Categories
Fréttir

Sveinbjörg Birna nýr formaður LFK

Deila grein

16/09/2013

Sveinbjörg Birna nýr formaður LFK

Sveinbjörg Birna SveinbjörnsdóttirSveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir varaþingmaður var kosin formaður Landssambands framsóknarkvenna á 16. landsþingi þess haldið 7. september. Með Sveinbjörgu Birnu í framkvæmdastjórn landsambandsins eru Rakel Dögg Óskarsdóttir, Sunna Gunnars Marteinsdóttir, Björg Baldursdóttir og Anna Kolbrún Árnadóttir.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir skipaði 3. sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður í síðustu alþingiskosningum. Sveinbjörg Birna er fædd í Reykjavík 1973, stúdent frá Verzlunarskóla Íslands, lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 2001 og fékk héraðsdómslögmannsréttindi 2002.
Ný stjórn vill koma á framfæri þakklæti til fráfarandi formanns, Gerði Jónsdóttur og hennar stjórn, fyrir vel unnin störf.
Á þinginu voru fjölmargar ályktanir samþykktar og má sjá þær hér að neðan.
 

Ályktanir 16. Landsþings framsóknarkvenna, LFK, 7. september 2013:

Ályktun um breytingu á leigureglum vegna íbúðarhúsnæðis.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. sept. 2013 skorar á ríkisstjórn Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar að skoða möguleika á því að gera fólki kleift að leigja út hluta eigin húsnæðis sem það býr í, allt að 40% íbúðarhúsnæðisins, án þess að leigutekjur séu reiknaðar til tekna húsnæðiseiganda og að þær skerði ekki lífeyrisgreiðslur og/eða bætur. Þessi ráðstöfun kæmi sérstaklega til góða fullorðnu fólki sem ýmist getur ekki selt, eða vill ekki selja, stórar eignir sem það hefur búið í drjúgan hluta ævi sinnar. Einnig mundi það bæta nýtingu á stórum íbúðarhúsum.
Ályktun um Reykjarvíkurflugvöll.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. sept. 2013 vill, vegna tillögu umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur um flutning Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýrinni, minna á þá ábyrgð og skyldur sem höfuðborg landsins hefur. Greiðar flugsamgöngur landsbyggðarinnar til og frá Reykjavík er forsenda þess að borgin geti gegnt hlutverki sínu sem höfuðborg landsins alls. Í höfuðborginni eru höfuðstöðvar stjórnsýslu Íslands auk fjölda opinberra viðskipta-, mennta-, menningar- og heilbrigðisstofnana.
Með tillögunni er verið að rýra aðgengi fólks að þessari þjónustu. Þá vekur þingið athygli á þeim mikla kostnaði sem flutningur Reykjavíkurflugvallar hefur í för með sér fyrir ríkið vegna nýrra vegaframkvæmda (stofnbrauta) og uppbyggingu nýs flugvallar.
Ályktun um stjórnir fyrirtækja.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. sept. 2013 áréttar lagaskyldu um hlutföll kynja í stjórnum fyrirtækja. Þingið hvetur þær stjórnir sem enn fullnægja ekki gildandi reglum að bregðast við nú þegar og kjósa nýjar stjórnir. Fyrirtæki sem stjórnað er jöfnum höndum af konum og körlum búa yfir viðtækari reynslu og þekkingu. Reynsluheimur kynjanna er ólíkur og því eðlilegt að ætla að fjölbreyttari leiða sé beitt við ákvaðanatöku. Framsóknarkonur hvetja stjórnir fyrirtækja að framfylgja strax núgildandi lögum.
Ályktun um heilbrigðisþjónustu.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. sept. 2013 skorar á stjórnvöld að bregðast við þeim alvarlega bresti sem kominn er í heilbrigðiskerfið. Þingið telur að nú þegar þurfi að hefja að nýju uppbyggingu heilbrigðisþjónustu um allt land. Slík uppbygging mun efla öryggi landsmanna og draga úr álagi á LHS.
Ályktun um launamun kynjanna.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. sept. 2013 kallar eftir, í ljósi nýrra upplýsinga um viðvarandi launamun kynjanna, tafalausum aðgerðum. Hér er átt við ríki, sveitarfélög og aðila vinnumarkaðarins. Það er með öllu óásættanlegt að ekki hafi enn tekist að uppræta kynbundinn launamun og vinna gegn launamun kynjanna. Árum saman hafa sambærilegar upplýsingar legið fyrir og ráðamenn lýst því að bregðast verði við en lítið þokast í rétta átt. Framsóknarkonur vilja að leitað verði allra leiða til að uppræta óviðunandi ástand og kallar alla þá er málið varðar til ábyrgðar. Það er vitað að íslenskur vinnumarkaður er kynbundinn og hefðbundin kvennastörf eru ávísun á lægri laun en hefðbundin karlastörf. Einnig er ekkert annað en kyn starfsmanna sem getur skýrt launamun í sambærilegum störfum þegar tillit hefur verið tekið til allra þátta sem áhrif geta haft á laun. Það þarf að nýta öll þau tól og tæki sem samfélagið býr yfir s.s. jafnlaunavottun. Velta þarf við öllum steinum og höfða til sameiginlegrar ábyrgðar okkar allra.
Ályktun um skuldavanda íslenskra heimila.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. sept. 2013 fagnar aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar sem ætlað er að taka á skuldavanda íslenskra heimila. Sérstaklega vegna þess að í áætluninni er bæði að finna tímaramma og ábyrgðamenn einstakra málaflokka.
