið, sem er aðalatriðið, að ná niður verðbólgu og vaxtastigi í landinu. Og ef allir einblíndu á það, þá gátum við miðað okkar aðgerðir að því og höfðað til þess að fleiri kæmu að borðinu í kjölfarið og það höfum við verið að sjá nú þegar.“

Aðrir þátttakendur í pallborðinu voru Elliði Vignisson bæjarstjóri í Ölfusi, Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Hanna Katrín Friðriksson alþingismaður. Var helsta umræðuefni þáttarins um kjarasamningana á almenna vinnumarkaðnum og tugmilljarða aðkomu ríkisins.