Categories
Fréttir Greinar

Tæknikapphlaupið og staða Íslands

Deila grein

26/08/2025

Tæknikapphlaupið og staða Íslands

All­ar þjóðir heims eru í óðaönn að und­ir­búa sig und­ir gjör­breytt lands­lag efna­hags­mála með til­komu gervi­greind­ar. Leiðandi ríki á þess­um vett­vangi eru Banda­rík­in, Kína og Bret­land. For­ystu­fólk hjá Evr­ópu­sam­band­inu hef­ur haft mikl­ar áhyggj­ur af því að sam­bandið væri að drag­ast aft­ur úr í tæknikapp­hlaup­inu. Þess vegna var fyrr­ver­andi seðlabanka­stjóri Evr­ópska seðlabank­ans, Mario Drag­hi, feng­inn til að gera út­tekt á sam­keppn­is­hæfni álf­unn­ar. Fram kom í út­tekt Drag­his að á sviði tækni og ný­sköp­un­ar væri bilið milli Evr­ópu og Banda­ríkj­anna orðið sér­stak­lega áber­andi. Aðeins fjög­ur af 50 stærstu tæknifyr­ir­tækj­um heims eru evr­ópsk. Ekk­ert fyr­ir­tæki sem stofnað hef­ur verið á síðustu 50 árum og starfað í Evr­ópu hef­ur náð yfir 100 millj­arða evra markaðsvirði. Árið 2021 fjár­festu evr­ópsk fyr­ir­tæki um 270 millj­örðum evra minna í rann­sókn­um og þróun en banda­rísk fyr­ir­tæki. Vand­inn að mati Drag­his er ekki skort­ur á frum­kvöðlum eða getu inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins held­ur frem­ur að innri markaður­inn sé ekki nægi­lega sam­keppn­is­hæf­ur. Nefn­ir hann nokkra þætti máli sínu til stuðnings. Í fyrsta lagi er orku­kostnaður þre­falt hærri hjá ríkj­um ESB en í Banda­ríkj­un­um og Kína. Í öðru lagi er skort­ur á fjár­fest­ingu í ný­sköp­un og tækni. Á ár­un­um 2008-2021 fluttu nærri 30 pró­sent evr­ópskra sprota­fyr­ir­tækja höfuðstöðvar sín­ar til Banda­ríkj­anna vegna þessa. Í þriðja lagi hef­ur mik­ill fjöldi af­bragðsnem­enda haldið til Banda­ríkj­anna og stofnað þar fyr­ir­tæki. Hag­kerfi Evr­ópu­sam­bands­ins hef­ur því orðið fyr­ir ákveðnum spekileka. Vöxt­ur fram­leiðni í Evr­ópu hef­ur því ekki verið eins mik­ill og von­ir stóðu til.

Á sama tíma hafa orðið al­gjör um­skipti í há­tækni- og hug­verkaiðnaði á Íslandi. Útflutn­ings­tekj­urn­ar nema 17% af heild­ar­út­flutn­ingi og hafa vaxið um 190% á tíu árum. Stjórn­völd mörkuðu afar skýra stefnu í þess­um mál­um og unnu þétt með at­vinnu­líf­inu. Fjár­fest­ing­ar í ný­sköp­un juk­ust mikið með bein­um stuðningi og skattafrá­drætti. Ísland er vegna þessa mun bet­ur í stakk búið til að tak­ast á við þær miklu breyt­ing­ar sem við stönd­um frammi fyr­ir í tækni og gervi­greind.

Ísland þarf ekki að ger­ast aðili að Evr­ópu­sam­band­inu til þess að vaxa og dafna. Eyðum tím­an­um frek­ar í að gera Ísland sam­keppn­is­hæf­ara. Leiðandi fyr­ir­tæki í gervi­greind hafa í aukn­um mæli sýnt Íslandi áhuga vegna hag­felldra skil­yrða fyr­ir gagna­ver. Við eig­um að sækja fram og nýta okk­ur hag­stætt orku­verð og góða legu lands­ins. Tími er tak­mörkuð auðlind og því mik­il­vægt að hann sé nýtt­ur vel. Í þeirri óvissu sem rík­ir í alþjóðaviðskipt­um er afar brýnt að sú leið sem Ísland vel­ur sé vel vörðuð. Ákvarðanir í ut­an­rík­is­mál­um þurfa að byggj­ast á staðreynd­um en ekki ósk­hyggju um ver­öld sem aldrei varð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. ágúst 2025.