Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun 18. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi (KFSV)

Deila grein

12/11/2018

Stjórnmálaályktun 18. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi (KFSV)

18. Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi (KFSV) haldið í Kópavogi, föstudaginn 9. nóvember 2018, lýsir yfir ánægju sinni með stjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og þann stjórnarsáttmála sem samstarfið byggir á.
Kjördæmisþingið þakkar þann góða stuðning sem listar flokksins fengu í kjördæminu í sveitastjórnarkosningunum sem leiddi til þess að framsóknarmenn eru nú í meirihluta í tveimur af stærstu sveitarfélögum landsins, Kópavogi og Hafnarfirði.
Kjördæmisþingið fagnar því að tillaga samgönguráðherra að samgönguáætlun sé komin fram og að fimm ára samgönguáætlun sé fullfjármögnuð.  Fátt er þó mikilvægara í daglegu amstri íbúa kjördæmisins en bættar samgöngur og er ljóst að væntingar eru um mun hraðari uppbyggingu samgangna í kjördæminu en þar birtist.
Kjördæmisþingið leggur áherslu á að helstu mál flokksins í húsnæðismálum gangi eftir er varðar möguleikann á að nýta lífeyrisiðgjald til að kaupa á fyrstu íbúð (svissneska leiðin), að afborgunarhlé verði á námslánum af sama tilefni, bann við verðtryggingu á nýjum neytenda- og íbúðalánum og að húsnæðiskostnaður falli út úr vísitölu neysluverðs.
Kjördæmisþingið leggur áherslu á að jafna kjör í komandi kjarasamingum og að undið verði ofan af því launaskriði sem hefur verið í efstu lögum samfélagsins.  Hér á landi eiga að vera jöfn tækifæri og samtal stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins um stefnu í húsnæðismálum, launaþróun, atvinnuleysistryggingar, stefnu í menntamálum, samspil launa, bóta og skatta er lykilinn að farsælli lausn fyrir allt samfélagið.
Kjördæmisþingið telur menntun, menningu og íþróttir vera lykilstoðir í samfélagi okkar.  Því skiptir miklu máli að auka fjárveitingar til háskólanna og framhaldsskólanna til að efla starf þeirra. Lengi hefur verið beðið eftir breytingum á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna.  Tekur kjördæmisþingið undir áherslur menntamálaráðherra um að breyta hluta námslána í námsstyrk, nýta LÍN til að stuðla að jafnræði til náms út um allt land og bregðast við alvarlegum skorti á ákveðnum starfsstéttum.
Kjördæmisþigið lýsir yfir áhyggjum af skorti á kennaramenntuðum starfsmönnum í leikskólum landsins. Rannsóknir sýna fram á að snemmtæk íhlutun í menntun og öðrum málefnum barna skiptir sköpum um þroska og velferð hvers einstaklings . Mikilvægt er að grípa til úrræða sem gerir starf innan leikskóla eftir sóknarvert svo hæfasta fólkið veljist til starfa.
Kjördæmisþingið lýsir yfir áhyggjum af aukinni vanlíðan ungs fólks og brottfalli þess úr framhaldsskóla. Mikilvægt er að skimma fyrir líðan nemenda í grunnskóla og grípa inn í fyrr en nú er gert og veita börnum aðstoð og þjálfun við hæfi. Einnig er mikilvægt að börn, unglingar og ungt fólk eigi greiðan aðgang að sálfræðiaðstoð og öðrum stuðningi sem hvetur þau til samfélagslegrar virkni og stuðlar að vellíðan.
Kjördæmisþingið telur að margt hafi áunnist með EES samningnum en leggur áherslu á að vegna sérstöðu Íslands beri að gæta þess að taka ekki upp ónauðsynlegt og hamlandi regluverk sem sniðið er að aðstæðum á meginlandi Evrópu. Til dæmis er ástæða til að hafna þriðja orkupakka ESB og leita allra leiða til að verja íslenskan landbúnað fyrir hættum sem stafa af óheftum innflutningi.