Categories
Greinar

Sendiherrar íslenskunnar

Deila grein

05/10/2018

Sendiherrar íslenskunnar

Alþjóðlegur dagur kennara er í dag, 5. október. Af því tilefni var haldið skólamálaþing á vegum Kennarasambands Íslands í gær undir yfirskriftinni »Íslenska er stórmál«. Eftir veruna þar fyllist ég enn meiri bjartsýni fyrir hönd íslenskrar tungu, þar kom fram mikill einhugur og ástríða fyrir framtíð íslenskunnar og þeim möguleikum sem í henni felast. Á málþinginu var skrifað undir viljayfirlýsingu um mikilvægi íslensks máls en að henni standa auk Kennarasambandsins, forsætisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og samtökin Heimili og skóli. Markmið þessarar yfirlýsingar er að finna víðtækan samstarfsgrundvöll til að vekja athygli og áhuga á íslenskunni, stuðla að virkri notkun tungumálsins og vinna að jákvæðari viðhorfum, ekki síst barna og unglinga, til íslenskrar tungu.

Á málþinginu voru einnig kynntar fyrstu niðurstöður rannsóknar Sigríðar Sigurjónsdóttur og Eiríks Rögnvaldssonar á stafrænum áhrifum alþjóðamáls á íslensku. Þar er meðal annars fjallað um net- og snjalltækjanotkun barna, viðhorf þeirra og áhuga á ensku, málkunnáttu og málumhverfi. Þær tölur sem kynntar voru eru úr netkönnun meðal barna á aldrinum 3-12 ára og veita þær afar forvitnilegar vísbendingar um þá hröðu þróun sem nú á sér stað í málumhverfi okkar. Það vakti athygli mína að samkvæmt þeim tölum nota 19% þriggja til fimm ára barna netið á hverjum degi, og 8% þeirra barna byrjuðu að nota snjalltæki fyrir eins árs aldur. Þetta er tímamótarannsókn en henni er ekki lokið og úrvinnsla gagna raunar nýhafin en þessar fyrstu niðurstöður eru sannarlega umhugsunarverðar. Það bendir ýmislegt til þess að viðhorf barna og ungmenna til íslensku sé að breytast og því er mikilvægt að gefa gaum.

Foreldrar eru fyrirmyndir barna sinna og það eru kennarar einnig. Kennarar eru einir af mikilvægustu áhrifavöldum sem unga fólkið okkar kemst í tæri við. Þeir skipta sköpum fyrir framtíð íslenskunnar og góð þekking þeirra, áhugi og ástríða fyrir tungumálinu getur svo auðveldlega smitast til nemenda. Þeir geta verið, svo vísað sé til orða frú Vigdísar Finnbogadóttur, sendiherrar íslenskunnar. Það er dýrmætt að kennarar taki virkan þátt í því að snúa vörn í sókn fyrir tungumálið okkar. Við höfum greint frá fjölþættum aðgerðum stjórnvalda er einmitt miða að því og þar gegnir menntakerfið og kennarar lykilhlutverki.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. október 2018.