Categories
Fréttir

Snemmtæk íhlutun

Deila grein

25/05/2016

Snemmtæk íhlutun

Elsa-Lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Snemmtæk íhlutun skiptir máli bæði fyrir þá sem þurfa á þjónustuna að halda og fyrir þjóðfélagið allt. Snemmtæk íhlutun er það þegar brugðist er við röskun barna snemma á lífsleiðinni, þau þjálfuð og fá þjónustu við hæfi. Rannsóknir hafa sýnt að snemmtæk íhlutun skiptir máli. Þeir sem njóta stuðnings hennar eða þjónustu þeirrar aðgerðar hafa í mörgum tilfellum náð afar góðum árangri, líðanin verður betri og margir hverjir ná að verða virkari í samfélaginu síðar meir eftir að hafa notið þessarar þjónustu. Það skiptir öllu máli að þeir sem hafa einhverja röskun eða greiningu fái aðstoð við hæfi eins fljótt og auðið er. Því er mikilvægt að við förum í það verkefni og skoðum hvaða leiðir eru færar til þess að börn og ungmenni sem grunur leikur á að séu með einhverja röskun, fái þjónustu eins fljótt og auðið er.
Þessu máli fylgir jafnframt það mikilvæga hlutverk að fjölskyldan geti stutt við bakið á því barni sem glímir verið einhvers konar röskun eða langvarandi veikindi. Þannig er það í þjóðfélaginu í dag. Vel getur verið að umfang þessa stuðnings sé mikið, en hann er afar mikilvægur og óhætt er að segja að skili sér til baka. Þau sem njóta ríkulegs stuðnings og tryggs baklands í veikindum eða við einhvers konar raskanir ná oft og tíðum betri árangri. Það er mikilvægt að styðja við bakið á þeim sem standa í þessum sporum.
Virðulegi forseti. Ég verð því að segja að ég þekki ekkert foreldri sem ekki mundi gefa aleiguna fyrir það að barn þess þurfi ekki að glíma við alvarlegar raskanir eða veikindi.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 24. maí 2016.