Ályktun um sjálfstæði sveitarfélaga.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík 7. september 2013 telur að æskilegt sé að aukið vald, ábyrgð og fjármagn sé falið sveitarfélögunum í landinu til að veita íbúum sínum þjónustu. Sveitarstjórnir landsins eru þau stjórnvöld sem standa kjósendum næst og er það í anda kröfu um aukið lýðræði að fela þeim aukin verkefni ásamt auknum tekjum.
Þingið telur að skoða beri vandlega hvort sveitarfélög ættu að fá verulega aukið hlutfall ef tekjuskatti einstaklinga í sinn hlut auk þess sem eðlilegt er að þau fái einnig hlutdeild í skattekjum frá fyrirtækjum. Þá er eðlilegt að tekin verði upp skattheimta af nýtingu ýmissa náttúruauðlinda, svo sem virkjun vatnsafls og jarðvarma, sem renni til sveitarfélaga á nærsvæði framkvæmdanna. Leita má fyrirmynda um slíka skattheimtu erlendis, m.a. til Noregs.
Eftir að sveitarfélögunum hafa verið tryggðar auknar tekjur er eðlilegt að meta hvaða þjónustu er heppilegt og raunhæft að ætla að sveitarfélögin geti tekið að sér að veita, íbúum sínum til hagsbóta.
Ályktun um regluverk atvinnulífsins.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. sept. 2013 fagnar áformum ríkisstjórnar við að einfalda regluverk gagnvart stofnunum og fyrirtækjum í landinu. Þingið leggur einnig áherslu á að innleiðingaferli verði vandað og vel gætt að eftirfylgni á öllum sviðum stjórnsýslunnar.
Ályktun um umhverfismál.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. sept. 2013 minnir á að endurnýting og endurvinnsla takmarkaðra auðlinda jarðarinnar er eitt brýnasta viðfangsefni umhverfismálanna. Þingið hvetur ríkisstjórnina til þess að setja fram tímasetta áætlun um hvernig hægt er að þróa og nýta innlenda orkugjafa og auka hlutfall farartækja sem ganga fyrir innlendum orkugjöfum. Þingið bendir á að notkun innlendra orkjugjafa sparar gjaldeyri er umhverfisvænt og atvinnuskapandi.
Ályktun um náttúruvernd og nýtingu.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. sept. 2013 minnir á að virðing fyrir náttúrunni hefur verið grunnstef í stefnu Framsóknarflokksins frá stofnun hans. Þingið leggur áherslu á að efla beri landgræðslu. Ennfremur vill þingið benda á að ræktun og nýting skóga er til dæmis gott dæmi um vaxandi atvinnuskapandi auðlind. Stjórnvöld verða að marka sér skýra stefnu á þessu sviði.
Ályktun um jafnrétti til búsetu.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. sept. 2013 leggur áherslu á mikilvægi þess að blómleg byggð sé um allt land. Til þess að svo megi vera verður að tryggja íbúum ásættanlegt aðgengi að heilbrigðisþjónustu, öruggum samgöngum, fjarskiptasambandi og dreifikerfi raforku. Landsambandið hvetur því jafnframt til þess að teknir verði upp virkir og vel skilgreindir hvatar til þess að styrkja samfélög á skilgreindum varnasvæðum þar sem núverandi þjónusta getur lagst af.
Ályktun um starfsemi stofnana ríkisins á landsbyggðinni.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. sept. 2013 leggur ríka á herslu á mikilvægi þess að ríkið leiti leiða til þess að efla starfsemi stofnana sinna um land allt. Ríkið gangi þannig á undan með góðu fordæmi gagnvart fyrirtækjum í landinu og setji þannig jafnframt fram jákvæða hvata til þess að auðvelda fyrirtækjum rekstur, t.d. með afslætti/niðurfellingu tryggingargjalds.
Reynsla af flutningi starfa út á land hefur verið góð. Nægt framboð er af hæfu starfsfólki. Minni starfsmannavelta og lægri húsnæðiskostnaður gerir flutning starfa að fýsilegum kosti sem er til þess fallinn að efla byggð um allt land.
Ályktun um styttingu náms að háskóla.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. september 2013 leggur áherslu á samvinnu, samþættingu og samtal á milli skólastiga með það að markmiði að stytta nám að háskóla um eitt ár, án þess að skerða gæði náms og menntunar. Mikilvægt er að faglegur ávinningur af styttingu námsins sé ráðandi fremur en fjárhagslegur. Fram fari faglegt mat á vegum menntamálayfirvalda á mismunandi leiðum að því markmiði. Mikilvægt er að í því mati verði tekið tillit til félagslegra þátta og skólamenningar leik-, grunn- og framhaldsskóla og háskóla.
Ályktun um klám.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. sept. 2013 kallar eftir almennri vitundarvakningu og tafarlausum aðgerðum stjórnvalda í baráttunni gegn klámvæðingu og ofbeldi sem oftar en ekki beinist gegn konum.
Ályktun um jafna möguleika barna til íþrótta- og frístundastarfs.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. september 2013 leggur áhersu á jafnt aðgegni barna að íþróttum sem og öðru æskulýðs- og tómstundastarfi. Slíkt starf þroskar einstaklinginn og hefur mikið forvarnargildi.
Ályktun um fæðingarorlof.
16. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík laugardaginn 7. sept. 2013 hvetur ríkisstjórn Íslands að hverfa frá niðurskurði á greiðslum til fæðingarorlofs sem síðasta ríkisstjórn réðst í. Afleiðingarnar hafa fyrst og fremst verið að feður taka sér síður orlof.