Categories
Fréttir

Það skortir ekki vilja og áhuga

Deila grein

20/09/2016

Það skortir ekki vilja og áhuga

Silja-Dogg-mynd01-vef„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða um samgöngur og atvinnuuppbyggingu í dag en fyrst verð ég þó að nefna eitt mál. Ég las í fréttum að borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, hefði varpað fram þeirri hugmynd að mönnunarvanda á leikskólum borgarinnar mætti jafnvel leysa með því að fá þar eldri borgara til starfa.
Ég vil þá segja að leikskólakennarastarfið er mjög vandasamt. Það krefst margra ára háskólamenntunar. Ábyrgðin sem fylgir því að annast og kenna ungum börnum er mikil. Launin eru alls ekki í samræmi við menntun og ábyrgð. Því verð ég að segja að borgarstjóri er með þessu að gjaldfella leikskólakennarastarfið. Leikskólar eru ekki gæslustaðir.
En víkur nú málinu að byggðamálum. Ég átti þess kost í síðustu viku að sækja byggðaráðstefnu Byggðastofnunar sem haldin var á Breiðdalsvík. Þar voru mörg áhugaverð erindi haldin um niðurstöður ýmissa rannsókna tengdum byggðamálum. Rætt var um mikilvægi þess að sveitarfélög væru með skýra atvinnustefnu, að aðalskipulag væri í samræmi við hana o.s.frv. Allt er það fullkomlega lógískt og ágætt fyrir sitt leyti. En í kaffipásunni spjallaði ég við ungan bónda á Suðausturlandi sem er að reyna að byggja upp ferðaþjónustu og matvælaframleiðslu. Þar heyrði ég sömu sögu og ég hef heyrt oft áður, þ.e. að skortur á ljósleiðara og þriggja fasa rafmagni standi atvinnuuppbyggingu fyrir þrifum. Það skortir nefnilega ekki tækifæri í sveitum landsins. Það skortir ekki vilja og áhuga unga fólksins til að byggja upp. Það sem skortir er fé og framkvæmdagleði ríkisvaldsins. Unga bóndanum varð að orði í kaffipásunni: Við getum í alvörunni bara hætt að ræða um stefnumótun og skipulag sveitarfélaga þegar við fáum ekki einu sinni þriggja fasa rafmagn og ljósleiðara.
Ég er sammála bóndanum unga. Áratugalöng bið eftir nothæfu rafmagni er ekki boðleg, virðulegur forseti.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 20. september 2016.