Það er fastur liður í aðventudagskrá Alþingis að fjalla um og samþykkja fjárlög fyrir komandi ár. Það getur verið vandasamt á krefjandi tímum, óvissa bæði hér á landi sem og í alþjóðlegu samhengi. Að mörgu þarf að huga, bregðast við ríkjandi þörfum en ekki síður að gera ráð fyrir hinu óvænt. Það ríkir nokkur spenna í hagkerfinu og hefur það verið í nokkurri sveiflu sem birtist í vaxandi verðbólgu. Sumir vilja kalla þá verðbólgu séríslenska líkt og Grýla en við höfum séð að bólgan sú hefur einnig verið vandamál í Evrópu og vestanhafs. Þó ætlar skömmin að vera þrálátari hér á landi og við því verður að bregðast. Við í Framsókn höfum lagt á það ríka áherslu að skapa jafnvægi í efnahagsstjórn, til að sporna við frekari þenslu svo að vaxtarstig geti hjaðnað á nýju ári. Þess vegnar tel ég mikilvægt að þessi fjárlög sem við samþykkjum nú fyrir jólin séu hlutlaus fjárlög og ekki þensluhvetjandi.
Snörp viðbrögð stjórnvalda
Miklar náttúruhamfarir á undanförnum vikum vegna eldsumbrota á Reykjanesskaga er hvergi nær lokið. Þá ríkir óvissa vegna stríðsástands í heiminum sem varðar íslenskt samfélag eins og aðrar þjóðir. Þrátt fyrir að nýafstaðinn Covid faraldur sem hafði gríðarleg áhrif á efnahagsumhverfið er staða ríkissjóðs sterk. Við getum tekist á við verkefni, sem okkur óraði ekki fyrir í upphafi þessa árs, sem eru flókin en jafnframt áríðandi að leysa með hraði. Við höfum vissulega ekki stjórn á öllu sem gerist, en höfum að sama skapi val um viðbrögð og aðgerðir, það er mikilvægt að muna þegar við búum í landi þar sem náttúran stjórnar oft för.
Atburðir síðustu þrjú ár á Reykjanesskaga hafa minnt okkur á að Ísland er land elds og ísa, við þekkjum það sem hér búa. Náttúran ríkir og okkar er að læra að lifa við hana, njóta og nýta. Stórir viðburðir eins og snjóflóð, skriðuföll og eldgos eru tíðir og bjóða upp á allskonar áskoranir. Þeir atburðir sem hófust í nóvember hafa valdið því að heilt samfélag þurftu að flýja heimili sín og hefur enn ekki getað snúið aftur. Framhaldið er í óvissu náttúrunnar, þar sem ekki er ljóst hvort eða hvernig framhald verður á hreyfingu landsins. Stjórnvöld vinna nú að ýmsum mótvægisaðgerðum, finna leiðir til aðstoða íbúa og fyrirtæki á svæðinu, vegna tekjuskerðingar, húsnæðis, skóla og ýmiskonar þjónustu en einnig aðstoðar við það fólk til að takast á við óvissuna og áföllin. Það er erfitt að setja sig í þau spor sem íbúar Grindavíkur eru í núna en mikilsvert að hafa hugfast að áfram er óvissa, það snertir okkur öll. Það er gott að finna þann samhug sem ríkir í samfélaginu, þegar kemur að slíkum náttúruhamförum stöndum við saman.
Eitt stórt heimili
Að reka ríkissjóð er eins og að reka stórt heimili, allir á heimilinu skipta máli og allar ákvarðanir koma við íbúa landsins. Kjarasamningar á vinnumarkaði verða lausir á næstu mánuðum. Ríkið er stærsti atvinnurekandi landsins og þar á eftir eru sveitarfélög, launakostnaður eru einn stærsti útgjaldaliður í þeim rekstri. Nú ríður á að allir taki höndum saman til að bæta lífskjör, ná niður verðbólgu til að skapa aukna hagsæld fyrir alla. Það skiptir máli að ná fram langtímakjarasamningum með hógværum hækkunum, Sveitarfélögin verða því að vera með hófstilltar hækkanir á gjaldsskrám hagsmunir allra er að ná niður vaxtastiginu því þar liggur ávinningurinn. Sveitarfélögin hafa lengi barist fyrir því að varanleg lausn verði fundinn á halla sveitarfélaga á málaflokki fatlaðs fólks. Því ber að fagna að með 5. ma kr. framlagi á þessu ári og 6. ma. framlagi á næsta ári með lækkun tekjuskatts á móti hækkun á útsvari. Áfram er mikilvægt að horfa til breytilegra þarfa, halda áfram að efla uppbyggingu þjónustunnar í samtalið allar aðila er málin varða.
Treystum íslenska matvælaframleiðslu
Hér á Íslandi búum við enn þá við þá sérstöðu að matvælaframleiðsla í hefðbundnum búgreinum er rekin sem fjölskyldubú og því mikið undir. Nýliðar hafa staðið í miklum fjárfestingum í greininni síðustu ár til að bregðast við hagræðingu og nýjum reglugerðum. Við í Framsókn viljum ekki segja staðar numið við þessa aðgerð, heldur er mikilvægt að tryggja rekstrargrunn landbúnaðarins svo það sé raunverulegur kostur fyrir ungt fólk að koma inn í greinina og tryggja neytendum hér á landi heilnæma vöru.
Það er afar ánægjulegt að í fjáraukalögum fyrir árið 2023 var samþykkt að 2,1 ma. króna framlag til þeirra sem starfa við landbúnað, að tillögu starfshóps sem skipaður var til að bregðast við erfiðri stöðu bænda. Framsókn hefur lagt ríka áherslu á að mæti breyttu rekstrarumhverfi í landbúnaði og því ánægjulegt að sjá að hér er verið að bregðast við þessari brýnu þörf. Þá er vert að nefna hversu mikilvert það er að finna vitundarvakningu í samfélaginu um að við þurfum að byggja undir íslenska matvælaframleiðslu. Vandi landbúnaðar varðar okkur öll og því þurfa stjórnvöld áfram að byggja undir greinina og hjálpa þannig til við að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar.
Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 18. desember 2023.