Haustfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins, haldinn að Hótel Smyrlabjörgum í Suðursveit dagana 17.-18. nóvember 2018, hvetur ríkisstjórn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs áfram til góðra verka en leggur áherslu á nauðsyn þess að halda áfram öflugri uppbyggingu innviða, atvinnutækifæra og lyfta grettistaki í húsnæðismálum.
Þjóðarátak í húsnæðismálum
Lyfta þarf grettistaki í húsnæðismálum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga með það að markmiði að auka framboð af íbúðarhúsnæði á landinu öllu á viðráðanlegu verði. Það er óviðunandi hversu hægt sum sveitarfélög, með Reykjavík í broddi fylkingar, hafa dregið lappirnar í lóðaúthlutunum og ýtt þannig undir miklar og óraunhæfar verðhækkanir á húsnæði. Sérstaklega þarf að huga að stöðu fyrstu kaupenda og þeirra sem koma að nýju inn á húsnæðismarkaðinn og Skorar miðstjórn Framsóknarflokksins á ríkisstjórnina alla að vinna svissnesku leiðinni brautargengi á kjörtímabilinu enda eru húsnæðismál velferðarmál.
Menntamál eru efnahagsmál
Ríkisstjórnin á að halda áfram sókn sem er hafin í menntamálum landsins. Menntastefna og atvinnustefna verða að haldast í hendur enda getur skortur á vinnuafli í ýmsum fagstéttum haft neikvæð áhrif á verðlagsþróun og hagvöxt í landinu. Í því samhengi er þarf að halda áfram að efla sérstaklega verk-, iðn-, og starfsnám á landinu öllu og auka nýliðun í kennarastétt. Mennta- og námslánakerfið á að tryggja jöfn tækifæri fólks til að auka færni sína og þekkingu. Klára þarf heildarendurskoðun námslánakerfisins á kjörtímabilinu með það að markmiði að skapa jákvæða hvata fyrir námsmenn til náms og vinnu. Huga þarf að vellíðan nemenda á öllum skólastigum og tryggja greiðan aðgang þeirra að nauðsynlegri sérfræðiþjónustu.
Afnám verðtryggingarinnar
Miðstjórn Framsóknarflokksins telur afar brýnt að húsnæðisliðurinn verði tekinn úr vísitölu neysluverðs og að verðtryggingin verði bönnuð af nýjum neytendalánum á kjörtímabilinu. Miðstjórn telur að kostnaður við eigið húsnæði sem reiknast til neysluverðsvísitölu sé fremur fjárfesting en neysla og í því ljósi skal húsnæðisliðurinn undanþeginn. Breytingunni er ætlað að vera til hagsbóta fyrir þorra lánþega. Framsóknarflokkurinn vill enn fremur að skapa hvata og stuðning til þess að heimili geti breytt verðtryggðum lánum í óverðtryggð.
Þriðji orkupakkinn
Orkuauðlindin er ein af mikilvægustu forsendum velmegunar í landinu. Miðstjórn Framsóknarflokksins áréttar mikilvægi þess að allar ákvarðanir í orkumálum verði í höndum Íslendinga og minnir á að stjórnarskrá Íslands leyfir ekki framsal ríkisvalds til erlendra stofnana. Aðstæður Íslands í orkumálum eru gjörólíkar þeim sem liggja til grundvallar orkulöggjöf ESB og því er óskynsamlegt að innleiða það regluverk hér. Auk þess hefur Ísland enga tengingu við orkumarkað ESB og Framsóknarflokkurinn telur slíka tengingu ekki þjóna hagsmunum landsmanna. Því skal fá undanþágu frá innleiðingu þriðja orkupakkans.
Matvæli
Miðstjórn Framsóknarflokksins vill herða löggjöf á innfluttum matvælum til að verja lýðheilsu gegn matvælum sem geta haft skaðleg áhrif á lífríkið hér á landi auk þess að kolefnisspor þess er stórt. Ísland stendur öðrum þjóðum framar hvað varðar framleiðslu á heilnæmum matvælum, þar sem lyfjanotkun er með því allra minnsta sem þekkist í heiminum. Aðrar kröfur um aðbúnað dýra og heilbrigði matvæla eru með þeim metnaðarfyllstu sem um getur. Ísland býr við þá sérstöðu umfram önnur lönd að auðveldara er að verjast sjúkdómum, forðast sýklalyfjaónæmi og draga úr útbreiðslu slíkra baktería vegna þess við erum eyja með hreina búfjárstofna. Miðstjórn krefst þess að stjórnvöld taki það upp við Evrópusambandið að núgildandi reglur um innflutning á hráu kjöti, ógerilsneyddri mjólk og ógerilsneyddum eggjum fái að gilda áfram.
Landbúnaður
Miðstjórn Framsóknarflokksins skorar á Alþingi að samþykkja frumvarp sem stuðlar að eflingu afurðastöðva í kjötiðnaði. Veita þarf innlendum kjötiðnaði tækifæri til samvinnu og bregðast við ört vaxandi samkeppni með því að undanþiggja afurðastöðvar frá ákvæðum samkeppnislaga. Uppgræðsla á landi og skógrækt eru verðmæt verkefni fyrir bændur til kolefnisjöfnunar og sem styður við metnaðarfullt loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar. Þá áréttar fundurinn mikilvægi þess að stjórnsýsla í kringum landbúnaðinn verði efld nú þegar til að halda á hans málum innan ríkisstjórnarinnar meðal annars með nýju matvælaráðuneyti.
