Categories
Greinar

Íslenskur raunveruleiki?

Deila grein

10/10/2013

Íslenskur raunveruleiki?

Elsa Lára ArnardóttirFjármálastöðugleikarit Seðlabanka Íslands kom út í gær og greint var frá því í kvöldfréttum. Þar kom fram að samkvæmt mati Seðlabankans væri fjárhagsleg staða íslenskra heimila að styrkjast vegna þess að skuldir þeirra hafi lækkað og eignir hafi aukist. Fram kom að skuldir íslenskra heimila hafi lækkað um 3,2% að raunvirði og mætti meðal annars rekja hækkunina til hærra fasteignaverðs.

Jafnframt kom fram að vanskil heimila væru enn mikil og gætu aukist ef efnahagslífið yrði fyrir áföllum.

Ég set stórt spurningamerki við þetta mat Seðlabankans og hef miklar efasemdir um að íslensk heimili hafi það betra nú en fyrir einhverjum árum eða mánuðum síðan. Það sýnir sig best í þeim fjölda heimila sem boðin eru upp en það eru um það bil þrjú heimili á dag hvern einn einasta dag ársins.

Ég veit vel, og ég heyri það í kringum mig, að róðurinn þyngist stöðugt þar sem verðtryggðar skuldir heimilanna aukast dag frá degi. Heimilin hafa beðið aðgerða, aðgerða sem munu leiða af sér réttlæti. Því miður hafa margir gefist upp, sumir reynt að selja eignir í þeirri von að losna undan skuldum og þá er húsnæðisverðið sprengt upp úr öllu valdi til að reyna að dekka það sem hvílir á eignunum.

Einnig er spurningin hvort þær eignir sem fjármálastofnanir hafa eignast á undanförnum mánuðum séu teknar með í reikninginn en það eru talsvert háar upphæðir sem liggja þar að baki.

Ég vara því við umræðunni um að íslensk heimili hafi það betra nú en áður. Róðurinn þyngist enn. Enn banka erfiðleikar upp á og ekki batnar ástandið þegar fjöldi lána hrúgast inn úr frystingum eða sértækum skuldaaðlögunum; aðgerða sem gerðu ekkert annað en að lengja aðeins í hengingarólinni ef þannig má að orði komast.

Ég vildi svo sannarlega óska þess að þessi jákvæði tónn sem finna má í riti Seðlabankans ætti við rök að styðjast en þetta er ekki íslenski raunveruleikinn.

Pössum umræðna, verum raunsæ og stöndum með íslenskum heimilum. Það ætlum við framsóknarmenn að gera!

 

ELSA LÁRA ARNARDÓTTIR