Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun 18. Kjördæmisþings Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS)

Deila grein

07/10/2018

Stjórnmálaályktun 18. Kjördæmisþings Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS)

18. Kjördæmisþing Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS), haldið í Þingborg í Flóahreppi, laugardaginn 6. október, lýsir ánægju sinni með stjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og þann stjórnarsáttmála sem samstarfið byggir á. Þingið lýsir fullum stuðningi við þingflokkinn og ráðherra flokksins í þeirra mikilvægu störfum fyrir land og þjóð. Ráðherrum flokksins hafa verið falin mikilvæg og stór málefni en þingið leggur áherslu á að halda til haga stefnumálum Framsóknarflokksins í ríkisstjórnarsamstarfinu í heild og gæta þess að rödd hans heyrist sem víðast.
Mikil sóknarfæri eru í Suðurkjördæmi og liggja tækifærin víða. Ör íbúafjölgun á svæðinu með miklum vaxtaverkjum samhliða sprengingu í fjölgun ferðamanna reynir mjög á alla innviði. Helst má nefna heilbrigðisþjónustu, en mikilvægt er að samræmd heilbrigðistefna sé unnin fyrir landið með hliðsjón af þörfum allra landsmanna. Auk þess er afar brýnt að auka fjármuni til löggæslu í kjördæminu til að tryggja öryggi íbúa og ferðamanna bæði erlendra og innlendra.
Kjördæmisþingið fagnar tillögu samgönguráðherra að samgönguáætlun. Þýðingarmikið er að hún er fjármögnuð um leið. Ljóst er þó að væntingar voru um hraðari uppbygginu á Suðurlandi en þarna birtist. KSFS fagnar þeirri umræðu sem snýr að umferðaröryggi og styður skoðun á þeim möguleika að göngum í gegnum Reynisfjall og nýrri Ölfusárbrú við Selfoss verði flýtt með innheimtu vegatolla. Jafnframt er lögð rík áhersla á að einbreiðar brýr í kjördæminu heyri sögunni til enda eru þær dauðagildrur í þeim umferðarþunga sem nú er staðreyndin.
Í gegnum árin hefur ekki verið gefið jafnt til allra landsmanna og eru helsta dæmið um það sú mismunun sem í verðlagningu á flutningi á raforku. Þessi mismunum stendur uppbyggingu landsbyggðarinnar fyrir þrifum og nú þegar ríkistjórnin hefur samþykkt háleit markmið um orkuskipti í samgöngum er rétt að Alþingi Íslendinga taki af skarið leiðrétti þetta misrétti með lagasetningu. Eðlilegt væri að landið væri allt eitt gjaldsvæði eins og í símaþjónustu.
Framsókn vill öflugt menntakerfi þar sem ný tækifæri eru sköpuð á umbreytingartímum. Kjördæmisþing KSFS fagnar áherslum mennta- og menningarmálaráðherra við að efla menntakerfið á öllum skólastigum með auknum fjárframlögum til að auka gæði náms.
Kjördæmisþing KSFS leggur áherslu á að lausnir í húsnæðismálum eins og kynntar voru í stjórnasáttmálanum nái fram að ganga og er þá afnám verðtryggingar af lánum einn veigamesti liðurinn í því. Erfiðleikar við að koma sér upp eigin húsnæði eru eitt alvarlegasta vandamálið í íslensku samfélagi og á því þarf núverandi ríkisstjórn að taka. Einnig er mjög brýnt að taka á stórkostlegum vanda á húsaleigumarkaði hið fyrsta.
Leggja þarf áherslu á í komandi kjarasamningum að jafna kjör og vinda ofan af því launaskriði sem hefur verið í efstu lögum samfélagsins á meðan millistéttir og láglaunafólk hafa setið eftir. Með þessu næðist fram sátt á vinnumarkaði og áframhaldandi stöðugleiki í íslensku efnahagslífi.
Standa þarf vörð um íslenskan landbúnað og fylgja fast eftir ákvæðum í stjórnarsáttmálanum um greinina. Koma þarf til móts við þann tímabundna vanda sem nú er uppi í sauðfjár- og loðdýrarækt.
Kjördæmisþing KSFS leggur áherslu á í ljósi þeirrar náttúruvár sem er í kjördæminu að lokið verði við stofnun hamfarasjóðs sem fyrirhugað er að leysi viðlagatryggingu og A- deild bjargráðsjóðs af hólmi.