Categories
Fréttir Greinar

Styrkleiki og sérstaða Íslands í utanríkismálum

Deila grein

08/03/2025

Styrkleiki og sérstaða Íslands í utanríkismálum

Við lif­um á óvissu­tím­um þar sem ör­ygg­is­mál í Evr­ópu og víðar eru í brenni­depli. Stríðsátök og versn­andi sam­skipti stór­velda hafa sett alþjóðakerfið í upp­nám og gert það ljóst að smærri ríki, á borð við Ísland, þurfa að huga sér­stak­lega að lang­tíma­hags­mun­um sín­um í ut­an­rík­is­mál­um. Á slík­um tím­um er nauðsyn­legt að Ísland haldi skýrri stefnu í ör­ygg­is­mál­um og byggi á þeim varn­artengsl­um sem hafa reynst far­sæl.

Við höf­um sér­stöðu á meðal Evr­ópuþjóða, ekki síst vegna varn­ar­samn­ings­ins við Banda­rík­in, sem hef­ur tryggt ör­yggi okk­ar í ára­tugi. Við erum ekki í sömu stöðu og marg­ar aðrar þjóðir á meg­in­landi Evr­ópu sem standa and­spæn­is bein­um ógn­un­um vegna stríðsrekst­urs. Þess í stað eig­um við að leggja áherslu á að styrkja þau alþjóðlegu tengsl sem hafa reynst okk­ur best og viðhalda varn­ar­sam­starfi okk­ar á traust­um grunni.

Örygg­is- og varn­ar­sam­starf skipt­ir sköp­um

Ísland hef­ur ára­tuga­langa reynslu af varn­ar­sam­starfi við Banda­rík­in og Atlants­hafs­banda­lagið (NATO). Varn­ar­samn­ing­ur­inn og aðild­in að NATO hafa verið horn­stein­ar ís­lenskr­ar ut­an­rík­is­stefnu og tryggt um leið ör­yggi lands­ins án þess að við þyrft­um að byggja upp eig­in herafla. Staðsetn­ing lands­ins í norður­höf­um skipt­ir máli í alþjóðlegu ör­yggi og ger­ir Ísland að lyk­ilþætti í varn­ar­stefnu NATO.

Með aukn­um ör­ygg­is­áskor­un­um í Evr­ópu hef­ur NATO eflt viðveru sína á Íslandi. Þessi stefna hef­ur skilað sér í aukn­um varn­ar­viðbúnaði og þannig dregið úr hætt­um sem gætu skap­ast í norður­höf­um. Það er því lyk­il­atriði að halda áfram á þess­ari braut og styrkja varn­artengsl okk­ar við banda­lagið í heild sinni.

Mik­il­vægi öfl­ugra varn­artengsla

Ísland hef­ur í ára­tugi átt far­sælt sam­starf við banda­lagsþjóðir sín­ar, bæði inn­an NATO og á tví­hliða grunni. Sam­starf okk­ar við Norður­landa­rík­in, Bret­land og Kan­ada hef­ur styrkt varn­ar­stöðu lands­ins og er mik­il­vægt að halda því áfram. Norður­landa­rík­in hafa sýnt fram á mik­il­vægi svæðis­bund­inn­ar sam­vinnu í ör­ygg­is­mál­um og Ísland get­ur áfram verið hluti af slíkri stefnu án þess að tapa sjálf­stæði sínu í alþjóðamál­um.

Aðild að Evr­ópu­sam­band­inu myndi veikja stöðu Íslands

Aðild að Evr­ópu­sam­band­inu myndi hafa víðtæk áhrif á ut­an­rík­is­stefnu okk­ar og skerða sveigj­an­leika lands­ins í mik­il­væg­um ör­ygg­is­mál­um. Evr­ópu­sam­bandið er póli­tískt tolla­banda­lag sem hef­ur vaxið langt út fyr­ir upp­haf­legt efna­hags­sam­starf og tek­ur nú af­drifa­rík­ar ákv­arðanir um ör­ygg­is- og varn­ar­mál aðild­ar­ríkj­anna.

Ef Ísland gengi í Evr­ópu­sam­bandið myndi það skerða mögu­leika okk­ar til sjálf­stæðrar ákv­arðana­töku í ör­ygg­is­mál­um og gæti dregið úr virkni varn­ar­samn­ings­ins við Banda­rík­in. Auk þess eru óljós áhrif og eng­in góð sem slík aðild hefði á önn­ur NATO-ríki sem treysta á sam­starf við Ísland í norður­höf­um.

Ekki sundra þjóðinni með ónauðsyn­leg­um deil­um

Á tím­um eins og þess­um er mik­il­vægt að ein­blína á lang­tíma­hags­muni Íslands og tryggja ör­yggi þjóðar­inn­ar með skyn­sam­legri stefnu í alþjóðamál­um. Það er ekki ráðlegt að opna á deil­ur um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu og færa þar með all­an fókus ut­an­rík­is­stefnu lands­ins yfir í það verk­efni.

Í stað þess að beina orku okk­ar í slík­ar deil­ur þurf­um við að styrkja varn­ar­sam­starfið, tryggja áfram­hald­andi efna­hags­leg­an stöðug­leika og vera leiðandi afl í alþjóðasam­starfi sem gagn­ast Íslandi sem sjálf­stæðu ríki. Þannig tryggj­um við stöðu okk­ar í sí­breyti­legu alþjóðakerfi án þess að fórna sjálf­stæði okk­ar í mik­il­væg­um mál­um. Við í Fram­sókn erum til í slíkt þver­póli­tískt sam­starf.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. mars 2025.