Categories
Greinar

Von­brigði fyrir starfs­stétt sauð­fjár­bænda

Deila grein

05/12/2022

Von­brigði fyrir starfs­stétt sauð­fjár­bænda

Það sat þungt hugsi og mjög vonsvikinn ungur bóndi við morgunverðarboðið fyrr í vikunni eftir að hafa lesið grein matvælaráðherra í nýjasta tölublaði Bændablaðsins. Greinin bar fyrirsögnina „Bjartsýni í sauðfjárrækt“ en skyldi eftir fleiri spurningar en svör. Síðustu vikur hef ég ásamt öflugum einstaklingum og hagsmunasamtökum barist fyrir því að stöðva fyrirhugaða niðurtröppun á greiðslumarki sem á að taka gildi 1.janúar 2023. Þegar ég heyrði að þetta væri ekki borðleggjandi, að niðurtröppun greiðslumarks yrði stöðvuð varð ég ansi hissa. Mér fannst það undarlegt og fór að velta fyrir mér hvað ráðherra hefði fyrir sér í þessum efnum, þetta var mér í raun óskiljanlegt. Eftir að hafa farið á aðalfund Landssamtaka sauðfjárbænda árið 2021 og búgreinaþing deildar sauðfjárbænda árið 2022 þar sem samþykkt var samhljóða sú ályktun að stöðva niðurtröppun greiðslumarks sá ég ekki annað í stöðunni en á okkur yrði hlustað. Það hlýtur að teljast sögulegt að sauðfjárbændur hafi verið sammála um greiðslumark og að ályktunin hafi verið samþykkt án mótatkvæða. Bændur leggja á sig mikinn tíma og kostnað í það að sinna félagsstarfi greinarinnar, með það að markmiði að standa vörð um greinina og berjast fyrir bættri afkomu hennar. Það er engum blöðum um það að fletta að niðurtröppun greiðslumarks og afurðarverð hafa verið þeir þættir sem valda mestum áhyggjum kollega minna síðustu ár. Niðurtröppun greiðslumarks mun koma hart niður á mörgum sauðfjárbændum og sér í lagi á Austur- og Norðausturlandi. Þar eru talsverð eign á greiðslumarki og jafnframt flest bú með yfir 300 fjár á vetrarfóðrum. Þessi tekjulækkun mun gera mörgum erfitt fyrir, sérstaklega þeim sem reyna að stunda sauðfjárrækt í atvinnuskyni.

Niðurtröppun seinkað árið 2019

Upphaflega átti niðurtröppun greiðslumarks að taka gildi árið 2019, þá var ákveðið að fresta henni vegna slæmrar afkomu í greininni. Staðan í dag er svo sannarlega engu skárri með ört hækkandi aðfangaverði og náttúruógnum. Árið 2019 var jafnframt settur á innlausnarmarkaður til að jafna stöðu bænda innan greinarinnar sem var gott, þar var settur forgangshópar sem innihélt að lang stærstum hluta unga bændur eða þá sem voru að hefja sauðfjárbúskap. Aðsókn í markaðinn hefur verið mikil og núna árið 2022 var sótt um tæp 60.000 ærgildi en potturinn innihélt ekki nema rétt rúm 5000, þau fóru öll til forgangshóps. Það þarf svo varla að deila um taktleysi þess að auglýsa innlausnarmarkað örfáum vikum áður en fyrirhugað er að skerða greiðslumarkið um heil 20%.

Berja á ungum bændum

Tölurnar sína að núorðið er stærstur eignarhlutur greiðslumarks meðal yngri bænda og það eru einnig þeir sem hafa fjárfest mest í greiðslumarki síðustu ár. Það er því nokkuð ljóst að þeir sem koma verst út úr fyrirhugaðri niðurtröppun eru ungir bændur. Hópur sauðfjárbænda sem stendur hvað höllustum fæti en er jafnframt mikilvægastur fyrir framtíð íslenskrar sauðfjárræktar. Maður veltir því fyrir sér á hvaða vegferð hæstvirtur ráðherra sé og hvaða tilgang það hafi fyrir bændur að eyða tíma og kostnaði í vinnu fyrir hagsmuna- og félagasamtök ef ekki er hlustað á niðurstöðu þeirrar vinnu. Það liggur í augum uppi að breytinga er þörf og vonandi verða þær við endurskoðun starfssamnings sauðfjárbænda sem fram fer árið 2023. Það var þó ekki tímabært að fara í þessar aðgerðir núna þvert á vilja sauðfjárbænda, stéttin er löskuð og við þurfum tíma og svigrúm í öruggu starfsumhverfi til að ná vopnum okkar á ný.

