Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, segir í grein í Morgunblaðinu í dag að skoðun sín sé að segja eigi upp tollasamningi við ESB. Ríkisstjórnin sé með það til skoðunar að segja eigi þessum ESB-tollasamningi upp, segir Sigurður Ingi enn fremur. Mjólkuriðnaðurinn og „afurðastöðvar í kjöti“, hafi ekki nýtt tækifærin sem samningurinn skapaði þeim og að Bretland sé gengið úr ESB.
Eftirlitið þarf að virka. Þær fréttir berast þessi misserin að þar sé allt í skötulíki. Innflutningsfyrirtækin komist upp með að brjóta tollasamninginn með rangri flokkun á vörum, jafnvel svo árum skipti. Afleiðingin eru undanskot á tollum, jafnvel svo nemur hundruðum milljóna, án þess að nokkur eftirlits- og ábyrgðaraðili bregðist við. Það er ekki hægt að sætta sig við að samningar séu brotnir, þannig skekkist samkeppni við bændur, samkeppni milli fyrirtækja sem halda sig innan laga og hinna sem svíkjast um að greiða opinber gjöld og snuða þannig almenning beint. Þetta þarf að rannsaka.
Að auki hefur orðið forsendubrestur eftir að samningurinn komst á. Annars vegar hafa þeir sem fóru fram á að samningar yrðu gerðir, mjólkuriðnaðurinn og „afurðastöðvar í kjöti“, einhverra hluta vegna ekki nýtt tækifærin sem samningurinn skapaði þeim. Hins vegar er Bretland gengið úr ESB – eða í þann mund að gera það. Það er því mín skoðun og til skoðunar innan ríkisstjórnarinnar að það eigi að segja þessum ESB-tollasamningi upp, segir Sigurður Ingi.
Landbúnaður – hvað er til ráða? er í yfirskrift greinar Sigurðar Inga. Segir hann landbúnað á Íslandi standa á krossgötum og hafi gert í þó nokkur ár. „Neyslubreytingar almennings, aukin alþjóðleg sem og innlend samkeppni og breyttur ríkisstuðningur (minni beinn framleiðslustuðningur) hafa valdið lægri tekjum á framleiðslueiningu hjá bændum. Á móti hafa vaxandi ferðamannafjöldi, nýsköpun í störfum á landsbyggðinni og stærri bú vegið á móti,“ segir Sigurður Ingi.
Nefnir Sigurður Ingi að landsmenn sýni mikinn stuðning við innlenda framleiðslu og þá hafi aukin krafa um minna kolefnisfótspor, minni lyfjanotkun, meiri sjálfbærni og meiri hollustu ýtt undir framleiðslu íslenskra bænda.
En hvernig tryggjum við öruggan aðgang að innlendum matvælum? Það þarf augljóslega að grípa til í það minnsta þeirra aðgerða sem nefndar hafa verið til þess að bæta afkomu bænda. Svo höfum við val. Ríkisstjórnin styður við frumkvæði um að velja íslenskt. Átakið „Láttu það ganga“ er gott og gilt, styður við innlenda framleiðslu og skapar störf. Regluverkið um upprunamerkingar þarf að vera skýrara. Að einhverju leyti er framtíð landbúnaðar í höndum hvers og eins. Ef við viljum fá öruggan, ómengaðan og hollan mat á borðið – fyrir börnin okkar og foreldra sem og okkur sjálf – þá eigum við að geta gert kröfu í versluninni, á veitingastaðnum og mötuneytinu um upprunamerkingar. Við höfum val. Íslenskt – já takk, segir Sigurður Ingi.