Greiður aðgangur að heitu vatni á Íslandi frá landnámi hefur haft mikil mótandi áhrif á þróun menningar okkar. Við höfum öll notið góðs af heita vatninu og hefur það verið okkar lífsbjörg í gegnum aldirnar. Heitu laugarnar okkar hafa sannarlega mótað menningu okkar. Margar Íslendingasögur geta um baðferðir og heitar laugar, sem gefur vísbendingu um að baðmenning hafi verið í hávegum höfð. Í Laxdælu er Sælingsdalslaug í Dölunum vettvangur örlagaríkra stefnumóta, en þar segir: „Kjartan fór oft til Sælingsdalslaugar. Jafnan bar svo til að Guðrún var að laugu. Þótti Kjartani gott að tala við Guðrúnu því hún var bæði vitur og málsnjöll.“ Þessi frásögn sýnir hvernig fólk nýtti sér náttúrulaugar til samskipta og laugin verður táknræn fyrir eitt þekktasta ástarsamband Íslendingasagna.
Í kjölfar hitaveituvæðingar þjóðarinnar risu manngerðar sundlaugar vítt og breitt um landið. Sundlaugamenning þróaðist og varð að ríkum þætti í daglegu lífi Íslendinga. Vegna þessarar ríku sögu lauga á Íslandi var ákveðið í mars 2024 að tilnefna sundlaugamenningu á Íslandi á skrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns. Í kjölfarið hófst 18 mánaða matsferli, sem lauk formlega með fundi þar sem staðfest var að sundlaugamenning Íslands skyldi hljóta þessa æðstu viðurkenningu á sviði lifandi hefða í heiminum. Þetta er fyrsta sjálfstæða skrásetning Íslands á listann. Í tilnefningunni var lögð áhersla á sundlaugar sem almenningsrými, þar sem kynslóðir koma saman til að synda, spjalla við vini eða ókunnuga og njóta vatns. Að baki skrásetningunni liggur mikil undirbúningsvinna í höndum menningar- og viðskiptaráðuneytis, Þjóðminjasafns Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar. Tíu sveitarfélög sendu skriflega stuðningsyfirlýsingu, þar á meðal Reykjavíkurborg sem hafði veg og vanda af gerð myndbands um sundlaugamenningu sem fylgdi tilnefningunni. Fjölmargir sundlaugargestir um allt land lögðu tilnefningunni lið með því að deila reynslu sinni og undirstrika mikilvægi þessarar menningarhefðar. Það má með sanni segja að viðurkenningin sé afrakstur mikillar samvinnu ólíkra einstaklinga, stofnana og stjórnvalda.
Frá náttúrulaugum landnámsmanna til nútímasundlauga hefur heita vatnið verið rauði þráðurinn í íslenskri menningu. Fortíðin sýnir okkur hvernig vatnið skapaði tengsl, byggði samfélög og varð vettvangur samskipta. Laugarnar eru í dag einn stærsti vettvangur samskipta þjóðarinnar, þar sem kynslóðir koma saman dag hvern. Með skráningu UNESCO er ekki aðeins verið að heiðra þessa sögu, heldur líka verið að vernda hana til framtíðar. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim sem tóku þátt í þessu verkefni og óska okkur til hamingju með þessa viðurkenningu!
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. desember 2025.
