Allar þjóðir heims eru í óðaönn að undirbúa sig undir gjörbreytt landslag efnahagsmála með tilkomu gervigreindar. Leiðandi ríki á þessum vettvangi eru Bandaríkin, Kína og Bretland. Forystufólk hjá Evrópusambandinu hefur haft miklar áhyggjur af því að sambandið væri að dragast aftur úr í tæknikapphlaupinu. Þess vegna var fyrrverandi seðlabankastjóri Evrópska seðlabankans, Mario Draghi, fenginn til að gera úttekt á samkeppnishæfni álfunnar. Fram kom í úttekt Draghis að á sviði tækni og nýsköpunar væri bilið milli Evrópu og Bandaríkjanna orðið sérstaklega áberandi. Aðeins fjögur af 50 stærstu tæknifyrirtækjum heims eru evrópsk. Ekkert fyrirtæki sem stofnað hefur verið á síðustu 50 árum og starfað í Evrópu hefur náð yfir 100 milljarða evra markaðsvirði. Árið 2021 fjárfestu evrópsk fyrirtæki um 270 milljörðum evra minna í rannsóknum og þróun en bandarísk fyrirtæki. Vandinn að mati Draghis er ekki skortur á frumkvöðlum eða getu innan Evrópusambandsins heldur fremur að innri markaðurinn sé ekki nægilega samkeppnishæfur. Nefnir hann nokkra þætti máli sínu til stuðnings. Í fyrsta lagi er orkukostnaður þrefalt hærri hjá ríkjum ESB en í Bandaríkjunum og Kína. Í öðru lagi er skortur á fjárfestingu í nýsköpun og tækni. Á árunum 2008-2021 fluttu nærri 30 prósent evrópskra sprotafyrirtækja höfuðstöðvar sínar til Bandaríkjanna vegna þessa. Í þriðja lagi hefur mikill fjöldi afbragðsnemenda haldið til Bandaríkjanna og stofnað þar fyrirtæki. Hagkerfi Evrópusambandsins hefur því orðið fyrir ákveðnum spekileka. Vöxtur framleiðni í Evrópu hefur því ekki verið eins mikill og vonir stóðu til.
Á sama tíma hafa orðið algjör umskipti í hátækni- og hugverkaiðnaði á Íslandi. Útflutningstekjurnar nema 17% af heildarútflutningi og hafa vaxið um 190% á tíu árum. Stjórnvöld mörkuðu afar skýra stefnu í þessum málum og unnu þétt með atvinnulífinu. Fjárfestingar í nýsköpun jukust mikið með beinum stuðningi og skattafrádrætti. Ísland er vegna þessa mun betur í stakk búið til að takast á við þær miklu breytingar sem við stöndum frammi fyrir í tækni og gervigreind.
Ísland þarf ekki að gerast aðili að Evrópusambandinu til þess að vaxa og dafna. Eyðum tímanum frekar í að gera Ísland samkeppnishæfara. Leiðandi fyrirtæki í gervigreind hafa í auknum mæli sýnt Íslandi áhuga vegna hagfelldra skilyrða fyrir gagnaver. Við eigum að sækja fram og nýta okkur hagstætt orkuverð og góða legu landsins. Tími er takmörkuð auðlind og því mikilvægt að hann sé nýttur vel. Í þeirri óvissu sem ríkir í alþjóðaviðskiptum er afar brýnt að sú leið sem Ísland velur sé vel vörðuð. Ákvarðanir í utanríkismálum þurfa að byggjast á staðreyndum en ekki óskhyggju um veröld sem aldrei varð.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. ágúst 2025.