Árið 2025 hjá Sameinuðu þjóðunum er tileinkað samvinnuhreyfingum um heim allan undir yfirskriftinni: „Samvinna um betri heim“. Lögð er áhersla á jákvæð áhrif samvinnufélaga og hvernig þeim hefur tekist að koma lausnir á mörgum áskorunum samtímans.
Samvinnuhreyfingin á rætur sínar að rekja til þess uppróts sem kom í kjölfar iðnbyltingarinnar. Mestu efnahagslegu framfarir hagsögunnar eiga uppruna sinn að rekja til iðnbyltingarinnar en þar fer hagvöxtur samfélaga fyrst af stað. Hins vegar voru vinnuaðstæður og kjör verkafólksins oft afar bágborin og sem svar við þessu ástandi tók fólk sig saman og stofnaði samvinnufélög, þ.e. fyrirtæki í eigu og undir stjórn félaganna, sem tóku ákvarðanir og deildu jafnt arði félagsins. Fæðingarstaður samvinnuhreyfingarinnar er í Rochdale á England en árið 1844 stofnaði hópur 28 vefara og handverksmanna verslun sem seldi gæðavörur á sanngjörnu verði. Í Frakklandi boðaði Charles Fourier samfélagslega samhjálp og samvinnu. Í Þýskalandi störfuðu Friedrich Raiffeisen og Hermann Schulze-Delitzsch að stofnun lánasamvinnufélaga til stuðnings bændum og handverksmönnum. Í Bandaríkjunum voru sett á laggirnar samvinnufélög í tengslum við landbúnað, þar sem bændur tóku sig saman til að fá betra verð á vörum sínum og samninga um innkaup og dreifingu. Samvinnuhreyfingin á Íslandi á rætur sínar að rekja til ársins 1882, þegar stofnað var Kaupfélag Þingeyinga. Kjör bænda höfðu farið versnandi, og einkenndust af háu vöruverði og einokun kaupmanna. Samvinnuhreyfingin á Íslandi hefur verið veigamikill þáttur í atvinnu- og félagsmálum þjóðarinnar í yfir eina og hálfa öld. Níu kaupfélög eru starfrækt á Íslandi í dag.
Um 3 milljónir samvinnufélaga eru starfandi í heiminum í dag. Allt frá stórfyrirtækjum í velferðarsamfélögum til samyrkjufélaga í fátækum löndum. Félagsmenn eru um 1,2 milljarðar og starfsfólk er um 280 milljónir. Til hins félagslega hagkerfis teljast svo margvísleg önnur félagsdrifin fyrirtæki og óhagnaðardrifin félög sem samanlagt eru verulegur hluti af efnahagsumsvifum heimsins.
Samvinnuformið má nýta mun betur. Á síðasta þingvetri var samþykkt löggjöf um samvinnufélög. Þetta er fyrsta heildarendurskoðunin á lögunum í áratugi. Ein veigamesta breytingin var að auðvelda stofnun samvinnufélags. Lágmarksfjöldi stofnenda var lækkaður í þrjá úr 15. Þessi breyting endurspeglar að sum verkefni nútímans geta hafist með fámennum hópi sem þó hefur þörf fyrir samvinnuformið. Ég hvet landsmenn til að kynna sér samvinnuhreyfinguna betur á ári hennar hjá Sameinuðu þjóðunum og hvaða tækifæri felast í henni. Sameinuðu þjóðirnar leggja mikið upp úr getu samvinnufélaga til að stuðla að velsæld sem flestra í samfélaginu.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. maí 2025.