Categories
Fréttir

„Stórar kerfisbreytingar“ segir Ásmundur Einar

„Það er mikilvægt að þessi fjárveiting hafi verið samþykkt enda eiga börn ekki að þurfa að bíða eftir nauðsynlegri þjónustu, ráðgjöf og öðrum úrræðum sem bæta lífsgæði þeirra. Við þurfum líka að vera meðvituð um að samhliða þessu munum við innleiða stórar kerfisbreytingar á næstu árum þar sem barnið verður hjartað í kerfinu og tryggt verður að samfélagið muni grípa fyrr inn í þegar aðstoðar er þörf,“ segir Ásmundur Einar. Með breytingunum verði hægt að setja aukinn kraft í greiningu og ráðgjöf fyrir þau börn sem hafa miklar þarfir fyrir stuðning. Tryggja á börnum og aðstandendum þeirra snemmbæran og samþættan stuðning þvert á kerfi og tryggja að hin mismunandi þjónustukerfi innan velferðarþjónustunnar vinni saman til að tryggja farsæld barna.

Deila grein

20/01/2021

„Stórar kerfisbreytingar“ segir Ásmundur Einar

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur fengið samþykki Alþingis fyrir auknu fjármagni svo að þjónusta Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins verði bætt.

Veita á 80 milljónum króna til Greiningarstöðvar til þess að vinna á biðlistum. Sérstök áhersla verður lögð á að stytta biðtíma barna á aldrinum 2-6 ára eftir þjónustu.

Ásmundur Einar boðar stórar kerfisbreytingar

„Það er mikilvægt að þessi fjárveiting hafi verið samþykkt enda eiga börn ekki að þurfa að bíða eftir nauðsynlegri þjónustu, ráðgjöf og öðrum úrræðum sem bæta lífsgæði þeirra. Við þurfum líka að vera meðvituð um að samhliða þessu munum við innleiða stórar kerfisbreytingar á næstu árum þar sem barnið verður hjartað í kerfinu og tryggt verður að samfélagið muni grípa fyrr inn í þegar aðstoðar er þörf,“ segir Ásmundur Einar. Með breytingunum verði hægt að setja aukinn kraft í greiningu og ráðgjöf fyrir þau börn sem hafa miklar þarfir fyrir stuðning. Tryggja á börnum og aðstandendum þeirra snemmbæran og samþættan stuðning þvert á kerfi og tryggja að hin mismunandi þjónustukerfi innan velferðarþjónustunnar vinni saman til að tryggja farsæld barna.

Með því að bjóða snemmtækan stuðning á fyrri þjónustustigum megi draga úr þörf fyrir þjónustu Greiningarstöðvarinnar. Þannig skapist svigrúm til að sinna þeim börnum og fjölskyldum þeirra sem hafa miklar stuðningsþarfir.

Biðlistar lengst á síðustu árum

Biðlistar hjá Greiningarstöðinni hafa lengst smátt og smátt á síðustu þremur árum. Bið eftir greiningu er nú 13-24 mánuðir en var 10-17 mánuðir árið 2017. Soffía Lárusdóttir, forstöðumaður GRR, sagði í samtali við fréttastofu RUV um miðjan desember að tilvísunum til stöðvarinnar hefði fjölgað mikið á undanförnum árum enda vantaði betri samhæfingu milli þeirra kerfa sem ættu að mæta þörfum barna. Hún sagði að biðin væri lengst hjá börnum á aldrinum 2-6 ára.

Soffía sagði að ástæðan fyrir mikilli eftirspurn væri margþátta. Vandi barna hefði aukist, ekki síst vegna þess að kerfunum hefði ekki tekist nógu vel að mæta þörfum þeirra. Það þyrfti markvissari vinnubrögð og að kerfin ynnu betur saman svo börn væru gripin fyrr. Hún sagðist binda vonir við að biðin eftir greiningu myndi styttast með fyrirhugaðri lagasetningu um samþættingu þjónustu í þágu barna. Með henni yrði gerð skýrari grein fyrir því hvaða hópur ætti erindi á GRR og þannig ættu biðlistarnir að styttast.

Soffía sagði að hér á landi hefði aldrei jafnmikið gerst í málefnum barna eins og einmitt nú, og vísaði til greiningarvinnu innan stjórnsýslunnar og frumvarps félags- og barnamálaráðherra um samþættingu þjónustu í þágu barna, sem nú hefur verið samþykkt. „Nú loks eru börn sett á dagskrá og það er mikið fagnaðarefni,“ sagði hún.