Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun 23. Kjördæmisþings KFNA

Deila grein

09/11/2023

Stjórnmálaályktun 23. Kjördæmisþings KFNA

Stjórnmálaályktun 23. Kjördæmisþings Framsóknar í Norðausturkjördæmi (KFNA) haldið á Eiðum 4. nóvember 2023.

Efnahagsmál

Þingið krefst þess að ríkisstjórnin vinni gegn verðbólgunni. Sú vinna verði í forgangi annarra verkefna í samvinnu við samfélagið allt.

Samgöngur og fjarskipti

Samgöngur og fjarskipti eru undirstaða uppbyggingar samfélaga og verðmætasköpunar. Þingið leggur áherslu á endurskoðun gjaldtöku af samgöngum til fjármögnunar samgönguframkvæmda, þannig að hægt verði að auka fjármagn til nýframkvæmda í samgöngum um leið og aðstæður í efnahagslífinu leyfa.  Þingið fagnar því að jarðgangaáætlun  sé komin fram þar sem forgangsröðun gangna er með Fjarðarheiðargöng fyrst á dagskrá. Lögð er áhersla á að Fjarðarheiðargöng verði boðin út sem fyrst og að samhliða verði unnið að rannsóknum á næstu jarðgangakostum í kjördæminu.

Þingið ályktar að heildstæðu almenningssamgöngukerfi verði komið á og jafnræðis gætt í gjaldtöku á umferð. Þingið fagnar varaflugvallagjaldi og leggur áherslu á að tilkoma þess tryggi viðhald alls flugvallakerfisins.  Loftbrúin verði þróuð áfram þannig að hún nýtist íbúum og að verð á flugvélaeldsneyti verði jafnað.

Þingið vekur athygli á því að skortur á ljósleiðaratengingum í minni byggðarlögum er orðin veruleg hindrun fyrir íbúa þar og leggur áherslu á að sem fyrst fáist niðurstaða um hvernig unnið verði að því að koma ljósleiðaratengingu inn á þau heimili sem enn eru ótengd.

Orkuöflun og orkuskipti

Þingið ályktar að hraða þurfi orkuskiptum með áherslu á orkuöflun og uppbyggingu raforkumannvirkja þar sem nýting og vernd fari saman í sátt við nærsamfélagið. Áfram verður að byggja upp Byggðalínuna, koma dreifikerfinu i í jörð og vinna hratt að þrífösun rafmagns.

Viðbrögð við náttúruhamförum

Þingið skorar á ríkisvaldið að fara í heildarendurskoðun á vöktun og forvörnum vegna náttúruhamfara og tryggingarverndar í kjölfar þeirra. Horft verði til nýlegra atburða og farið í aðgerðir með heildarsamhengi í huga. Uppbyggingu mannvirkja til varnar ofanflóðum verði lokið árið 2030 eins og áætlað er.

Lögregla og sýslumenn

Þingið ályktar að embætti lögreglu og sýslumanna verði efld þannig að nærþjónusta við íbúa sé tryggð á hverjum tíma.

Menntun

Þingið styður markvissa innleiðingu farsældarlaganna, fyrirhugaða eflingu skólaþjónustu þvert á skólastig og stofnun nýrrar þjónustustofnunar í menntamálum. Þingið fagnar aukinni aðsókn í iðn-, tækni- og verkgreinar og hvetur ríkisvaldið til að bregðast betur og hraðar við aukinni eftirspurn um land allt. Þingið hvetur ráðherra til að vinna með skólasamfélögunum við mótun framtíðarsýnar í samræmi við aðstæður og þarfir ólíkra samfélaga

Tryggja þarf burði háskóla og rannsóknar- og þekkingarsetra til að sækja fjármagn í nýsköpunar- og rannsóknarsjóði í samvinnu við atvinnulífið um land allt. Brýnt er að framfarir í fjarkennslu og stafrænni miðlun tryggi öllum íbúum tækifæri til náms.

Atvinna og nýsköpun

Nýsköpun og uppbygging grunninnviða skapa atvinnutækifæri. Þingið ályktar að landsmenn greiði sama verð fyrir dreifingu raforku.

