Categories
Greinar

Bæta þarf stöðu drengja í menntakerfinu

Deila grein

09/11/2018

Bæta þarf stöðu drengja í menntakerfinu

Okkur ber skylda til þess að hlúa sem best að velferð barna og ungmenna og tryggja þeim tækifæri til þess að þroskast og dafna. Menntakerfið er eitt mikilvægasta jöfnunartæki okkar og þar er lagður grunnur að tækifærum framtíðarinnar. Samkvæmt nýjustu skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. OECD) um menntatölfræði eru meginstyrkleikar íslenska menntakerfisins gott aðgengi að menntun og góð samskipti nemenda og kennara. Í þeirra tölum hefur einnig komið fram að íslenskt skólakerfi einkennist af jöfnuði.

Lesskilningur

Kveikjan að þessum skrifum er umræða í þinginu í gær um stöðu drengja. Hún bar yfirskriftina »Drengir í vanda« og þar ræddu þingmenn vítt og breitt um stöðu íslenskra drengja. Ég færi Karli Gauta Hjaltasyni, þingmanni Flokks fólksins, þakkir fyrir að vekja máls á þessu brýna málefni. Mér er málið hugleikið og líkt og samstarfsfólk mitt í þinginu hef ég áhyggjur af slökum lesskilningi íslenskra drengja. Niðurstöður PISA-rannsóknarinnar 2015 sýndu að 29% íslenskra drengja væru í lægstu hæfniþrepum prófsins og gætu ekki lesið sér til gagns. Það er stórt samfélagslegt verkefni að bæta læsi íslenskra barna og að því vinnum við í sameiningu. Eitt mikilvægt tæki til þess eru lesfimipróf sem innleidd hafa verið. Vísbendingar eru um að okkur miði í rétta átt samkvæmt nýjustu niðurstöðum.

Brotthvarf

Töluverður munur er á brotthvarfi nemenda úr framhaldsskólum eftir kynjum og þar hallar á drengina. Á Íslandi eru fleiri karlar á aldrinum 25-34 ára án framhaldsskólamenntunar en í flestum öðrum vestrænum ríkjum. Menntunarstig þjóðarinnar hefur aukist mjög á sl. tíu árum, en háskólamenntuðum konum hefur fjölgað mun hraðar en körlum þannig voru konur eru tveir af hverjum þremur sem brautskráðust af háskólastigi hér á landi á árunum 2015-2016. Að undanförnu höfum við gripið til aðgerða til að sporna við brotthvarfi úr framhaldsskólum m.a. með því að veita auknum framlögum til skólanna til að mæta nemendum í brotthvarfshættu, hefja skimun fyrir brotthvarfi og vinna að bættri geðheilbrigðisþjónustu fyrir nemendur í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið.

Samstarf um árangur

Vellíðan og velgengni nemenda er stöðugt verkefni skólafólks og menntakerfisins í heild. Þar þurfa margir þættir að koma saman til að árangur náist og hann sé viðvarandi. Nú í haust var stigið gott skref í þá átt að auka samstarf í þágu barna þegar ráðherrar félags- og jafnréttismála, dómsmála, samgöngu- og sveitarstjórnarmála, heilbrigðismála og mennta- og menningarmála undirrituðu viljayfirlýsingu þess efnis, ásamt fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í viljayfirlýsingunni kemur fram að við hyggjumst auka samstarf okkar á þeim málefnasviðum er snúa að velferð barna og brjóta niður múra sem myndast geta milli kerfa. Markmiðið er skýrt; að tryggja sem best að börn og ungmenni fái heildstæða og samhæfða þjónustu þvert á stofnanir og kerfi.

Snemmtæk íhlutun

Þessi viljayfirlýsing kallast á við þær áherslur sem við höfum talað fyrir er snerta snemmtæka íhlutun. Hún felur í sér að börn og ungmenni fái aðstoð og hjálp sem fyrst á lífsleiðinni og þeim sé veitt liðsinni áður en vandi þeirra ágerist. Við náum mestum árangri með snemmtækri íhlutun þegar allir leggja sig fram við að eyða þeim hindrunum sem geta skapast milli málefnasviða, stjórnsýslustiga og stofnana þegar kemur að því flókna verkefni að stuðla að velferð barna.Íslenskt menntakerfi er öflugt og mörgum kostum búið. Við viljum gera enn betur og sóknarfærin eru víða. Menntatölfræði og niðurstöður rannsókna eru mikilvæg innlegg í þá stefnumótun sem nú stendur yfir vegna mótunar menntastefnu til ársins 2030. Eitt af því sem er til skoðunar þar er hvernig við getum forgangsraðað með skilvirkari hætti í þágu þeirra sem mæta áskorunum í menntakerfinu, hvort sem það eru drengir eða stúlkur.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. nóvember 2018.