Sjálfstæði, sterk staða Íslands í alþjóðakerfinu og mikil verðmætasköpun hafa frá stofnun lýðveldisins tryggt þjóðinni góð lífskjör. Mikilvægt skref var stigið árið 1949 þegar Ísland gerðist stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu (NATO). Þar sem Ísland er herlaust ríki og gat ekki varið sig sjálft, leiddi aðildin meðal annars til varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna árið 1951.
Á þeim tíma var varnarleysi landsins talið ógna ekki aðeins öryggi þess sjálfs heldur einnig friði og stöðugleika í nágrannaríkjum, eins og fram kemur í samningnum. Með festu og framsýni tryggðu íslensk stjórnvöld að hér á landi væri aðstaða til að sinna vörnum og þannig varðveita frið og öryggi á svæðinu. Í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir í alþjóðamálum þessi dægrin hafa ýmsir haldið því fram að flýta eigi þjóðaratkvæðagreiðslu um að endurvekja aðildarviðræður við Evrópusambandið. Sumir telja að Ísland þurfi á aðild að halda til að tryggja varnir sínar.
Þessi rök standast ekki og eru varasöm. Ég minni á að ESB-ríkin, Finnland og Svíþjóð, gerðust nýverið aðilar að Atlantshafsbandalaginu vegna þess að þau töldu varnir Evrópusambandsins ófullnægjandi. Þeir sem vilja Ísland inn í Evrópusambandið telja að slík aðild sé nauðsynleg vegna stefnu Bandaríkjanna, en með því eru þeir reiðubúnir að fórna sjálfstæði þjóðarinnar og yfirráðum hennar yfir eigin auðlindum. Ég vara eindregið við þessari nálgun. Óvissa í alþjóðakerfinu er vissulega óþægileg og krefst þess að stjórnvöld leggi mikið á sig til að tryggja stöðu þjóðarinnar. Hins vegar er ekki ástæða til þess að gera róttækar breytingar á utanríkisstefnu Íslands. Þessi ákvörðun, ef til hennar kæmi, yrði sú stærsta sem Íslendingar hafa tekið í utanríkismálum frá lýðveldisstofnun.
Slíkt skref ber að stíga af yfirvegun og með heildarhagsmunamat að baki, ekki í fljótfærni vegna vonandi tímabundinnar óvissu í alþjóðastjórnmálum. Þeir sem vilja hraða atkvæðagreiðslu án nauðsynlegrar umræðu og greiningar virða ekki lýðræðislegt fyrirkomulag, sporin hræða svo sannarlega. Evrópusambandssinnar eru hér að nýta sér óvissu vegna Trump-stjórnarinnar, en við eigum hvorki að láta Bandaríkin né Evrópu stýra stefnu Íslands.
Hagsmunir Íslands eiga að vera í forgangi. Röksemdir Evrópusambandssinna byggjast því miður á því að ala á ótta og óöryggi. Slík nálgun hefur aldrei skilað góðum árangri þegar miklir þjóðarhagsmunir eru í húfi, sérstaklega varðandi yfirráð yfir auðlindum Íslands. Ísland hefur átt farsælt samstarf við Bandaríkin allt frá stofnun lýðveldisins, auk þess sem frjáls viðskipti okkar innan EES-samningsins hafa skilað mikilli verðmætasköpun og góðum lífskjörum. Það er skynsamlegasta leiðin áfram.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. mars 2025.