Evrópa hefur sýnt mikla seiglu í gegnum áföll síðustu ára, þ.e. frá heimsfaraldrinum til orkuskortsins sem fylgdi innrás Rússlands í Úkraínu. Engu að síður dregur nýjasta skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um álfuna (e. Regional Economic Outlook: Europe) upp dökka mynd. Evrópa virðist vera að sigla inn í tímabil lítils hagvaxtar og stöðnunar. Stjórnvöld um alla Evrópu átta sig á vandanum en hafa ekki náð að grípa til aðgerða sem gætu snúið þessari þróun við.
Skýrsla AGS gagnrýnir þann hægagang sem virðist vera ráðandi. Viðskiptaerjur við Bandaríkin, styrking evrunnar og viðvarandi pólitísk óvissa hafa dregið úr útflutningi og fjárfestingum. Þrátt fyrir að vaxtalækkanir og aukin ríkisútgjöld ættu að örva eftirspurn atvinnulífsins hefur hagvöxtur ekki tekið við sér. Framleiðni efnahagskerfisins er stöðnuð og Evrópa heldur áfram að dragast aftur úr Bandaríkjunum.
Aðgerðaleysi er rót vandans og er ekki best geymda leyndarmálið í Brussel. Viljann til verka virðist skorta til að efla samkeppnishæfni. Atriði sem nefnd hafa verið í þessu samhengi eru kerfisumbætur á fjármálamarkaði og aukinn hreyfanleiki vinnuafls. Ásamt því að draga úr íþyngjandi og flóknu regluverki. Evrópusambandinu hefur ekki tekist að hrinda þessu í framkvæmd og því hefur framleiðnin dregist saman.
Efnahagslegar afleiðingar þessa stefnuleysis eru augljósar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að skuldabyrði Evrópuríkja geti hækkað í allt að 130 prósent af vergri landsframleiðslu fyrir árið 2040, ef hagvöxtur tekur ekki við sér. Á sama tíma er mikill útgjaldaþrýstingur á ríkisfjármál ESB-ríkja, sem er tilkominn vegna öldrunar samfélaga og kallar á aukin útgjöld til heilbrigðis- og lífeyrismála. Einnig hafa útgjöld til varnarmála og loftslagsaðgerða vaxið mikið. Án aukinnar framleiðni munu tekjur hins opinbera einfaldlega ekki standa undir nýjum skuldbindingum.
Það eru hagsmunir Íslands að Evrópa standi traustum fótum efnahagslega. Ef Evrópa stendur veikt, þá minnkar það möguleika Íslands til útflutnings á matvælum og þjónustu.
Þess vegna er mikilvægt að ráðist verði í langtíma kerfisumbætur og einföldun regluverks. Evrópusambandið þarf að ráðast í miklar kerfisbreytingar. Ísland á ekki að sækja um aðild að Evrópusambandinu þegar staðan er með þessum hætti.
Undirstaða tækniframfara og atvinnusköpunar er hagvöxtur. Ísland á að bæta sína eigin samkeppnisstöðu með því að efla nýsköpun, bæta framleiðni og treysta undirstöður hagkerfisins. Þannig getum við tryggt áframhaldandi vöxt og stöðugleika, óháð því hvernig vindar blása á meginlandinu.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. október 2025.