Stjórnmálin eru hverfull vettvangur þar sem hlutirnir geta breyst hratt. Í kosningunum liðna helgi leiðbeindu kjósendur stjórnmálaflokkunum í hvaða átt skyldi stefna næstu árin.
Það er því ekki óeðlilegt að Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur fólksins hafi hafið formlegar stjórnarmyndunarviðræður eftir þeirra kosningasigur. Raungerist ríkisstjórn þessara flokka er ljóst að hún tekur við góðu búi.
Fjárlagafrumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar leggur grunninn að því að verðbólga og vextir eru á fallanda fæti auk markvissra aðgerða stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.
Þá eru skuldahlutföll ríkissjóðs lág í alþjóðlegum samanburði og staða ríkissjóðs sterk, atvinnuþátttaka er mikil og tækifæri fyrir frekari lífskjarasókn samhliða lækkandi fjármögnunarkostnaði.
Þá hefur gangskör verið gerð í hinum ýmsu málaflokkum svo eftir hefur verið tekið. Má þar sérstaklega nefna í ráðuneytum Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra og Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra.
Það verður sjónarsviptir að þessum verk- og reynslumiklu ráðherrum Framsóknar sem hafa komið mörgum framfaramálum til leiðar.
Brýnustu mál næstu ríkisstjórnar eru að ná betri tökum á húsnæðismarkaðnum og lækka fjármagnskostnað Íslands. Ráðist hefur verið í ýmsar aðgerðir á húsnæðismarkaðnum að undanförnu til að mæta þeirri auknu eftirspurn sem myndast hefur.
Undir forystu Framsóknar var farið í hlutdeildarlán og stofnfjárframlög til að mæta markaðsbresti á húsnæðismarkaði. Það þarf þó að fara í frekari kerfisbreytingar til að auka framboð af húsnæði um land allt. Samstarf ríkis og sveitarfélaga verður að aukast til að ná meiri árangri.
Á sveitarstjórnarstiginu mun Framsókn áfram leggja sig fram við að koma að lausn þeirra áskorana sem blasa við samfélaginu okkar.
Við erum samvinnuflokkur, hvort sem við erum í ríkisstjórn eður ei.
Fjármagnskostnaður Íslands er of hár og á það við um kjör ríkissjóðs Íslands og allt hagkerfið.
Það verður að fara ofan í saumana á því hvers vegna staðan er þessi í ljósi þess að allar grunnstoðir hagkerfisins eru sterkar. Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs Íslands hefur þó verið að hækka og þá ættu kjörin að verða betri.
Hefja þarf stórsókn í þessum efnum til að auka verðmætasköpun Íslands.
Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður og fyrrverandi formaður fjárlaganefndar.
Greinin birtist fyrst Morgunblaðinu 5. desember 2024.