Categories
Fréttir Greinar

Spá 15% samdrætti í hagvexti 2025

Deila grein

26/04/2025

Spá 15% samdrætti í hagvexti 2025

Alþjóðamarkaðir ein­kenn­ast nú af mikl­um sveifl­um og tauga­titr­ingi. Helsta ástæða er ný og óstöðug tolla­stefna Banda­ríkja­stjórn­ar, ásamt óvissu í efna­hags­stjórn og stjórn­festu. Af­leiðing­arn­ar eru víðtæk­ar, enda hef­ur heims­mynd alþjóðaviðskipta verið gjör­bylt á fáum vik­um og í raun 100 ár aft­ur í tím­ann.

Í þess­um aðstæðum fer fram vor­fund­ur Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins (AGS), þar sem kynnt var ný hag­vaxt­ar­spá. AGS spá­ir nú að hag­vöxt­ur á heimsvísu verði 2,8% árið 2025 og 3,0% árið 2026 – niður úr 3,3%. Þetta jafn­gild­ir sam­tals 0,8 pró­sentu­stiga lækk­un, eða um 15% sam­drætti, sem er veru­lega und­ir meðaltali ár­anna 2000-2019, sem nam 3,7%. Þetta eru mik­il tíðindi, einkum í kjöl­far efna­hags­legs áfalls covid-19 og stríðsins í Úkraínu.

Krist­al­ina Georgieva fram­kvæmda­stjóri AGS nefndi þrjár megin­á­stæður þessa sam­drátt­ar:

Í fyrsta lagi, þá er óvissa kostnaðar­söm. Nú­tíma­fram­leiðsla bygg­ist á flókn­um virðiskeðjum, þar sem inn­flutt hrá­efni og hlut­ir koma frá mörg­um ríkj­um. Verð á einni vöru get­ur ráðist af toll­um í tug­um landa. Þegar toll­ar hækka eða lækka fyr­ir­vara­laust verður skipu­lagn­ing erfið. Skip á hafi úti vita jafn­vel ekki í hvaða höfn þau eiga að leggj­ast. All­ir verða óör­ugg­ir, fjár­fest­ar fresta ákvörðunum og all­ur viðnámsþrótt­ur er auk­inn.

Í öðru lagi, þá hafa aukn­ar viðskipta­hindr­an­ir strax nei­kvæð áhrif á hag­vöxt. Toll­ar, líkt og aðrir skatt­ar, afla tekna en minnka fram­leiðslu. Hag­sag­an sýn­ir að toll­ar bitna ekki aðeins á viðskipta­lönd­um held­ur einnig á inn­flytj­end­um og neyt­end­um, þ.e. með lægri hagnaði og hærra vöru­verði. Þegar kostnaður aðfanga hækk­ar minnk­ar hag­vöxt­ur.

Í þriðja lagi, þegar fram­leiðsla fær skjól fyr­ir sam­keppni minnka hvat­ar til hagræðing­ar og ný­sköp­un­ar. Frum­kvöðla­starf­semi vík­ur fyr­ir beiðnum um und­anþágur, rík­isaðstoð og vernd. Þetta bitn­ar sér­stak­lega á litl­um, opn­um hag­kerf­um, eins og Íslandi. Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn hvet­ur aðild­ar­rík­in sín að greiða fyr­ir alþjóðaviðskipt­um, tryggja efna­hags­leg­an og fjár­mála­leg­an stöðug­leika og hrinda af stað um­bót­um sem stuðla að hag­vexti.

Ég hvet for­sæt­is­ráðherra til að taka mið af þess­ari ráðgjöf Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins og gjör­breyttu lands­lagi heimsviðskipta. Nauðsyn­legt er að minnka þá óvissu sem rík­ir í lyk­ilút­flutn­ings­grein­um þjóðar­inn­ar. Eðli­legt er að auðlinda­gjöld séu sann­gjörn en um­gjörðin verður að byggj­ast á gagn­sæi og fyr­ir­sjá­an­leika. Far­sæl­ast er að vinna með fólki og aðilum vinnu­markaðar­ins. Þannig er hægt að ná sam­eig­in­leg­um mark­miðum sam­fé­lags­ins um að auka vel­sæld á Íslandi.

Þessi heima­til­búna óvissa rík­is­stjórn­ar­inn­ar mun draga úr fjár­fest­ingu og minnka hag­vöxt, því geta tekj­ur rík­is­sjóðs lækkað í stað þess að hækka. Hið fornkveðna á hér við: „Í upp­hafi skal end­inn skoða.“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. apríl 2025.