Categories
Fréttir

„Staðan er grafalvarleg“

Deila grein

12/10/2023

„Staðan er grafalvarleg“

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, ræddi stöðu bænda í störfum þingsins og vitnaði hann til forsíðu síðasta tölublaðs Bændablaðsins þar sem segir í fyrirsögn: „Búrekstur nautgripabænda verulega þyngst.“

Sagði Þórarinn Ingi að verð á afurðum hafi ekki haldið í við hækkanir á aðföngum og vaxtahækkanir hafi bæst þar ofaná.

„Það er orðið svo að stór hluti þeirra bænda sem hafa staðið í fjárfestingum eiga verulega þungt um vik þessi misserin og það blasir við hjá mörgum ákveðið svartnætti, við skulum bara orða það þannig. Staðan er grafalvarleg hvað þetta varðar.“

Þórarinn Ingi sagði það ekki einkamál bænda að standa vörð um fæðuöryggi þjóðarinnar, heldur væri það sameiginlegt verkefni ríkis og bænda.

„Nýliðun er því miður orðin orð sem maður heyrir allt of sjaldan. Það að gerast bóndi í dag er því miður bara ekki aðlaðandi verkefni. Það er ekki aðlaðandi fyrir ungt fólk að takast á við allar þær skyldur sem fylgja því að vera í búskap og þurfa síðan fyrir utan hefðbundinn vinnudag að fara í aðra vinnu til þess eins að geta framfleytt fjölskyldu sinni.“

Kallar Þórarinn Ingi eftir því að brugðist verði við, staðan greind og leiðir til ráða.

„Ef ekkert verður að gert þá mun fara illa og við eigum eftir að sjá á eftir þeirri matvælaframleiðslu sem við stundum í dag,“ sagði Þórarinn Ingi að lokum.


Ræða Þórarins Inga í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Ég ætla að eyða þessum tveimur mínútum í að ræða stöðu bænda í dag hér á þessu landi. Fyrirsögn á forsíðu Bændablaðsins hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Búrekstur nautgripabænda verulega þyngst.“

Það er svo að verð á afurðum hefur ekki haldið í við hækkanir á aðföngum og þessar miklu vaxtahækkanir sem hafa verið. Það er orðið svo að stór hluti þeirra bænda sem hafa staðið í fjárfestingum eiga verulega þungt um vik þessi misserin og það blasir við hjá mörgum ákveðið svartnætti, við skulum bara orða það þannig. Staðan er grafalvarleg hvað þetta varðar.

Það er ekkert einkamál bænda að standa vörð um fæðuöryggi þjóðarinnar. Fæðuöryggi þjóðarinnar er sameiginlegt verkefni ríkis og bænda. Nýliðun er því miður orðin orð sem maður heyrir allt of sjaldan. Það að gerast bóndi í dag er því miður bara ekki aðlaðandi verkefni. Það er ekki aðlaðandi fyrir ungt fólk að takast á við allar þær skyldur sem fylgja því að vera í búskap og þurfa síðan fyrir utan hefðbundinn vinnudag að fara í aðra vinnu til þess eins að geta framfleytt fjölskyldu sinni. Við þessu verðum við að bregðast með ýmsum ráðum og það eru væntanlega til mörg ráð. En fyrst þurfum við að setjast niður með bændum og fara yfir stöðuna, hvað er til ráða, því að ef ekkert verður að gert þá mun fara illa og við eigum eftir að sjá á eftir þeirri matvælaframleiðslu sem við stundum í dag.“