Þuríður Lillý Sigurðardóttir, sauðfjárbóndi í Reyðarfirði og bæjarfulltrúi Framsóknar í Fjarðabyggð.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. desember 2022.

Categories
Greinar Uncategorized

Uppbygging íbúðarhúsnæðis og metfjöldi lóða umsókna

Deila grein

24/11/2022

Uppbygging íbúðarhúsnæðis og metfjöldi lóða umsókna

Að búa í víðfeðmu fjölkjarna samfélagi getur oft á tíðum verið flókið en það er jafnframt mjög lærdómsríkt því hver og einn byggðarkjarni býr yfir einstakri sögu sem einkennir hann og skilgreinir.

Frá því ég tók sæti sem bæjarfulltrúi í maí hefur ýmislegt gengið á eins og venja er fyrir á þessum vettvangi. Verst finnst mér þegar fólk festist í því að ræða eingöngu neikvæða hluti, við verðum að muna að þakka fyrir og vera stolt af því sem vel er gert og því flotta samfélagi sem við búum í. Ég hef passað að temja mér ávallt framsýni og velta mér ekki upp úr orðnum hlutum sem ég get ekki breytt. Ég vil heldur einbeita mér að framtíðinni og þeim markmiðum sem ég vil ná fyrir samfélagið okkar á þeim tíma sem mér hefur verið úthlutað. Ég brenn fyrir samfélagið okkar og vil að allir geti notið þess að lifa hér, starfa og njóta.    

Við búum í samfélagi sem hefur farið í gegnum margar stórar áskoranir og má þar helst nefna byggingu Alcoa fjarðaráls sem hefur verið gríðarleg lyftistöng fyrir samfélagið. Í kjölfarið fengum við mikið af nýju fólki og samfélagið varð fjölbreyttara en jafnframt mikið opnara. Þá sem og nú varð uppsveifla í sveitarfélaginu, núna skýrist uppsveiflan þó að öðru en hér er mikið atvinnuframboð, góð launakjör og frábært umhverfi fyrir fjölskyldur sem og einstaklinga að setjast að.

Það sem hefur staðið okkur fyrir þrifum er framboð á íbúðarhúsnæði sem hefur verið mjög takmarkandi þáttur og bitnar á mörgum. Þar má til dæmis nefna fyrirtæki sem hér starfa og vilja stækka og efla sína starfsemi en geta ekki bætt við sig starfskröftum vegna íbúðarskorts og það sama á við um iðnaðarmenn sem vilja koma hingað að vinna.

Ég sé þó blikur á lofti í þessum málum. Það er orðið mun fýsilegra að byggja í sveitarfélaginu nú en áður þar sem íbúðarverð hefur loksins náð skurðpunkti byggingarkostnaðar í flestum þéttbýliskjörnum Fjarðabyggðar. Það er fljótt að skila sér þar sem eftirspurn eftir lóðum síðustu mánuði hefur farið fram úr björtustu vonum. Sem formaður Umhverfis- og Skipulagsnefndar finnst mér ótrúlega gaman að segja frá því að í október á þessu ári höfðum við úthlutað 35 lóðum fyrir íbúðarhús og sjö fyrir atvinnu húsnæði sem er mikil aukning frá síðustu árum.

Að finna kraftinn og samheldnina í íbúum hér er ótrúlega hvetjandi, ég held og veit að Fjarðabyggð sem og Austurland allt býr yfir miklum tækifærum ef haldið er rétt á spöðunum. Ég á mér stóra drauma varðandi uppbyggingu, afþreyingu og þjónustu fyrir alla í sveitarfélaginu og tel að í góðu samstarfi við grasrótina, íbúa og starfsfólk Fjarðabyggðar getum við náð ansi langt sem ein heild, Fjarðabyggð.

Þuríður Lillý Sigurðardóttir, formaður umhverfis- og skipulagsnefndar Fjarðabyggðar.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 22. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Snúum land­búnaði til betri vegar í Fjarða­byggð

Deila grein

12/04/2022

Snúum land­búnaði til betri vegar í Fjarða­byggð

Landbúnaður hefur lengi verið mér kær enda var ég þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að alast upp á sauðfjárbúi þar sem ég var alin upp við það að vinna fyrir hlutunum og taka engu sem sjálfsögðu. Landbúnaði hefur því miður hnignað mikið á austfjörðum og ófáar jarðir farið í eyði síðustu áratugi. Það mikla landbúnaðarsvæði sem farið er í eyði gerir öðrum bændum í nágrenninu oft erfitt fyrir. Þar má t.d. sérstaklega nefna sauðfjárbændur því gangnasvæði þeirra stækkar ört meðan gangnamönnum fækkar. Þá er nýliðun í bændastétt því miður afskaplega döpur, ég tel þó ekki of seint að snúa þessari þróun til betri vegar. Það hefur nefnilega aldrei verið mikilvægara en nú að standa vörð um íslenskan landbúnað og tryggja bændum bætt kjör og betra utanumhald. Það er ekkert sjálfgefið á þeim óvissutímum sem við lifum við í dag sem snertir jafnt bændur sem og neytendur. Þó ég tali hér í þessari grein fyrst og fremst til bænda tel ég mig samt um leið snerta taugar ansi margra íbúa. Mörgum þykir gaman að keyra um sveitir Fjarðabyggðar á fallegum sumardögum og finna ilminn af nýslegnu grasi, sjá kýr á beit og sauðfé í haga.

Nýtum aukin sóknarfæri í landbúnaði

Landbúnaður er þó ekki bara kýr og sauðfé og vonast ég til þess að sjá mikið fjölbreyttari landbúnað í Fjarðabyggð á næstu árum. Það eru mörg sóknarfæri í landbúnaði og það er okkar að nýta þau og auka fjölbreytnina. Í þeim efnum má m.a. nefna ræktun á ýmsum nytjaplöntum, bæði fyrir framleiðslu á dýrafóðri og beint til neytanda í ýmsum myndum. Þá eru mikil tækifæri í aukinni kornrækt, sem vonandi á eftir að aukast til muna. Íslendingar hafa oft talað um fæðuöryggi sem eitthvert tískuorð þar til nýverið þegar orðið fékk meiri og dýpri skilning. Með aukinni kornrækt getum við stígið stórt skref fram á við til að tryggja sjálfbærni í íslenskri matvælaframleiðslu, og þannig aukið fæðuöryggi Íslendinga til mikilla muna..

Undanfarið hefur landbúnaði oft verið tekið sem sjálfsögðum hlut. Staðreyndin er þó sú að ekki er sjálfgefið að geta keypt mjólk, egg, grænmeti og lambalæri út í búð, ræktað og alið af innlendum bændum. Það liggur mikil vinna að baki alls þess sem framleitt er og oft á tíðum margra ára kynbætur og þróun. Afurðir framleiddar hér á landi eru einstakar á heimsmælikvarða, sýklalyfjaónæmi er til að mynda stórt vandamál víða um heim en þekkist ekki hér á landi sem er ótrúlega dýrmætt. Það er Íslendingum því afar mikilvægt að treysta grundvöll íslensks landbúnaðar og þar getur Fjarðabyggð svo sannarlega lagt sín lóð á vogarskálarnar.

Ég vil auka þjónustu við bændur í sveitarfélaginu Fjarðabyggð, ýta undir nýliðun í greininni og efla samstarf bænda við sveitarfélagið, fyrirtæki og íbúa á svæðinu. Það er minn draumur að með tímanum verði hægt að bjóða íbúum sveitarfélagsins að versla landbúnaðarvörur framleiddar í Fjarðabyggð. Það er trú mín að með því að hlúa vel að þessum málaflokk þá muni okkur takast að gera landbúnað að enn öflugri atvinnugrein í Fjarðabyggð, og búa þannig um hnútana að fýsilegra sé fyrir unga bændur að hasla sér völl í greininni. Ég tel nefnilega að íbúar Fjarðabyggðar vilji neyta afurða sem þeir geta treyst að séu framleiddar séu við frábærar aðstæður í sinni heimabyggð.

Þuríður Lillý Sigurðardóttir, er menntuð í búvísindum, situr í stjórn sauðfjárbænda á suðurfjörðum, situr í varastjórn Bændasamtaka Íslands og skipar 2. sætið á framboðslista Framsóknarflokksins í Fjarðabyggð.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. apríl 2022.