Í ljósi atburða síðustu daga er vert að huga vel að hvort öðru og þakka fyrir að ekki fór verr. Það var dýrmætt að sjá þann mikla styrk sem býr í samfélaginu okkar, náunga kærleikinn og greiðasemina.
Eftir slíkan veðurofsa eru mörg verkefni sem bíða og það mun taka tíma að koma byggðarkjörnunum okkar í samt horf. Jafnframt þarf að meta það tjón sem orðið hefur og þá sérstaklega á Norðfirði.
Þar sönnuðu snjóflóðavarnargarðar gildi sitt og vil ég ekki hugsa til þess sem orðið hefði ef þeirra nyti ekki við. Síðustu dagar ýta enn frekar undir mikilvægi þess að koma upp fjórða og síðasta varnargarðinum en hönnun hans er nú þegar lokið.
Mig langar að þakka öllum þeim sem hafa verið til staðar og aðstoðað samfélagið okkar síðustu daga, það er ómetanlegt að finna allan þann stuðning og kraft sem okkur barst allsstaðar að af landinu. Ég er ofboðslega stolt af því öfluga viðbragðsteymi sem hefur verið til staðar síðustu viku, það hefur verið vakið og sofið við það að tryggja öryggi íbúa, veita aðstoð og vera til staðar sem er ómetanlegt. Einnig ber að þakka starfsfólki og verktökum sveitarfélagsins, fyrirtækjum og stofnunum í Fjarðabyggð og svo ótal mörgum öðrum sem unnu mikið þrekvirki við erfiðar aðstæður.
Eitt er víst að alltaf má draga lærdóm af slíkum atburðum og munum við fara yfir alla þá verkferla sem farið var í, rýna þá og meta. Það er alltaf eitthvað sem betur má fara en samstillt átak allra og gott samstarf við lögregluna á Austurlandi, Almannavarnir, Veðurstofuna og fleiri tryggði okkur góða yfirsýn í okkar víðfeðma sveitarfélagi.
Hlúum að andlegu heilsunni og verum vakandi fyrir einkennum áfalla og streitu hjá okkur sjálfum og öðrum nákomnum. Nýtum okkur þau úrræði sem eru til staðar, þjónustumiðstöð Almannavarna, Rauða krossinn, starfsmenn sveitarfélagsins, kjörna fulltrúa og fleiri. Það á enginn að standa einn í þeim verkefnum sem framundan eru. Að þessu sögðu vona ég að vorið og sumarið verði okkur hliðhollt og óska ykkur öllum gleðilegrar páskahátíðar.
Þuríður Lillý Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar í Fjarðabyggð
Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 4. apríl 2023.