„Það er margsannað að notkun sýklalyfja í íslenskum landbúnaði er með því minnsta sem þekkist í heiminum. Það skapar okkur algjöra sérstöðu sem við viljum standa vörð um af fullum krafti. Það var því mikill áfangi fyrir Framsókn þegar ríkisstjórnin tilkynnti í dag að stefnt væri að banni við dreifingu matvæla sem sýkt er af ákveðnum tegundum sýklalyfjaónæmra baktería.“ Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjónarráðherra og formaður Framsóknar, í grein á bbl.is 29. maí s.l.
„Íslenskur landbúnaður hefur ætíð staðið hjarta mínu nærri. Ég hef í gegnum tíðina, bæði í störfum mínum í stjórnmálum og ekki síður sem dýralæknir, séð þann mikla metnað sem íslenskir bændur hafa sýnt í störfum sínum. Sá metnaður hefur gert það að verkum að Íslendingar eru í einstakri stöðu þegar kemur að gæðum íslenskra afurða. Það sem er mikilvægast í matvælaframleiðslu heimsins í dag er heilbrigði búfjár og heilnæmi matvæla. Vísindamenn hafa sagt að ef ekkert verður að gert verði sýklalyfjaónæmi heilsufarsfaraldur á næstu áratugum sem lýsir sér til dæmis að því að spáð er að fleiri muni látast af völdum sýklalyfjaónæmra baktería árið 2050 en látist af völdum krabbameins.“
Hagsmunir neytenda og bænda fara saman
Í grein sinni rekur Sigurður Ingi að í vetur hafi orðið umskipti í umræðunni um innflutning á hráu kjöti. Framsókn hafi náð að vekja vitund almennings um gæði og sérstöðu íslensks landbúnaðar, með góðum stuðningi bænda og neytenda. „Það er enda ljóst að hagsmunir bænda og neytenda fara saman í þessu máli þótt margir hafi lagt mikið á sig í áróðrinum um að það séu hagsmunir neytenda að innflutningur á matvælum sé óheftur.“
Hafinn er undirbúningur þar sem byggt er vísindalega undir sérstöðu íslensks landbúnaðar með það að markmiði að bann verði komið á dreifingu matvæla með sýklalyfjaónæmum bakteríum fyrsta október 2021. Þetta hefur ekki einungis áhrif á kjöt heldur öll matvæli.
Mikilvæg atriði í því sambandi má finna í nýrri aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna og eru framsókn fyrir íslenskan landbúnað:
- Ætlað er að efla matvælaöryggi, vernd búfjárstofna og samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar.
- Bann við dreifingu fersks alifuglakjöts nema að sýnt sé fram á að það sé ekki mengað af kampýlóbakter (sama regla og gildir um innlenda framleiðslu í dag).
- Búið er að sækja um viðbótartryggingar vegna salmonellu fyrir alifugla, svína og nautakjöt.
- Matvælaeftirlit verður eflt í þágu neytendaverndar og tekið til sérstakrar skoðunar hvernig því verði best fyrir komið.
- Merkingar matvæla verða bættar.
- Fræðsla til ferðamanna aukin og reglur um innflutning til einkaneyslu hertar.
- Unnið verður af krafti að mótun matvælastefnu og innleiðingar nýrrar innkaupastefnu ríkisins m.a. með stuðningi ráðherranefndar undir forystu forsætisráðherra.
- Stuðningur við nýsköpun í innlendri matvælaframleiðslu verður efldur verulega samhliða með nýjum sjóði sem byggi á grunni núverandi nýsköpunarsjóða í landbúnaði og sjávarútvegi.
Fjölmörg önnur verkefni eru í áætluninni.
„Við í Framsókn viljum þakka öllum þeim sem hafa stutt okkur í baráttunni sem við sjáum nú verða að veruleika í öflugri framsókn gegn sýklalyfjaónæmi.“