Categories
Greinar

Hugsum út fyrir búðarkassann

Deila grein

08/11/2018

Hugsum út fyrir búðarkassann

Á Íslandi höfum verið svo lánsöm að búa við þær aðstæður að íslenskar landbúnaðarafurðir eru með því heilnæmasta sem finnst í heiminum. Búfjársjúkdómar eru sjaldgæfir vegna legu landsins og vegna þess hvernig bændur hafa staðið að búskap sínum. Við erum því í einstakri og eftirsóknarverðri stöðu þegar kemur að því að kaupa í matinn. Við getum valið íslenskt og verið örugg um það að sú vara er með því öruggasta og besta sem fyrirfinnst í matvöruverslunum í heiminum.

Uppgjör dagsins

Einhver myndi halda að slík sérstæða væri eitthvað sem vert væri að halda í. Það eru þó ekki allir á því máli eins og kemur fram í vilja einstakra kaupmanna og heildsala sem hafa lengi barist fyrir því að opna landið fyrir erlendum matvælum, nú síðast hráu kjöti. Eftir langvinn málaferli hafa þeir nú unnið sigur og ættu að geta flutt inn hrátt kjöt óheft frá aðildarríkjum EES-samningsins. Þeir gleðjast um stund yfir því að geta fengið meira í kassann því álagningin á verksmiðjuframleitt innflutt kjöt gefur líklega í meira í kassann. Alveg eins og léttvínið og bjórinn sem þeim er svo mikið í mun um að fá í rekkana í verslunum sínum.

Unnið gegn lýðheilsu

Þetta er kallað viðskiptafrelsi og grundvallast á samningum við ESB. Við getum selt fisk án takmarkana og á sama tíma er ætlast til að hingað sé flutt inn hrátt kjöt án takmarkana. Málið er hins vegar ekki svo einfalt. Það sem við látum ofan í okkur getur ekki aðeins snúist um krónur og aura eða evrur ef því er að skipta. Ég tel ekki eðlilegt að Evrópusambandið geti skyldað Íslendinga til að taka upp löggjöf sem vinnur gegn heilbrigði þjóðarinnar.

Ónæmi gegn sýklalyfjum er alvarlegt mál

Heilbrigði dýra og heilnæmi matar er grundvallaratriði þegar kemur að innflutning á hráum kjötvörum. Þar standa þær Evrópuþjóðir sem mest framleiða af kjöti einfaldlega ekki á sama plani og Íslendingar. Sú matvara sem við erum svo lánsöm að hafa notið hér í boði íslenskra bænda er einfaldlega heilnæmari og betri en mikið af því kjöti sem boðið er upp á í Evrópu. Þetta er staðreynd þegar litið er til þess hversu algengt salmonellu- og kamfýlóbaktersmit er í kjöti í ríkjum ESB; þetta er staðreynd þegar litið er til þess magns af sýklalyfjum sem notað er í landbúnaði á meginlandinu og er farið að gera það að verkum að fólk myndar með sér sýklalyfjaónæmi. Þetta er ekki hræðsluáróður. Þetta er ekki pólitík. Þetta eru staðreyndir.

Sveitir landsins eru ekki menningartengd ferðaþjónusta

Áhrifin af innflutningi á hráu kjöti hefur einnig áhrif á lifandi dýr en þess eru dæmi að sýkt hrátt kjöt hafi smitað búpening með skelfilegum afleiðingum. Áhrifin eru einnig efnahagsleg því hvernig eiga íslenskir bændur að keppa við risastór verksmiðjubú meginlandsins í verði? Viljum við þakka íslenskum bændum fyrir að byggja hér upp heilbrigðan bústofn og framleiða heilnæmar vörur með því að leyfa versluninni að flytja inn hrátt kjöt og stefna lýðheilsu í hættu? Viljum við knýja þá til að stíga niður á sama plan og mörg lönd Evrópu eru að glíma við að komast út úr? Framsókn segir nei. Íslenskar sveitir eru ekki menningartengd ferðaþjónusta til sýnis í vorferð Viðreisnar.

Herða frekar en hitt?

Nýverið sýndi rannsókn að bakteríur, ónæmar fyrir sýklalyfjum, hefðu fundist í 13 sýnum af innfluttu grænmeti en ekkert fannst í íslensku grænmeti. Kannski ættum við í ljósi rannsókna að herða frekar löggjöfina þegar kemur að innflutningi á matvælum heldur en að gefa eftir. Framsókn mun leita allra leiða með samstarfsflokkum sínum í ríkisstjórn og á vettvangi Norðurlanda til að koma í veg fyrir að heilsu landsmanna verði fórnað fyrir skammtímahagsmuni.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og dýralæknir.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. nóvember 2018.