Við lifum á óvissutímum þar sem öryggismál í Evrópu og víðar eru í brennidepli. Stríðsátök og versnandi samskipti stórvelda hafa sett alþjóðakerfið í uppnám og gert það ljóst að smærri ríki, á borð við Ísland, þurfa að huga sérstaklega að langtímahagsmunum sínum í utanríkismálum. Á slíkum tímum er nauðsynlegt að Ísland haldi skýrri stefnu í öryggismálum og byggi á þeim varnartengslum sem hafa reynst farsæl.
Við höfum sérstöðu á meðal Evrópuþjóða, ekki síst vegna varnarsamningsins við Bandaríkin, sem hefur tryggt öryggi okkar í áratugi. Við erum ekki í sömu stöðu og margar aðrar þjóðir á meginlandi Evrópu sem standa andspænis beinum ógnunum vegna stríðsreksturs. Þess í stað eigum við að leggja áherslu á að styrkja þau alþjóðlegu tengsl sem hafa reynst okkur best og viðhalda varnarsamstarfi okkar á traustum grunni.
Öryggis- og varnarsamstarf skiptir sköpum
Ísland hefur áratugalanga reynslu af varnarsamstarfi við Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið (NATO). Varnarsamningurinn og aðildin að NATO hafa verið hornsteinar íslenskrar utanríkisstefnu og tryggt um leið öryggi landsins án þess að við þyrftum að byggja upp eigin herafla. Staðsetning landsins í norðurhöfum skiptir máli í alþjóðlegu öryggi og gerir Ísland að lykilþætti í varnarstefnu NATO.
Með auknum öryggisáskorunum í Evrópu hefur NATO eflt viðveru sína á Íslandi. Þessi stefna hefur skilað sér í auknum varnarviðbúnaði og þannig dregið úr hættum sem gætu skapast í norðurhöfum. Það er því lykilatriði að halda áfram á þessari braut og styrkja varnartengsl okkar við bandalagið í heild sinni.
Mikilvægi öflugra varnartengsla
Ísland hefur í áratugi átt farsælt samstarf við bandalagsþjóðir sínar, bæði innan NATO og á tvíhliða grunni. Samstarf okkar við Norðurlandaríkin, Bretland og Kanada hefur styrkt varnarstöðu landsins og er mikilvægt að halda því áfram. Norðurlandaríkin hafa sýnt fram á mikilvægi svæðisbundinnar samvinnu í öryggismálum og Ísland getur áfram verið hluti af slíkri stefnu án þess að tapa sjálfstæði sínu í alþjóðamálum.
Aðild að Evrópusambandinu myndi veikja stöðu Íslands
Aðild að Evrópusambandinu myndi hafa víðtæk áhrif á utanríkisstefnu okkar og skerða sveigjanleika landsins í mikilvægum öryggismálum. Evrópusambandið er pólitískt tollabandalag sem hefur vaxið langt út fyrir upphaflegt efnahagssamstarf og tekur nú afdrifaríkar ákvarðanir um öryggis- og varnarmál aðildarríkjanna.
Ef Ísland gengi í Evrópusambandið myndi það skerða möguleika okkar til sjálfstæðrar ákvarðanatöku í öryggismálum og gæti dregið úr virkni varnarsamningsins við Bandaríkin. Auk þess eru óljós áhrif og engin góð sem slík aðild hefði á önnur NATO-ríki sem treysta á samstarf við Ísland í norðurhöfum.
Ekki sundra þjóðinni með ónauðsynlegum deilum
Á tímum eins og þessum er mikilvægt að einblína á langtímahagsmuni Íslands og tryggja öryggi þjóðarinnar með skynsamlegri stefnu í alþjóðamálum. Það er ekki ráðlegt að opna á deilur um aðild að Evrópusambandinu og færa þar með allan fókus utanríkisstefnu landsins yfir í það verkefni.
Í stað þess að beina orku okkar í slíkar deilur þurfum við að styrkja varnarsamstarfið, tryggja áframhaldandi efnahagslegan stöðugleika og vera leiðandi afl í alþjóðasamstarfi sem gagnast Íslandi sem sjálfstæðu ríki. Þannig tryggjum við stöðu okkar í síbreytilegu alþjóðakerfi án þess að fórna sjálfstæði okkar í mikilvægum málum. Við í Framsókn erum til í slíkt þverpólitískt samstarf.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. mars 2025.