Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi

Deila grein

14/10/2013

Stjórnmálaályktun framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi

Stjórnmálaályktun Kjördæmisþings framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi á Sauðárkróki 12.-13. október 2013

 
framsóknKjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi fagnar þeim góða árangri sem flokkurinn náði í kjördæminu og á landsvísu í síðustu alþingiskosningum. Þingið styður núverandi ríkisstjórn undir forystu framsóknarmanna til allra góðra verka.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi fagnar því að undirbúningur aðgerða til lausnar skuldavanda heimilanna er í góðum farvegi. Leiðrétting vegna forsendubrests í kjölfar bankahrunsins er lykilatriði til að auka lífsgæði fjölskyldna í landinu og lykilatriði í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi leggur áherslu á að framfylgja stefnu Framsóknarflokksins í byggðamálum sem samþykkt var á síðasta flokksþingi. Áframhaldandi uppbygging vegakerfisins er nauðsynleg samhliða almennu viðhaldi. Aukin umferð ferðamanna kallar víða á úrbætur á héraðsvegum af öryggissjómarmiðum og því er mikilvægt að horfa sérstaklega til þess að héraðs- og tengivegir verði lagðir bundnu slitlagi. Lögð verði áhersla á að koma öruggum vegasamgöngum um Vestfjarðaveg nr. 60 og bættum vegasamgöngum milli suður- og norðurhluta Vestfjarða. Einnig þarf að finna lausn, í samráði við íbúa Árneshrepps, að bættum samgöngum. Sérstaklega verði hugað að niðurgreiðslu flugsamgangna til hinna dreifðu byggða landsins.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi leggur áherslu á trausta heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og minnir á að heilbrigðisþjónusta er grunnurinn að búsetu. Mikilvægt er að hagræðing í heilbrigðisþjónustu á landsvísu sé byggð á raunhæfum forsendum og unnin í samráði við heimamenn. Standa þarf vörð um starfsemi heilbrigðisstofnanna í kjördæminu. Taka þarf tillit til þess hvað hentar byggðarlögum hverju sinni og hvetur þingið heilbrigðisráðherra til að vinna heilbrigðisstefnu fyrir allt landið í samvinnu við sveitarfélög. Þingið hafnar alfarið fyrirhuguðum sameiningum heilbrigðisstofnana og minnir á lögbundið samráð við sveitarstjórnarmenn og íbúa.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi leggur áherslu á að þingmenn standi vörð um menntastofnanir á framhalds- og háskólastigi, í kjördæminu og að þær haldi sjálfstæði sínu. Jafnframt bendir þingið á að nauðsynlegt er að tryggja áframhaldandi dreifnám, í þeim byggðum þar sem því hefur verið komið á og koma því á þar sem kostur er.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi skorar á ríkisstjórn að hraða áformum í stefnuyfirlýsingu sinni um að jafna raforkukostnað til húshitunar en þau koma ekki fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014. Kjördæmisþingið gerir kröfu um að afhendingaröryggi raforku til Vestfjarða verði tryggt.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi leggur til að í stað almennra skattalækkana verði persónuafsláttur hækkaður. Slíkt kemur öllum til góða sérstaklega þeim sem minnst hafa. Þingið fagnar þeim áfanga sem náðst hefur með afnámi skerðinga sem lagðar voru á eldri borgara og öryrkja. Það er grunnmarkmið og stefna Framsóknarflokksins að hlúa að þeim sem minna mega sín í þjóðfélaginu með öllum tiltækum ráðum.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi hvetur til áframhaldandi uppbyggingar í ferðaþjónustu, hugbúnaðargerð og annari nýsköpun. Mikil sóknarfæri eru í útflutningi á íslenskum afurðum, t.d. sjávar- og landbúnaðarafurðum ekki síst á nýja markaði og hvetur þingið til sameiginlegs átaks framleiðenda og stjórnvalda. Hærra söluverð á gæðavöru bætir hag og stöðu bænda. Þannig ber að efla sjávarútveg og landbúnað með það að markmiði að auka framleiðslu og virðisauka. Þá hvetur þingið til áframhaldandi stuðning við skapandi greinar og minnir á að Framsóknarflokkurinn átti frumkvæði að stuðningi við útflutning á tónlist og skatta endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar hér á landi.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi leggur áherslu á að trygg raforka og aðgangur að háhraða netsambandi er meginforsenda fjölbreyttrar atvinnuuppbyggingar á landsvísu, vinna þarf áfram að því að allir landsmenn búi við jafnt öryggi er kemur að raforku- og samskiptaþjónustu.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi ítrekar að Framsóknarflokkurinn er grænn flokkur og styður atvinnuuppbyggingu og orkunýtingu í sátt við náttúru landsins.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi bendir á að núverandi staðsetning Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni er mikilvægt byggðamál og grundvallarforsenda þess að Reykjavík viðhaldi hlutverki sínu sem höfuðborg landsins og þjónustustigi fyrir landsbyggðina.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi fagnar nýjum áherslum í utanríkismálum undir forystu Framsóknarflokksins sem m.a. fram komu í ræðu utanríkisráðherra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna nú nýlega.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi leggur áherslu á að aukið fjármagn til löggæslu, sérstaklega á landsbyggðinni. Niðurskurður undanfarinna ára hefur skert getu lögreglunnar til að sinna þeim lögbundnu verkefnum sem henni er falið.