Categories
Fréttir Greinar

Sýnum yfirvegun

Deila grein

20/03/2025

Sýnum yfirvegun

Sjálf­stæði, sterk staða Íslands í alþjóðakerf­inu og mik­il verðmæta­sköp­un hafa frá stofn­un lýðveld­is­ins tryggt þjóðinni góð lífs­kjör. Mik­il­vægt skref var stigið árið 1949 þegar Ísland gerðist stofnaðili að Atlants­hafs­banda­lag­inu (NATO). Þar sem Ísland er herlaust ríki og gat ekki varið sig sjálft, leiddi aðild­in meðal ann­ars til varn­ar­samn­ings Íslands og Banda­ríkj­anna árið 1951.

Á þeim tíma var varn­ar­leysi lands­ins talið ógna ekki aðeins ör­yggi þess sjálfs held­ur einnig friði og stöðug­leika í ná­granna­ríkj­um, eins og fram kem­ur í samn­ingn­um. Með festu og fram­sýni tryggðu ís­lensk stjórn­völd að hér á landi væri aðstaða til að sinna vörn­um og þannig varðveita frið og ör­yggi á svæðinu. Í ljósi þeirr­ar óvissu sem rík­ir í alþjóðamál­um þessi dægrin hafa ýms­ir haldið því fram að flýta eigi þjóðar­at­kvæðagreiðslu um að end­ur­vekja aðild­ar­viðræður við Evr­ópu­sam­bandið. Sum­ir telja að Ísland þurfi á aðild að halda til að tryggja varn­ir sín­ar.

Þessi rök stand­ast ekki og eru vara­söm. Ég minni á að ESB-rík­in, Finn­land og Svíþjóð, gerðust ný­verið aðilar að Atlants­hafs­banda­lag­inu vegna þess að þau töldu varn­ir Evr­ópu­sam­bands­ins ófull­nægj­andi. Þeir sem vilja Ísland inn í Evr­ópu­sam­bandið telja að slík aðild sé nauðsyn­leg vegna stefnu Banda­ríkj­anna, en með því eru þeir reiðubún­ir að fórna sjálf­stæði þjóðar­inn­ar og yf­ir­ráðum henn­ar yfir eig­in auðlind­um. Ég vara ein­dregið við þess­ari nálg­un. Óvissa í alþjóðakerf­inu er vissu­lega óþægi­leg og krefst þess að stjórn­völd leggi mikið á sig til að tryggja stöðu þjóðar­inn­ar. Hins veg­ar er ekki ástæða til þess að gera rót­tæk­ar breyt­ing­ar á ut­an­rík­is­stefnu Íslands. Þessi ákvörðun, ef til henn­ar kæmi, yrði sú stærsta sem Íslend­ing­ar hafa tekið í ut­an­rík­is­mál­um frá lýðveld­is­stofn­un.

Slíkt skref ber að stíga af yf­ir­veg­un og með heild­ar­hags­muna­mat að baki, ekki í fljót­færni vegna von­andi tíma­bund­inn­ar óvissu í alþjóðastjórn­mál­um. Þeir sem vilja hraða at­kvæðagreiðslu án nauðsyn­legr­ar umræðu og grein­ing­ar virða ekki lýðræðis­legt fyr­ir­komu­lag, spor­in hræða svo sann­ar­lega. Evr­ópu­sam­bands­sinn­ar eru hér að nýta sér óvissu vegna Trump-stjórn­ar­inn­ar, en við eig­um hvorki að láta Banda­rík­in né Evr­ópu stýra stefnu Íslands.

Hags­mun­ir Íslands eiga að vera í for­gangi. Rök­semd­ir Evr­ópu­sam­bands­sinna byggj­ast því miður á því að ala á ótta og óör­yggi. Slík nálg­un hef­ur aldrei skilað góðum ár­angri þegar mikl­ir þjóðar­hags­mun­ir eru í húfi, sér­stak­lega varðandi yf­ir­ráð yfir auðlind­um Íslands. Ísland hef­ur átt far­sælt sam­starf við Banda­rík­in allt frá stofn­un lýðveld­is­ins, auk þess sem frjáls viðskipti okk­ar inn­an EES-samn­ings­ins hafa skilað mik­illi verðmæta­sköp­un og góðum lífs­kjör­um. Það er skyn­sam­leg­asta leiðin áfram.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. mars 2025.