Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun framsóknarmanna í Norðaustur

Deila grein

08/10/2013

Stjórnmálaályktun framsóknarmanna í Norðaustur

Stjórnmálaályktun kjördæmisþings framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi haldið á Akureyri 5.–6. október 2013.

framsóknKjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi fagnar þeim góða árangri sem flokkurinn náði í kjördæminu og á landsvísu í síðustu alþingiskosningum. Þingið styður núverandi ríkisstjórn undir forystu framsóknarmanna til allra góðra verka.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi fagnar boðuðum aðgerðum til lausnar skuldavanda heimilanna. Leiðrétting á forsendubresti í kjölfar bankahrunsins er lykilatriði til að auka lífsgæði fjölskyldna í landinu.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi leggur áherslu á að framfylgja stefnu Framsóknarflokksins í byggðamálum sem samþykkt var á síðasta flokksþingi. Áframhaldandi uppbygging vegakerfisins er nauðsynleg samhliða almennu viðhaldi. Kannaðar verði forsendur fyrir göngum undir Fjarðarheiði og nýjum Ólafsfjarðargöngum.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi leggur áherslu á trausta heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Mikilvægt er að hagræðing í heilbrigðisþjónustu á landsvísu sé byggð á raunhæfum forsendum og unnin í samráði við heimamenn. Standa þarf vörð um starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri og aðrar heilbrigðisstofnanir í kjördæminu.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi leggur áherslu á að Háskólinn á Akureyri haldi sjálfstæði sínu. Kannaður verði sá möguleiki að taka upp kennslu í héraðs/dreifbýlislækningum við Háskólann á Akureyri í samstarfi við Sjúkrahúsið á Akureyri. Jafnframt bendir þingið á mikilvægi þess að efla verk- og tæknimenntun í ljósi aukinna umsvifa í kjördæminu og á Norðurslóðum.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi leggur til að persónuafsláttur verði hækkaður umfram vísitölu. Slíkt kemur öllum til góða sérstaklega þeim sem minnst hafa. Þingið fagnar afnámi skerðinga sem lagðar voru á eldri borgara og öryrkja. Það er grunnmarkmið og stefna Framsóknarflokksins að hlúa að þeim sem minna mega sín í þjóðfélaginu með öllum tiltækum ráðum.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi hvetur til áframhaldandi uppbyggingar í ferðaþjónustu og nýsköpun. Einnig ber að efla sjávarútveg og landbúnað með það að markmiði að auka framleiðslu og virðisauka. Trygg raforka og aðgangur að hágæða netsambandi er meginforsenda fjölbreyttrar atvinnuuppbyggingar á landsvísu. Þingið fagnar sérstaklega fyrirhuguðum framkvæmdum á Bakka við Húsavík.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi ítrekar að Framsóknarflokkurinn er grænn flokkur og styður atvinnuuppbyggingu og orkunýtingu í sátt við náttúru landsins.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi bendir á að núverandi staðsetning Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni er eitt stærsta byggðamál samtímans og grundvallarforsenda þess að Reykjavík viðhaldi hlutverki sínu sem höfuðborg landsins.