Categories
Forsíðuborði Fréttir

Stjórnmálaályktun frá 17. Kjördæmisþingi KFSV

Deila grein

08/11/2017

Stjórnmálaályktun frá 17. Kjördæmisþingi KFSV

17. Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi (KFSV) haldið í Kópavogi 5. nóvember 2017 fagnar niðurstöðu kosninganna 28. október síðastliðinn. Spár gerðu flestar ráð fyrir miklu fylgistapi Framsóknarflokksins frá 2016, en með jákvæðni, samstöðu og baráttugleði að vopni tókst að snúa þeirri þróun við og halda sama þingsætafjölda og áður.
Kosningabaráttan tókst vel og gefur Framsóknarflokknum tækifæri til áframhaldandi uppbyggingar til dæmis í sveitarstjórnarkosningunum næsta vor. Þar þarf að nýta þennan meðbyr til að bjóða fram B-lista í sem flestum
sveitarfélögum í Suðvesturkjördæmi.

Kjördæmisþingið telur mikilvægt að helstu áherslumál flokksins nái fram að ganga á kjörtímabilinu sem nú fer í hönd og hvetur forystuna til að fylgja þeim fast eftir í viðræðum við aðra flokka um ríkisstjórnarsamstarf.
Þar má nefna möguleika á að nýta lífeyrisiðgjald til kaupa á fyrstu íbúð, afborgunarhlé á námslánum af sama tilefni, bann við verðtryggingu á nýjum neytenda- og íbúðalánum og að húsnæðiskostnaður falli út úr vísitölu neysluverðs.
Ennfremur hugmyndir um samfélagsbanka, átak í uppbygginu innviða í heilbrigðis-, samgöngu- og menntamálum sem og hugverka- og þekkingariðnaðar. Þá er minnt á stefnumál um uppbyggingu þjónustu- og hjúkrunaríbúða fyrir aldraðra, afnám skerðinga á atvinnutekjur lífeyrisþega, minni greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu, að byggja þurfi upp geðheilbrigðiskerfið og að ráðast í þjóðarátak gegn ofbeldi.