„Hæstv. forseti. Nú liggja mörg áhugaverð mál frá þingmönnum fyrir þinginu. Segja má að þau snerti flesta þætti mannlegs samfélags og eins og gengur er nálgun manna misjöfn, en þegar allt kemur til alls vilja allir bæta samfélagið og styrkja stoðir þess. Umhverfismál eru eðlilega mikilvægur þáttur og í raun sá þráður sem ætti að tengja okkur öll saman því að á okkur hvílir sú ábyrgð að skila landinu okkar í betra ástandi en við tókum við því.
Mikil áhersla er á umhverfismál í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þar kemur fram að Ísland á að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum og að tryggja eigi áframhaldandi samkeppnishæfni sjávarútvegs á alþjóðlegum mörkuðum. Skipuð hefur verið verkefnisstjórn til að móta matvælastefnu fyrir Ísland og það er vel. Meðal þátta sem horfa ber til við mótun stefnunnar er bætt aðgengi að hollum matvælum.
Hæstv. forseti. Það háttar svo til að matvælaframleiðsla á Íslandi er með eindæmum metnaðarfull og gæði hennar mikil. Ríki og sveitarfélög geta haft mikil áhrif á framboð og neyslu þar sem ætla má að hátt í 150.000 manns, nemendur, starfsfólk hjá hinu opinbera, vistmenn á dvalar- og öldrunarheimilum o.fl., hafi aðgang að mötuneytum hins opinbera. Ekki er fjarri lagi að um 100.000 manns nýti sér það daglega.
Í samræmi við metnaðarfulla áætlun í loftslagsmálum er eðlilegt að horfa til kolefnisspors, vega og meta um hve langan veg matvæli eru flutt og fleira því tengt. Er nauðsynlegt að flytja inn mat sem framleiða má innan lands með færri kolefnissporum?
Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að vekja athygli á tillögu sem þingmenn Framsóknarflokksins lögðu fram í liðinni viku um opinber vistvæn innkaup. Með tillögu þessari er lagt til grundvallar að ávallt verði tekið tillit til umhverfisverndar og dýravelferðar við opinber innkaup á matvöru. Þannig geta ríki og sveitarfélög lagt þungt lóð á vogarskálar vistvænnar matvælaframleiðslu og stuðlað að bættri lýðheilsu.“ –
Þórunn Egilsdóttir, formaður þingflokks Framsóknarmanna, í störfum þingsins 27. nóvember 2018.
Categories
Sýnum skynsemi
28/11/2018
Sýnum skynsemi