Categories
Fréttir

Störfum fjölgar og áfram dregur úr atvinnuleysi

Deila grein

21/09/2016

Störfum fjölgar og áfram dregur úr atvinnuleysi

eygloVinnumálastofnun áætlar að skráð atvinnuleysi í september verði um 1,8 – 2,1% á landsvísu. Atvinnuleysi á Suðurnesjum mælist nú lægra en á höfuðborgarsvæðinu í fyrsta sinn frá árinu 2004 sem rekja má til uppsveiflu í ferðaþjónustu. Hlutfall erlendra ríkisborgara af vinnuaflinu fer vaxandi. Þetta o.fl. kemur fram í minnisblaði sem félags- og húsnæðismálaráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnar í dag.
Fjöldi starfa í ferðaþjónustu stefnir í að fara úr um 19.400 störfum árið 2015 í 22.900 störf árið 2016. Körlum á innlendum vinnumarkaði hefur fjölgað hlutfallslega meira en konum sem skýrist einkum af uppgangi í byggingariðnaði þar sem karlar starfa í mun meira mæli en konur.
Tölur um búferlaflutninga benda til þess að yfir 8.000 erlendir ríkisborgara muni flytja ti landsins á þessu ári. Eru þá ótaldir svokallaðir útsendir starfsmenn, þ.e. þeir sem koma hingað til skemmri tíma. Vinnumálastofnun áætlar að hlutfall erlendra ríkisborgara á vinnumarkaði fari yfir 10% að jafnaði árið 2016 sem er hærra en nokkru sinni áður. Gert er ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram og að hlutfallið fari í 11 – 12% árið 2017.
Búferlaflutningar Íslendinga til og frá landinu tengjast að stórum hluta námi erlendis en endurspegla einnig að einhverju leyti efnahagsástandið þannig að fleiri flytjast á brott í atvinnuleit þegar illa árar og færri flytjast til landsins. Tölur um búferlaflutninga á fyrri hluta þessa árs benda til að íslenskum ríkisborgurum sem flytjast til landsins fari fjölgandi og þeim sem flytjist á brott fari fækkandi.
Eins og sjá má í yfirliti Vinnumálastofnunar um stöðuna á vinnumarkaði í ágúst sl. var atvinnuleysi meðal karla 1,5% en 2,5% meðal kvenna. Mest var atvinnuleysið á höfuðborgarsvæðinu, 2,3% en minnst á Norðurlandi vestra, 1,0%.

Heimild: www.velferdarraduneyti.is