Alþjóðamarkaðir einkennast nú af miklum sveiflum og taugatitringi. Helsta ástæða er ný og óstöðug tollastefna Bandaríkjastjórnar, ásamt óvissu í efnahagsstjórn og stjórnfestu. Afleiðingarnar eru víðtækar, enda hefur heimsmynd alþjóðaviðskipta verið gjörbylt á fáum vikum og í raun 100 ár aftur í tímann.
Í þessum aðstæðum fer fram vorfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), þar sem kynnt var ný hagvaxtarspá. AGS spáir nú að hagvöxtur á heimsvísu verði 2,8% árið 2025 og 3,0% árið 2026 – niður úr 3,3%. Þetta jafngildir samtals 0,8 prósentustiga lækkun, eða um 15% samdrætti, sem er verulega undir meðaltali áranna 2000-2019, sem nam 3,7%. Þetta eru mikil tíðindi, einkum í kjölfar efnahagslegs áfalls covid-19 og stríðsins í Úkraínu.
Kristalina Georgieva framkvæmdastjóri AGS nefndi þrjár meginástæður þessa samdráttar:
Í fyrsta lagi, þá er óvissa kostnaðarsöm. Nútímaframleiðsla byggist á flóknum virðiskeðjum, þar sem innflutt hráefni og hlutir koma frá mörgum ríkjum. Verð á einni vöru getur ráðist af tollum í tugum landa. Þegar tollar hækka eða lækka fyrirvaralaust verður skipulagning erfið. Skip á hafi úti vita jafnvel ekki í hvaða höfn þau eiga að leggjast. Allir verða óöruggir, fjárfestar fresta ákvörðunum og allur viðnámsþróttur er aukinn.
Í öðru lagi, þá hafa auknar viðskiptahindranir strax neikvæð áhrif á hagvöxt. Tollar, líkt og aðrir skattar, afla tekna en minnka framleiðslu. Hagsagan sýnir að tollar bitna ekki aðeins á viðskiptalöndum heldur einnig á innflytjendum og neytendum, þ.e. með lægri hagnaði og hærra vöruverði. Þegar kostnaður aðfanga hækkar minnkar hagvöxtur.
Í þriðja lagi, þegar framleiðsla fær skjól fyrir samkeppni minnka hvatar til hagræðingar og nýsköpunar. Frumkvöðlastarfsemi víkur fyrir beiðnum um undanþágur, ríkisaðstoð og vernd. Þetta bitnar sérstaklega á litlum, opnum hagkerfum, eins og Íslandi. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hvetur aðildarríkin sín að greiða fyrir alþjóðaviðskiptum, tryggja efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika og hrinda af stað umbótum sem stuðla að hagvexti.
Ég hvet forsætisráðherra til að taka mið af þessari ráðgjöf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og gjörbreyttu landslagi heimsviðskipta. Nauðsynlegt er að minnka þá óvissu sem ríkir í lykilútflutningsgreinum þjóðarinnar. Eðlilegt er að auðlindagjöld séu sanngjörn en umgjörðin verður að byggjast á gagnsæi og fyrirsjáanleika. Farsælast er að vinna með fólki og aðilum vinnumarkaðarins. Þannig er hægt að ná sameiginlegum markmiðum samfélagsins um að auka velsæld á Íslandi.
Þessi heimatilbúna óvissa ríkisstjórnarinnar mun draga úr fjárfestingu og minnka hagvöxt, því geta tekjur ríkissjóðs lækkað í stað þess að hækka. Hið fornkveðna á hér við: „Í upphafi skal endinn skoða.“
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og fv. viðskiptaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. apríl 2025.