Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins um uppbyggingu alþjóðaflugs á landsbyggðunum. Stjórnvöld hafa markvisst unnið að því að auka samkeppnishæfni landsins og fjölga erlendum ferðalöngum. Flugþróunarsjóður er dæmi beinar aðgerðir stjórnvalda, en honum er ætlað að styðja flugfélög í að þróa og markaðssetja beint alþjóðaflug til Akureyrar og Egilsstaða.
„Fjármunum hefur sérstaklega verið varið til markaðsstofa svæðisins til að efla kynningu á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum sem alþjóðaflugvöllum og aukinn slagkraftur hefur verið settur í markaðssetningu á landshlutunum sem vænlegum áfangastöðum með beinu millilandaflugi. Fjárfest hefur verið í innviðum á svæðinu og frumvarp hefur verið lagt fram um varaflugvallargjald, sem ætlað er að bregðast við og tryggja fjármagn til uppbyggingar varaflugvalla sem og þeirra þjónustuvalla sem eru víðs vegar um land,“ sagði Ingibjörg.
„Greiðar samgöngur við útlönd hafa mikilvæg áhrif á byggðir landsins og má segja að stofnun Niceair hafi verið ein af stærri byggðaaðgerðum sem ráðist hefur verið í; byggðaaðgerð sem hefur gífurleg áhrif á samfélagið í heild, ánægju íbúa og lífsgæði þeirra sem aukast til muna. Það er ánægjulegt að sjá raunverulegan árangur af aðgerðum stjórnvalda en þar eru fólgin mikilvæg skilaboð um stefnu ríkisstjórnarinnar í ferðaþjónustu: Hana skal efla um allt land,“ sagði Ingibjörg.
„Í ár verður metfjöldi áfangastaða í boði frá landsbyggðinni. Nýjar flugtengingar skipta miklu máli fyrir atvinnuþróun svæðisins og auka verulega möguleika á að styrkja ferðaþjónustu þar sem við sjáum að hún hefur aukist. Þeim ber að þakka sem hafa í mörg ár barist fyrir auknu millilandaflugi um þessa flugvelli; sveitarfélögum, markaðsstofum, landshlutasamtökum, auk frumkvöðla á svæðinu. Það er virkilega ánægjulegt að sjá að barátta þeirra hefur skilað sér,“ sagði Ingibjörg að lokum.
Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Greiðar flugsamgöngur við útlönd eru mikilvægar. Á undanförnum árum hafa stjórnvöld stigið markviss skref sem stuðla að uppbyggingu alþjóðaflugs á landsbyggðinni, skref sem hafa skilað góðum árangri. Árangurinn hefur gagnast alþjóðlegum ferðalöngum og ekki síður almenningi og fyrirtækjum hérlendis og aukið samkeppnishæfni landsins. Dæmi um aðgerðir stjórnvalda eru t.d. flugþróunarsjóður, sem settur var á laggirnar til að styðja flugfélög í að þróa og markaðssetja beint alþjóðaflug til Akureyrar og Egilsstaða. Fjármunum hefur sérstaklega verið varið til markaðsstofa svæðisins til að efla kynningu á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum sem alþjóðaflugvöllum og aukinn slagkraftur hefur verið settur í markaðssetningu á landshlutunum sem vænlegum áfangastöðum með beinu millilandaflugi. Fjárfest hefur verið í innviðum á svæðinu og frumvarp hefur verið lagt fram um varaflugvallargjald, sem ætlað er að bregðast við og tryggja fjármagn til uppbyggingar varaflugvalla sem og þeirra þjónustuvalla sem eru víðs vegar um land.
Greiðar samgöngur við útlönd hafa mikilvæg áhrif á byggðir landsins og má segja að stofnun Niceair hafi verið ein af stærri byggðaaðgerðum sem ráðist hefur verið í; byggðaaðgerð sem hefur gífurleg áhrif á samfélagið í heild, ánægju íbúa og lífsgæði þeirra sem aukast til muna. Það er ánægjulegt að sjá raunverulegan árangur af aðgerðum stjórnvalda en þar eru fólgin mikilvæg skilaboð um stefnu ríkisstjórnarinnar í ferðaþjónustu: Hana skal efla um allt land.
Í ár verður metfjöldi áfangastaða í boði frá landsbyggðinni. Nýjar flugtengingar skipta miklu máli fyrir atvinnuþróun svæðisins og auka verulega möguleika á að styrkja ferðaþjónustu þar sem við sjáum að hún hefur aukist. Þeim ber að þakka sem hafa í mörg ár barist fyrir auknu millilandaflugi um þessa flugvelli; sveitarfélögum, markaðsstofum, landshlutasamtökum, auk frumkvöðla á svæðinu. Það er virkilega ánægjulegt að sjá að barátta þeirra hefur skilað sér.“