Categories
Fréttir

„Samfélagið þarf á tækifærum alls landsins að halda“

Deila grein

04/03/2020

„Samfélagið þarf á tækifærum alls landsins að halda“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, ræddi stuðning við rannsóknir og nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins á Alþingi á dögunum.
Fram hafði komið í umræðunni að það væri hrópandi mismunur á dreifingu fjármagns milli landshluta. Sagði Líneik Anna mikilvægt að það fjármagn sem úr er að spila verði að nýtast öllum landshlutum. Og Líneik Anna bætti við, „samfélagið þarf á tækifærum alls landsins að halda.“

„Við þurfum og verðum að stunda nýsköpun og rannsóknir um land allt. Þannig tryggjum við samkeppnishæfni landsins í heild. Nýsköpun byggir m.a. á grunni atvinnulífs og náttúru sem nú þegar er til staðar. Svo bætum við hugvitinu við. Ekki var teljandi munur á árangurshlutfalli umsækjenda milli landsvæða en mikið misræmi er í sókn í sjóðina milli landshluta. Þá heyrist oft: Tja, þeir fiska sem róa. En það blasir við að það eru þeir sem fá bát og árar sem fiska. Þeir sem standa á bakkanum gera það ekki. Landshlutar án staðbundinnar háskólastarfsemi og ráðgjafar standa verr að vígi,“ sagði Líneik Anna.
„Í allt of mörg ár hef ég rætt hvernig mögulegt sé að auka rannsóknarstarf og nýsköpun í landsbyggðunum. Niðurstaða mín er að þrennt skipti mestu máli og það þarf að bæta.

Það þarf staðbundið háskólanám og háskólastarf í öllum landshlutum.
Við verðum að leggja skyldur á háskólana til að það gerist.
Það þarf líka að búa til hvata og áhersluverkefni hjá opinberu sjóðunum sem stuðla að eða setja jafnvel í forgang umsóknir beint tengdar landshlutunum og það þarf virkt stoðkerfi um land allt.

Bætum því við góða nýsköpunarstefnu og þar er FabLab¹ góð byrjun,“ sagði Líneik Anna.
***
¹Hvað er Fab Lab?  Fab Lab kemur af ensku orðunum Fabrication Laboratory, eins konar framleiðslu tilraunastofa.  Fab Lab á rætur sínar að rekja til Center for Bits and Atoms hjá MIT háskólanum í Massachusetts í Bandaríkjunum. Þeirri stofnun stýrir prófessor Neil Gershenfeld sem auk þess að stunda miklar rannsóknir á þessu sviði kennir hann áfanga hjá MIT sem heitir How to Make (AlmostAnything.  Árið 2008 þegar fyrsta Fab Lab smiðjan á Íslandi var sett á laggirnar í Vestmannaeyjum höfðu 38 Fab Lab smiðjur verið stofnaðar.  Nú árið 2019 er fjöldi Fab Lab smiðja yfir 1700 talsins og fjöldi starfandi Fab Lab smiðja á Íslandi er nú 7.  Fab Lab er smiðja með tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er. Fab Lab smiðjan gefur ungum sem öldnum, einstaklingum og fyrirtækjum, tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni.