Categories
Fréttir

Samstöðu um lausnir til handa ungu fólki

Deila grein

07/06/2016

Samstöðu um lausnir til handa ungu fólki

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða vexti og húsnæðismál að því marki sem þessi mál eru samofin. Ef við byrjum á Seðlabankanum, óbreyttum stýrivöxtum, hef ég áður sagt það í þessum ræðustól að ef árangur er mældur út frá marksmiðssetningu þá gengur Seðlabankanum vel að framfylgja peningastefnu sinni. Segja má að þar sé markvirkni, þar sem meginmarkmið er að halda stöðugu verðlagi og gæta þess að mæld ársverðbólga fari ekki upp fyrir 2,5%. Það markmið hefur haldist nú í rúm tvö ár þannig að um þann markmiðstengda árangur verður ekki deilt. Það er auðvitað jákvætt í sjálfu sér bæði fyrir atvinnulíf sem þarf að gera áætlanir sem byggja á verðlagsforsendum inn í framtíðina, og heimilin sem þurfa að mæta útgjöldum á grundvelli tekna sinna. Og kaupmáttur hefur vaxið meira en nokkru sinni áður vegna verðstöðugleikans og ábatasamra kjarasamninga í krónum talið.
Mikill hagvöxtur er í kortunum og spennan eykst á vinnumarkaði. Þrátt fyrir allt sjáum við fram á aukna eftirspurn og vaxandi framleiðsluspennu. Þá hefur náðst að halda hér verðstöðugleika og ársverðbólgan mælist í kringum 1,7%. Við erum með raunstýrivexti hér upp á rúmlega 4%. Innlendar hækkanir vegast á við gengishækkun krónunnar, þannig að einhvers staðar skilar styrking krónunnar sér í verðlagi.
Við puðum hér á hinu háa Alþingi við að styrkja húsnæðismarkaðinn, leigumarkað og markað fyrir félagslegt húsnæði. En það þarf fleira að koma til. Það þarf samstöðu um lausnir til handa fólki, ekki síst ungu fólki sem er að kaupa sína fyrstu eign. Húsnæði hækkar í verði, kostnaður við fjármögnunina er of hár, allt of hár. Hér þarf framlengingu séreignarsparnaðar, einfaldari byggingarreglugerðir, breytingar á lánafyrirkomulagi húsnæðislána þar sem verðtryggingin er tekin af. Það er viðkvæmt fyrir einhverja að tala um kosningar í haust, en kannski verður kosið um þetta í haust.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 1. júní 2016.