Categories
Greinar

Sameiginlegt hagsmunamál

Deila grein

05/11/2018

Sameiginlegt hagsmunamál

Innflutningur á kjöti hefur stóraukist eftir að íslensk stjórnvöld slökuðu á þeim höftum sem beitt hefur verið til að styðja við íslenska kjötframleiðslu og til að verja íslenska búféð.  Lega landsins hefur verndað íslenskt búfé fyrir búfjársjúkdómum sem herja á erlent búfé. Nú er svo komið að fjórðungur á kjötmarkaði hér á landi er innflutt kjöt. Á sama tíma berast fréttir af alvarlegum búfjársjúkdómum sem enn skjóta sér niður erlendis eins og kúariða í Skotlandi og afrísk svínapest sem nú herjar í Evrópu.

Loftslagsmál eru eitt helsta áherslumál ríkisstjórnarinnar.
Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum miðar að því að Ísland nái markmiðum Parísarsamningsins til 2030 og metnaðarfullu markmiði ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040. Hluti af þeirri áætlun hlýtur að vera að stefna að því að styrkja innlenda matvælaframleiðslu og styrkja alla umgjörð um nýtingu lands í átt að sjálfbærni. Innlend matvælaframleiðsla er best til þess fallin að fækka kolefnissporum og stuðla að minni umhverfissporum.

Opin landamæri

Við höfum verið á hraðferð við að opna landið fyrir innflutningi fyrir landbúnaðarafurðum. Fylgjendum þeirra sem tala fyrir frjálsum innflutningi segjast tala máli neytenda og tala fyrir frelsi bænda. Ekki skal dregið úr þeirri staðreynd að málefni neytenda og íslenska landbúnaðarins fari saman. Það á líka við þegar kemur að auknum innflutningi landbúnaðarvara. Það er stórt hagsmunamál íslensks landbúnaðar og neytenda að brugðist verði við auknum innflutningi á hráu kjöti, ógerilssneyddum mjólkurvörum og hráum eggjum. Þar getur hreinlega skilið á milli feigs og ófeigs í hreinleika íslenskra búvara.  Aldargamalli baráttu íslenskra vísindamanna og bænda við innflutta búfjársjúkdóma hefur orðið mikið ágengt en er nú virt að vettugi.

Íslensk stjórnvöld samþykktu árið 2010  að innleiða matvælagjöf ESB með það að leiðarljósi að íslensk lög um dýrasjúkdóma myndu standa með því að ekki yrðu flutt hingað hráar dýrafaurðir. En sakleysi okkar og trú á því að ekki yrði farið yfir þá varnargarða er orðið að engu með niðurstöðu EFTA dómstólsins.

Tryggja þarf varnir landsins

Það er ljóst að við verðum að breyta um stefnu. Okkar vopn eru okkar frábæru hreinu landbúnaðarvörur sem okkur ber að verja. Niðurstaða EFTA brýtur á rétti okkar allra, ekki síst neytenda, heilbrigði dýra og matvælaöryggis. Tilgangur innleiðingar á matvælalöggjöf ESB hefur snúist í andhverfu sína. En með matvælalöggjöfinni átti að styrkja hag neytenda.

Það verður að ná samningum við ESB á grundvelli EES samningsins um að Íslandi verði heimilað að verja okkar dýrastofna gegn búfjársjúkdómum. Það þýðir að við verðum að koma í veg fyrir innflutning á hráu kjöti og sækja þarf strax um allar tryggingar sem til eru í þá veru. Auka þarf eftirlit með innflutningi og tollahliðum. Þannig geta íslensk stjórnvöld tryggt að íslenskur landbúnaður standi jafnfætis í samkeppni á markaði.

Matvæla- og landbúnaðarráðuneyti

Íslenskur landbúnaður er á krossgötum. Það er komið að þeim tímamótum að blása byr í seglin með íslenskum neytendum og landbúnaði. Stofna ætti sér matvæla- landbúnaðarráðuneyti. Þar undir ættu landbúnaðar- matvæla- og neytendamál og þetta væri liður í metnaðarfullri áætlun í lofslagsmálum. Með því að styrkja stjórnsýsluna er stutt við sjálfbærni, nýsköpun og vöruþróun íslenskra matvælaframleiðslu. Draga þarf enn frekar fram sérstöðu íslenskrar framleiðslu og umhverfislega þýðingu þess að nýta betur innlend aðföng eftir því sem hægt er. Þegar þangað er komið getum við sagt að hagur íslenskra neytenda sé borgið.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokksins.

Þórarinn Ingi Pétursson, varaþingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 1. nóvember 2018.