Categories
Fréttir

Þurfum að vinna saman úr afleiðingunum

Deila grein

13/12/2019

Þurfum að vinna saman úr afleiðingunum

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, sagði í störfum þingsins á Alþingi í fyrradag, að vart væri hægt að ræða annað en veður síðasta sólarhrings. Sagðist hún þakklát fyrir allt það fyrirbyggjandi starf sem kom í veg fyrir mikið tjón, „svo sem með góðum veðurspám, skýrum viðvörunum og viðbrögðum fólks á vettvangi, bæði viðbrögðum fólks sem sinnir sínum daglegu störfum við erfiðar aðstæður, sem vinnur við að halda innviðum samfélagsins gangandi frá degi til dags, sem starfar við að tryggja öryggi íbúa og allra þeirra sjálfboðaliða sem liðsinnt hafa öðrum þessa dagana. Allt þetta fólk á mikið hrós skilið.“

„Margra bíða líka ærin verkefni. Í kjölfar svona veðurs fylgja margar áskoranir, viðgerðir á rafmagnslínum, opnun vega, mokstur frá húsum, viðgerðir á vegum, viðgerðir á húsum og búnaði, að halda hita í húsum og ná upp hita, endurræsing á viðkvæmum tölvukerfum, snjalltækjum, heilu framleiðsluferlunum, róbótum, koma aftur rútínu á búfé og ná upp nyt í kúm.“
„Í framhaldinu þarf líka að meta tjón, greina hvað er tryggt og safna upplýsingum um hvort eitthvað af tjóninu fellur utan tryggingaverndar. Við sem búum á Íslandi þurfum að gera ráð fyrir að náttúruhamfarir geti haft áhrif á okkar daglega líf en við þurfum líka að nota tækifærið í framhaldinu af atburðum eins og þessum og stjórnvöld að skoða hvar við getum farið í enn frekari aðgerðir til að fyrirbyggja tjón. Stjórnvöld þurfa að greina hvar eitthvað fór úrskeiðis, meta möguleg viðbrögð og gera áætlun um styrkingu innviða, t.d. til að tryggja betri fjarskipti og dreifingu raforku.

Samstaðan áorkar miklu á meðan hamfarir ganga yfir en við þurfum líka öll að vinna saman úr afleiðingunum,“ sagði Líneik Anna.