Samgöngumál
Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins fagnar þeirri miklu aukningu á fjármunum sem nú er varið til vegamála, bæði þegar kemur að nýfjárfestingum og viðhaldi. Þá fagnar Framsókn markmiðum ríkisstjórnarinnar um að draga úr loftmengun með því að auka rafvæðingu og orkuskipti í samgöngum. Hlutfall umhverfisvænna bifreiða fer ört vaxandi, nú þegar eru nýskráningar í okt 26% sem er jákvætt og í ljósi þess er nauðsynlegt að útfæra nýjar fjármögnunarleiðir sem renna til vegakerfisins. Miðstjórn Framsóknarflokksins styður tekjuleiðir sem endurspegla afnot af þjóðvegakerfinu og sanngjarnt flýtigjald til að hraða stærri framkvæmdum.
Framsókn leggur áherslu á uppbyggingu millilandaflugs á landsbyggðinni.
Fundurinn leggur áherslu á að gerð eigendastefnu fyrir Isavia verði lokið sem fyrst með stækkandi atvinnugrein og hag þjóðarinnar í huga. Slík stefna þarf að liggja fyrir áður en ráðist er í skuldbindingar vegna stórframkvæmda.
Kjaramál
Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins leggur áherslu á að jafna kjör í komandi kjarasamningum og að undið verði ofan af því launaskriði sem hefur verið í efstu lögum samfélagsins. Hér á landi eiga að vera jöfn tækifæri og samtal stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins um stefnu í húsnæðismálum, launaþróun, atvinnuleysistrygginga, stefnu í menntamálum, samspil launa, bóta og skatta er lykillinn að farsælli lausn fyrir allt samfélagið.
Efling nýsköpunar og rannsóknar
Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins fagnar því að lagt hefur verið fram stjórnarfrumvarp um hækkun á þaki á endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði úr 300 m. í 600m.kr. auk þess sem skattaafsláttur til handa einstaklingum sem fjárfesta í nýsköpunarfélögum er framlengdur. Hér er um mikilvægt skref að ræða til að efla nýsköpun fyrir Ísland. Miðstjórn Framsoknar fagnar einnig þingsályktunartillogu þingflokksins um mótun klasastefnu fyrir Ísland. Miðstjórnarfundur flokksins skorar á ríkisstjórnina að beita sér fyrir að auka hvata til nýsköpunar enn frekar með því að hækka endurgreiðsluhlutfall vegna rannsóknar og þróunarkostnað og með því að stofna sérstakan mótframlagssjóð ríkisins sem myndi fjárfesta með viðurkenndum fjárfestum í nýsköpunarfyrirtækjum.
Áframhaldandi uppbygging fiskeldis
Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein og mun skapa okkur miklar útflutningstekjur.
Samhliða þeirri uppbyggingu þarf að tryggja verndun villta laxstofnsins við Ísland, þess vegna er fiskeldi á afmörkuðum svæðum.
Mikil verðmæti eru fólgin í því að byggja upp fiskeldið og Framsóknarflokkurinn sem byggðastefnuflokkur mun styðja við þá uppbyggingu sem snýr að fiskeldi því að þau svæði sem hafa verið í uppbyggingu í greininni þurfa að hafa möguleika á að blómstra. Áfram þarf að vinna að mótvægisaðgerðum sem tryggja verndun alls lífríkis og lágmarka hættu á erfðablöndun við íslenska laxastofninn.
Framsóknarflokkurinn er umhverfissinnaður flokkur. Því er mikilvægt að finna jafnvægi á milli þessara hagsmuna, þeirra sem vilja vernda og nýta. Eitt útilokar ekki annað og alli hagsmunaaðilar eiga að geta blómstrað á Íslandi. Framsóknarflokkurinn mun hér eftir sem hingað til standa með þeim byggðum sem eiga undir högg að sækja.
Réttlæti handa heimilunum
Miðstjórn Framsóknarflokksins ítrekar ályktun sem samþykkt var á flokksþinginu í mars 2018 um að skipuð verði rannsóknarnefnd um þær aðgerðir sem stjórnvöld og fjármálafyrirtæki réðust í eftir hrunið.
Það getur hvorki talist eðlilegt né ásættanlegt að um 10.000 fjölskyldur hafi misst heimili sín á nauðungaruppboðum eftir hrun og þegar fjöldinn er slíkur er ekki hægt að líta svo á að um „einkamál“ sé að ræða, heldur djúpstæðan kerfislægan galla sem verður að finna, skoða og leiðrétta.
Framsóknarflokkurinn mun ekki standa aðgerðarlaus hjá á meðan fleiri fjölskyldur missa heimili sín. Lög um nauðungaruppboð og aðfarir eru hliðholl fjármálafyrirtækjum og þau þarf að endurskoða. Jafnframt er kominn tími til að heimilin njóti vafans sem sannanlega er fyrir hendi í viðskiptum þeirra við fjármálafyrirtæki.
Upprunavottorð raforku
Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins vill að leita verði leiðað til að sölu upprunavottana raforku úr landi verði hætt og að orkufyrirtækin verði hvött til að láta af þeirri stefnu. Það er mikilvægt skref í rétta átt í sívaxandi umræðu um kolefnislosun.