Categories
Greinar

Hin þögli sjúkdómur – vefjagigt

Deila grein

09/11/2018

Hin þögli sjúkdómur – vefjagigt

Einstaklingum sem metnir eru til örokur hefur fjölgað ár frá ári. Fjölgun þeirra sem metnir hafa verið 75% öryrkjar fjölgaði um 3,9% milli áranna 2016 og 2017.

Það eru fjölmargar ástæður sem liggur á bak við örorku einstaklinga en einn sjúkdómur sem hefur meiri tíðni hér en víða erlendis er vefjagigt samkvæmt svari við fyrirspurn minni til heilbrigðisráðherra á sl. vetri.

Vefjagigtargreining var talin meðvirkandi þáttur í 75% örorku hjá 14% allra kvenna sem voru á örorku. Örorka vefjagigtarsjúklinga orsakast oft af samverkandi þáttum vefjagigtar, annarra stoðkerfissjúkdóma og geðsjúkdóma.

Konur í meirihluta

Talið er að vefjagigt hrjái 2-13% fólks á hverjum tíma hún er algengari hjá konum en körlum eða 3-4 konur á móti einum karli. Það eru ekki til heildarupplýsingar um fjölda einstaklinga sem greinir hafa verið hér á landi en í rannsókn frá 1998 reyndist algengi vefjagigtar vera 5,6% á meðal 18 ára einstaklinga og eldri en erlendis er algengi vefjagigtar oftast á bilinu 1-4%. Vefjagigt er yfirleitt langvinnur sjúkdómur sem ekki læknast og því fjölgar í hópi vefjagigtarsjúklinga með hækkandi aldri.

Árangur af meðferð

Engar ritrýndar niðurstöður hafa verið birtar um árangur af meðferð á vefjagigt á Íslandi. Þraut – miðstöð um vefjagigt hefur tekið saman upplýsingar um árangur endurhæfingar fyrir fjögurra ára tímabil, árin 2011–2015. Niðurstöðurnar voru annars vegar birtar í skýrslu Þrautar til Sjúkratrygginga Íslands árið 2014 og hins vegar í nýlokinni meistararitgerð Sigríðar Björnsdóttur í sálfræði við Háskólann í Reykjavík. Niðurstöðurnar sýna þýðingarmikinn, marktækan bata eftir endurhæfingu hvað varðar heildarstöðu sjúklinganna, færni og lífsgæði. Niðurstöðurnar sýna einnig að verkir, þreyta, andleg líðan og streitueinkenni batna marktækt eftir endurhæfingu.

Fræðsla og forvarnir

Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að fela heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir fræðslu til almennings um vefjagift og láta fara fram endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu með það að markmiði að styrkja greiningarferlið og geta boðið upp á heildræna meðferð byggða á niðurstöðum gagnreyndra rannsókna.

Heilbrigðiskerfið þarf að leggja eyrun við þessum þögla sjúkdómi og viðurkenna hann sem stóran þátt í að konur á öllum aldri séu að detta út af vinnumarkaði og einangrast heima með verkjasjúkdóm sem gerir einstaklinginn óvirkan bæði á vinnumarkaði og sem þátttakanda í samfélaginu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Norðvesturkjördæmis.