Categories
Fréttir

Skapa ekki störf á Húsavík og Hvammstanga

Deila grein

13/12/2019

Skapa ekki störf á Húsavík og Hvammstanga

„Tollvernd er íslenskri framleiðslu mikilvæg og er henni stuðningur til að standast samkeppni við innflutning frá löndum þar sem mikill stuðningur er jafnvel í öðru formi við slíka framleiðslu. Tollar eru og verða til staðar á meðan við lifum ekki í hinum fullkomna heimi frjálsra viðskipta. Sá tími mun seint koma því að samkeppnishæfni þjóða er misjöfn sem og hlutfallslegir yfirburðir. Ísland er ekki auðvelt til útiræktunar á grænmeti. Við höfum hreint vatn og hreina orku en framleiðsluferlið er nokkuð dýrt,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, í störfum þingsins á Alþingi í fyrradag.

„Þá er ótalinn einn stærsti þátturinn sem er launakostnaður.“

„Íslensk stjórnvöld vilja hafa matvælaframleiðslu hér á landi. Við viljum minnka kolefnissporið og því kaupum við innlenda framleiðslu. Það gleymist nefnilega oft að þúsundir vinna við matvælaframleiðslu hér á landi.
Það fólk borgar skatta og skyldur sem og fyrirtækin sem stunda framleiðslustarfsemi sína hér. Erlend fyrirtæki sem framleiða matvöru erlendis borga ekki þessa skatta hér á landi og þau skapa ekki störf fyrir fólkið á Húsavík og Hvammstanga,“ sagði Halla Signý.