Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir það hafa verið stórkostlegt að taka þátt í Íslendingadögunum í Mountain í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum og í Gimli í Manitoba-fylki í Kanada um liðna helgi. Þetta kemur fram í grein hennar í Morgunblaðinu í vikunni, „Fjársjóður í vesturheimi“.
„Vestur-Íslendingar leggja mikið á sig til þess að rækta tengsl sín við Ísland og halda sögu sinni og menningu á lofti. Á þessum slóðum í Kanada og Bandaríkjunum eru afkomendur Íslendinga sem tala íslensku án þess að hafa búið á Íslandi. Þrátt fyrir að rúm 100 ár séu liðin frá því að búferlaflutningar vesturfaranna liðu undir lok er fólk enn mjög meðvitað um uppruna sinn og er stolt af honum. Slíkt er alls ekki sjálfgefið en sú þrautseigja, áhugi, dugnaður og þjóðrækni sem býr í Vestur-Íslendingum er til eftirbreytni,“ segir Lilja.
„Íslendingadeginum var fagnað í 120. skipti í bænum Mountain í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum og í 130. skipti í Gimli í Manitoba-fylki í Kanada um liðna helgi. Að deginum standa afkomendur vesturfara sem héldu frá Íslandi til Norður-Ameríku á árunum 1875-1914 en talið er að milli 15.000 og 20.000 Íslendingar hafi flust búferlum og hafið nýtt líf í Vesturheimi. Á þessum tíma fluttu um 52 milljónir Evrópubúa til Vesturheims meðal annars vegna þess að landbúnaðarsamfélögin gátu ekki framleitt nægjanlega mikið í takt við þá miklu fólksfjölgun sem átti sér stað í Evrópu en á tímabilinu 1800-1930 fjölgaði íbúum álfunnar úr 150 milljónum í 450 milljónir.“
„Manitoba er fjölmennasta byggðarlag Íslendinga í heiminum utan Íslands en samkvæmt Hagstofu Kanada hafa um 90 þúsund Kanadamenn skráð uppruna sinn sem íslenskan. Sögu þessa fjölmenna hóps þarf að gera betri skil á Íslandi og það er skylda okkar Íslendinga að rækta þessi tengsl af alúð og alvöru,“ segir Lilja.
Categories
„Skylda okkar Íslendinga að rækta þessi tengsl af alúð og alvöru“
09/08/2019
„Skylda okkar Íslendinga að rækta þessi tengsl af alúð og alvöru“