Categories
Fréttir

Menntun á Suðurnesjum

Deila grein

13/12/2019

Menntun á Suðurnesjum

„Í nýlegri PISA-könnun kemur fram að nemendur okkar eru duglegir og hafa trú á eigin getu til árangurs sem kemur sérstaklega fram í könnuninni. Stór hluti menntunar snýst um að efla trú nemenda á eigin getu. Þetta sjáum við skýrt hjá þeim sem útskrifast til að mynda af háskólabrú Keilis á Ásbrú en þar fá margir annað tækifæri til náms. Við útskriftir verður nemendum tíðrætt um hvernig menntun þeirra hafi aukið sjálfstraust þeirra og breytt viðhorfi þeirra til lífsins,“ sagði Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, í störfum þingsins á Alþingi í fyrradag.

„Herra forseti. Ég starfa dagsdaglega með frábærum kennurum á Suðurnesjum og get sagt að það eru forréttindi að vinna með svo duglegu fólki. Í grunnskólunum okkar fyrir sunnan er mjög hátt hlutfall barna af erlendu bergi brotið. Við þurfum að styðja við kennara í hvívetna og tryggja að vinnuumhverfi þeirra sé gott.“

„Menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, er að vinna þrekvirki í málaflokknum og stendur sig frábærlega á þeirri vegferð. Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður hefur lagt fram tillögu um stefnumótun og framtíðarskipulag náms á framhaldsskólastigi á Suðurnesjum, studda af nær öllum þingmönnum kjördæmisins. Það má segja að hér leggist allir á eitt. Ég er bjartsýnn á að með samvinnu muni okkur takast að efla menntun á Suðurnesjum og hækka menntunarstig til frambúðar,“ sagði Jóhann Friðrik.