„Virðulegi forseti. Í gær kom fram í fréttum að tæplega 500 börn 18 ára og yngri voru kærð fyrir brot á hegningarlögum á síðasta ári. Af þeim börnum eru 169 14 ára og yngri og því ósakhæf. 11 börn fengu skilorðsbundinn dóm á síðasta ári og lögreglan kemur árlega að 20–40 sáttamiðlunum vegna brota ungmenna. Mikilvægi þess að börn og ungmenni fái tækifæri til að læra af mistökum sem þau gera, bæta sig og taka ábyrgð á gerðum sínum verður seint ofmetið, enda hefur umboðsmaður barna ítrekað beint á nauðsyn þess að efla sáttamiðlun sem úrræði fyrir börn sem brotið hafa af sér. Ég get því ekki annað en hrifist af því viðhorfi sem birtist í viðtali við Hörð Jóhannesson lögreglumann sem birtist í Fréttablaðinu 3. september. Þar kemur skýrt fram að mannlegur skilningur, stuðningur, virðing og manneskjuleg nálgun á brot barna og ungmenna geta skilað miklu meiri árangri en refsingar. Sem betur fer höfum við fólk eins og Hörð um allt samfélagið sem beitir þessum aðferðum dags daglega. Viðfangsefni okkar hér er hins vegar að velta fyrir okkur hvernig við getum byggt samfélagið þannig að þetta viðhorf endurspeglist í gegnum öll okkar kerfi sem vinna með börnum og ungmennum. Ein leið til þess er víðtækari innleiðing sáttamiðlunar ásamt viðeigandi stuðningi.
Á vorþingi samþykkti Alþingi að beina frumvarpi hv. þm. Helga Hjörvars um breytingu á almennum hegningarlögum til ríkisstjórnar og fela þar með refsiréttarnefnd að skoða samfélagsþjónustu ungra brotamanna ásamt viðeigandi stuðningi og meðferðarúrræðum til betrunar. Ég vænti þess að sú vinna muni skila okkur skrefum í rétta átt.“
Líneik Anna Sævarsdóttir í störfum þingsins 6. september 2016.
Categories
Styðja unga afbrotamenn
07/09/2016
Styðja unga afbrotamenn