Categories
Fréttir

Bréf frá formanni Þingflokks Framsóknar

Deila grein

09/11/2023

Bréf frá formanni Þingflokks Framsóknar

Ágætu vinir!

Haustfundur miðstjórnar Framsóknar verður haldinn helgina 18.-19. nóvember í Vík í Mýrdal. Skrifstofa flokksins hefur verið önnum kafin við undirbúning fundarins, útlit er fyrir góða mætingu og má reikna með öflugum umræðum og góðri skemmtun.

Undanfarnar vikur hafa verið haldin kjördæmisþing flokksins víða um land. Í heildina hefur mæting á þingin verið góð, umræður öflugar og á stöku þingum hafa stjórnmálaályktanir verið ræddar og afgreiddar. Kynning á innra starfi flokksins hefur verið sérstakur dagskrárliður og þeirri vinnu verður framhaldið á komandi miðstjórnarfundi.

Fjölmörg mál hafa komið til kasta þingsins á liðnum vikum. Hæst ber eins og áður fjárlög næsta árs en stefnt er að annarri umræðu fjárlaga 21. nóvember ef allt gengur eftir. Formaður, Sigurður Ingi mælti fyrir Samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038 í þinginu á dögunum en henni hefur nú verið vísað til umhverfis- og samgöngunefndar. Reikna má með að málið verði fyrirferðarmikið á þeim vettvangi en áhersla er lögð á að vinna málið jafnt og þétt.
Þingmenn flokksins hafa verið öflugir það sem af er vetri og mælt fyrir sínum þingmannamálum auk þess að óska eftir sérstökum umræðum.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir var málshefjandi í sérstakri umræðu um slysasleppingar í sjókvíaeldi við matvælaráðherra. Óhætt er að taka undir með Lilju Rannveigu um mikilvægi þess að ef sjókvíaeldi eigi að byggjast upp í sátt við umhverfi og samfélag, verði að tryggja að eftirlitið sé í lagi.

Samtök ungra bænda boðuðu til baráttufundar á dögunum. Fundurinn var kröftugur þar sem ungir bændur komu skilaboðum sínum vel á framfæri. Lögð var fram ályktun þess efnis hve erfitt væri fyrir unga bændur að koma inn í greinina en eðlileg nýliðun sé forsenda áframhaldandi landbúnaðar og fæðuöryggis í landinu. Beint var þeim mikilvægu skilaboðum til stjórnvalda að hlusta vel þegar rekstrarumhverfi landbúnaðarins er rætt.

Verulegar breytingar hafa orðið á rekstrarumhverfi bænda undanfarna mánuði vegna hækkun stýrivaxta og hefur undirrituð ásamt Þórarni Inga boðað til opinna funda með bændum í Norðausturkjördæmi. Þegar þetta er ritað hafa tveir af þremur fundum verið haldnir við mikla aðsókn. Umræður hafa verið málefnalegar en ljóst að staðan er þung og aðgerða er þörf.

Náttúruöflin hafa minnt rækilega á sig undanfarna daga með jarðhræringum á Reykjanesskaga og sjáum við hversu vanmáttug við erum í aðstæðum sem þessum. Innviðir og innviðaöryggi hefur verið í umræðunni enda töluverð hætta komi til eldgoss að ekki sé til nægur búnaður hér á landi sem gæti tekið við, skyldi heitavatnsframleiðsla í Svartsengi stöðvast.
Sérfræðingar fara yfir viðbragðsáætlanir enda miklir almannahagsmunir í húfi.
Upplýsingafundir hafa verið mikilvægt innlegg í atburði þessa daga, þar sem Orkumálastjóri og sérfræðingar HS Orku og HS Veitna hafa farið yfir sviðið.

Á Alþingi í dag var lögð fram og rædd þingsályktunartillaga utanríkismálanefndar um afstöðu Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs. Dregin eru fram skýr sjónarmið Ísland en hér meðfylgjandi er tillagan eins og hún var lögð fram og samþykkt samhljóða.

   „Alþingi ályktar að án tafar skuli komið á vopnahléi af mannúðarástæðum á Gaza-svæðinu svo tryggja megi öryggi almennra borgara, jafnt palestínskra sem ísraelskra.
   Alþingi fordæmir öll ofbeldisverk sem beinast gegn almennum borgurum í Palestínu og Ísrael. Alþingi krefst þess að alþjóðalögum sé fylgt í einu og öllu í þágu mannúðar, öryggis almennra borgara og verndar borgaralegra innviða.
   Alþingi fordæmir hryðjuverkaárás Hamasliða á almenna borgara í Ísrael sem hófst 7. október 2023. Alþingi fordæmir sömuleiðis allar aðgerðir ísraelskra stjórnvalda í kjölfarið sem brjóta gegn alþjóðlegum mannúðarlögum, þ.m.t. óheyrilega þjáningu, manntjón, mannfall almennra borgara og eyðileggingu borgaralegra innviða. Brýnt er að öll brot stríðandi aðila á alþjóðalögum verði rannsökuð til hlítar.
   Alþingi kallar eftir mannúðlegri meðferð á og tafarlausri lausn gísla, aðgengi hjálpar- og mannúðarsamtaka og að neyðarvistum og læknisaðstoð verði komið til almennings tafarlaust.
   Alþingi felur ríkisstjórninni að beita sér fyrir viðbótarframlagi til mannúðaraðstoðar og rannsóknar á brotum á alþjóðalögum til að fylgja eftir þeim áherslum sem fram koma í ályktun þessari.“

Í máli sem þessu er mikilvægt að samstaða ríki. Skilaboðin eru skýr og mikilvæg þar sem þingheimur sameinast um fordæmingu á ofbeldi, virðingu fyrir alþjóðalögum, vernd almennra borgara og varanlega friðsamlega lausn fyrir þjóðirnar fyrir botni Miðjarðarhafs.

Hlakka til að sjá ykkur á miðstjórnarfundinum!

Framtíðin er björt með Framsókn!
Með kveðju frá Austurvelli,
Ingibjörg Isaksen