Þingið ályktar að styrkja þurfi eðlileg starfsskilyrði í landbúnaði og tryggja sanngirni í samkeppni innlendrar framleiðslu við innflutta. Endurskoða þarf tollvernd innlendrar matvælaframleiðslu og framkvæmd tollafgreiðslu. Gerðar verði sambærilega kröfur til framleiðsluaðstæðna og gæða vöru. Huga þarf að tækifærum til nýsköpunar fyrir fyrirtæki m.a. til að auka verðmæti afurða, bæði á landi og sjó.

Undangengin ár hefur hallað mjög á kjör bænda. Mikilvægt er að snúa þeirri óheillaþróun við t.d. með því að veita bændum lán í gegnum Byggðastofnun á lágum vöxtum til lengri tíma. Til að nýliðun/ættliðaskipti í landbúnaði geti átt sér stað þarf hið opinbera að koma myndarlega að málum. Í því samhengi skal horfa til hlutdeildarlána til nýliða í landbúnaði.

Þingið skorar á stjórnvöld að efla smábátaútgerð og tryggja sanngjarnari skiptingu strandveiðiheimilda.

Heilbrigði – lýðheilsa og forvarnir

Þingið ályktar að heilbrigðisþjónusta þarf ávallt að vera aðgengileg óháð efnahag og búsetu. Halda þarf áfram góðu starfi við uppbyggingu þverfaglegrar þekkingar í heilsugæslunni sem grunn að góðri heilbrigðisþjónustu. Mikilvægi geðheilbrigðisteyma innan heilsugæslunnar er öllum ljós og tryggja þarf starfsemi þeirra. Tryggja þarf aðgengi að sérfræðiþjónustu í samráði við heilbrigðisstofnanir. Þingið fagnar sérstaklega langþráðum langtímasamningi við sérgreinalækna frá júní, samningum um liðskiptaaðgerðir, þjónustu vegna endómetríósu,  hærri styrkjum til almennra tannréttinga, stefnu í geðheilbrigðismálum  og tímamótasamningi um starfsendurhæfingu ungs fólks.

Áfram verði unnið að innleiðingu á nýrri tækni og stafrænum lausnum í velferðar- og heilbrigðisþjónustu. Þannig verði stuðlað að betri þjónustu, auknum gæðum og hagkvæmni í rekstri um leið. Huga verði sérstaklega að fjarheilbrigðisþjónustu.

Þingið hvetur ráðherra heilbrigðismála til áframhaldandi endurskoðunar og umbóta á bráðaþjónustu, þar með talið sjúkraflutningar, sjúkraflug og þyrluþjónustu.

Eldra fólk

Það er gott að eldast og verkefni stjórnvalda er að tryggja það.

Samvinnu- og þróunarverkefnið Gott að eldast er lykill að framþróun þjónustu við aldraða. Þingið leggur áherslu á að lærdómur verði dreginn af verkefninu á framkvæmdatíma þannig að nauðsynlegar kerfisbreytingar verði gerðar til að hægt sé að veita þjónustu í takt við þarfir hvers einstaklings.

Þingið telur mjög mikilvægt að stjórnvöld tryggi sveitarfélögum og óhagnaðardrifnum byggingafélögum ódýrt fjármagn til uppbyggingar á lífsgæðakjörnum, leigu-, eigna- og búseturéttaríbúðum fyrir eldra fólk.

Þingið leggur áherslu á að stjórnvöld séu stöðugt með vöktun á stöðu þeirra er verst standa og komi með viðeigandi aðgerðir. Bregðast þarf við réttmætum kröfum eldri borgara og hækka almenna frítekjumarkið sem hefur staðið óbreytt síðastliðin sex ár.

Tekjur af auðlindum

Þingið ályktar að tryggja þurfi eðlilegar tekjur af auðlindanýtingu til nærsamfélagsins s.s. vegna orkuöflunar og fiskeldis.

Flokksmálaályktun

Grunnur að góðu félagsstarfi felst í grasrótinni. Hlúa þarf að flokksstarfinu og leita nýrra leiða til að styrkja starfið enn frekar með hliðsjón af tækniframförum og breytingum á samfélagsgerð.

Mikilvægt er að endurskoðun á innra starfi ljúki sem fyrst svo hægt sé að hefjast handa við úrbætur.

***