Categories
Greinar

Fæst hjúkrunarrými á Suðurnesjum og minnst framlög

Deila grein

06/09/2013

Fæst hjúkrunarrými á Suðurnesjum og minnst framlög

Aldraðir eiga að fá áhyggjulaust ævikvöld. Aldraðir einstaklingar sem eru búnir að skila af sér myndarlegu lífsverki eiga að vera metnir að verðleikum og fá þá þjónustu sem þeir þurfa, helst í heimabyggð eða sem næst henni. Hlutfallslega fæst hjúkrunarrými er á hvern íbúa á Suðurnesjum, miðað við aðra landshluta og minnst framlög. Þessu þurfum við Suðurnesjamenn að breyta.

Samræmis á að gæta milli landshluta

Verulega hallar á Suðurnesin þegar fjöldi hjúkrunarrýma og framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra eru borin saman við aðra landshluta.Á tímabilinu 2000-2010 voru úthlutanir úr Framkvæmdasjóðnum til Suðurnesja aðeins 1,5% af heildinni en 5% aldraðra búa á Suðurnesjum. Úhlutanir til svæðisins nema því aðeins 30,4% af því sem fjöldi aldraðra gefur tilefni til. Framlag úr sjóðnum hefði átt að vera 385 millj. kr. en var aðeins 116,9 millj. kr. Þarna vantar háa upphæð til að sanngirni sé gætt og jafnræði sé á milli landshluta.

Fæst hjúkrunarrými eru á Suðurnesjum á landinu á hverja 1000 íbúa, eða 5,4 en landsmeðaltalið er 7,4. Ef hjúkrunarrými á Suðurnesjum væru í samræmi við meðaltal þá væru þau 157, eða 43 fleiri en þau eru í dag. Þetta eru sláandi staðreyndir og ljóst er að við Suðurnesjamenn verðum að standa saman og bæta stöðu okkar verulega á þessu sviði.

Við þurfum á Garðvangi að halda

Með tilkomu hjúkrunarheimilis á Nesvöllum bætast við 60 hjúkrunarrými sem mikil þörf er á. Umræðan hefur snúist um hvort loka eigi Garðvangi þegar þau rými hafa verið tekin í notkun. Samkvæmt skýrslu frá Haraldi L. Haraldssyni hagfræðingi sem kynnt var á fundi í Gerðaskóla í síðustu viku, kemur fram að áfram verður skortur á rýmum þrátt fyrir tilkomu hjúkrunarheimilis á Nesvöllum.

Því væri réttast að halda Garðvangi opnum en gera á honum nauðsynlegar endurbætur svo aðstaðan þar samræmist nútíma kröfum um aðbúnað á hjúkrunarheimilum. Ef endurbætur verða gerðar á Garðvangi þá væri hægt að reka þar 18,8 rými í stað 39 rýma í dag. Kostnaðaráætlun skv. útreikningum byggingarfulltrúa nemur um 153,2 millj.kr. sem er aðeins 2/3 af kostnaðaráætlun Velferðarráðnuneytisins.

Hvað með fjármögnun? Hver á að borga? Ef viljinn er fyrir hendi, þá er hægt að fara ýmsar leiðir til að hægt sé að ráðast í verkefnið. Sveitarfélagið Garður gæti gæti mögulega farið svokallaða leiguleið, þ.e. tekið 100% lán hjá  Íbúðalánasjóði til 40 ára og Ríkið síðan borgað 85% af leiguverði en sveitarfélagið 15%. Það er leið sem vert að skoða vel.

Nesvellir eru góð byrjun

Samkvæmt samþykkt svæðisskipulags Suðurnesja sem öll sveitarfélög á Suðurnesjum luku við að staðfesta í desember 2012, kemur m.a. fram að stefnan sé að fjölga hjúkrunarrýmum til samræmis við aðra landshluta, auka samvinnu og sérhæfingu á þessu sviði og byggja upp hjúkrunarrými í hverjum þjónustukjarna. Minn skilningur er því sá, að þessu sögðu, að það sé vilji allra sveitarfélaga á Suðurnesjum að byggja upp öldrunarþjónustu á hverjum stað fyrir sig. Þörfin er svo sannarlega til staðar. Hjúkrunarheimilið á Nesvöllum er nauðsynleg viðbót en betur má ef duga skal!

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í fréttamiðlinum Reykjanesi 5. September 2013