Categories
Fréttir

Mörg mikilvæg og góð mál til afgreiðslu í þinginu

Deila grein

20/09/2016

Mörg mikilvæg og góð mál til afgreiðslu í þinginu

thingmadur-willumthor-05„Hæstv. forseti. Nú þegar líður að þinglokum bíða mörg mikilvæg mál afgreiðslu. Þrátt fyrir allt og umræðuna sem hér á undan fór vil ég segja að þingstörfin ganga alveg ágætlega. Það eru ýmis alveg sérstaklega jákvæð og góð mál, ef ég má orða það svo, virðulegi forseti, sem hafa verið á dagskrá og mikil samstaða hefur verið um. Vil ég nefna Parísarsamkomulagið og samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks.
Í gær staðfestum við á Alþingi heimild til fullgildingar samningsins sem hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra Sigrún Magnúsdóttir ritaði undir fyrir Íslands hönd í París fyrr á þessu ári. Við verðum í góðum hópi og í fararbroddi samningsríkja á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þar sem hæstv. utanríkisráðherra Lilja Dögg Alfreðsdóttir getur fyrir hönd Íslands staðfest fullgildinguna. Við framsóknarmenn erum auk þess afar stoltir af því að þessir tveir öflugu hæstv. ráðherrar okkar sigli þessu mikilvæga samkomulagi í höfn, sem mun ef að líkum lætur hafa mikil áhrif til framtíðar á allar ákvarðanir og markmið Íslands, og umheimsins, í umhverfis- og loftslagsmálum.
Seinna í dag klárum við svo síðari umræðu um þingsályktun hæstv. utanríkisráðherra um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í því máli erum við hins vegar með seinni skipum eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson greindi ágætlega frá í yfirlitsgóðri framsögu í nefndaráliti hv. utanríkismálanefndar þar sem hann tók fram að það væri ekki vansalaust af hálfu stjórnvaldsins að hafa tekið svo langan tíma í að afgreiða fullgildingu samningsréttinda fatlaðs fólks. Hitt verð ég að segja, virðulegur forseti, að hv. nefnd hefur nýtt tímann og unnið hratt og vel. Vonandi getur svo hæstv. utanríkisráðherra Lilja Dögg Alfreðsdóttir fylgt þessu eftir og lokið fullgildingarferlinu á yfirstandandi allsherjarþingi.“
Willum Þór Þórsson  í störfum þingsins 20. september 2016.