Categories
Fréttir

„Það skiptir mjög miklu máli að vera í góðu sambandi“

Deila grein

11/03/2024

„Það skiptir mjög miklu máli að vera í góðu sambandi“

„Það er okkur flestum eðlislægt að hringja eða svara símanum. Hér á landi eru aftur og aftur á móti margir sem geta það ekki heima hjá sér eða á svæðinu í kringum heimili sitt sökum lélegs símasambands,“ sagði Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins.

Benti hún á að fólk nái ekki að virkja rafræn skilríki, enda þurfi símasamband til. Fólk hafi því þann einn kost að ferðast frá heimili sínu til að reka erindi sem felstum örðum þykir sjálfsagt að gera heima hjá sér.

„Það að vera í góðu símasambandi snýst ekki einungis um hentugleika heldur er þetta fyrst og fremst öryggismál, bæði innan sem utan heimilis. Það er ekki einungis mikilvægt að huga að góðu símasambandi á heimili fólks því á vegum landsins eru líka margir staðir þar sem er lítið eða ekkert símasamband og það hefur margoft skapað mjög erfiðar aðstæður vegna slysa eða annarra vandræða sem koma upp,“ sagði Lilja Rannveig.

„Það var því mjög gott að sjá fréttir vikunnar þar sem samið var um að byggja upp 24 fjarskiptasenda við stofnvegi á Vestfjörðum. Sú aðgerð skiptir miklu máli fyrir öryggi fólks á vegum landsins sem og þeirra sem búa í nágrenni við sendana. Meðan við fögnum því höldum við samt áfram að þrýsta á frekari uppbyggingu við stofnvegi um allt land sem og tengivegi og heimili fólks. Sjálf hefði ég viljað að áherslan hefði fyrst verið lögð á að byggja upp símasamband við heimili fólks en ég fagna þó öllum þeim framförum sem eiga sér stað í fjarskiptamálum á Íslandi því að það skiptir mjög miklu máli að vera í góðu sambandi,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.


Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni á Alþingi:

„Hæstv. forseti. Það er okkur flestum eðlislægt að hringja eða svara símanum. Hér á landi eru aftur og aftur á móti margir sem geta það ekki heima hjá sér eða á svæðinu í kringum heimili sitt sökum lélegs símasambands. Þau lenda t.d. í vandræðum með að virkja rafræn skilríki því það krefst þess að viðkomandi sé í símasambandi og því þurfa þau að ferðast frá heimili sínu til að vinna að ýmsu sem mörg okkar telja sjálfsagt. Það að vera í góðu símasambandi snýst ekki einungis um hentugleika heldur er þetta fyrst og fremst öryggismál, bæði innan sem utan heimilis. Það er ekki einungis mikilvægt að huga að góðu símasambandi á heimili fólks því á vegum landsins eru líka margir staðir þar sem er lítið eða ekkert símasamband og það hefur margoft skapað mjög erfiðar aðstæður vegna slysa eða annarra vandræða sem koma upp. Það var því mjög gott að sjá fréttir vikunnar þar sem samið var um að byggja upp 24 fjarskiptasenda við stofnvegi á Vestfjörðum. Sú aðgerð skiptir miklu máli fyrir öryggi fólks á vegum landsins sem og þeirra sem búa í nágrenni við sendana. Meðan við fögnum því höldum við samt áfram að þrýsta á frekari uppbyggingu við stofnvegi um allt land sem og tengivegi og heimili fólks. Sjálf hefði ég viljað að áherslan hefði fyrst verið lögð á að byggja upp símasamband við heimili fólks en ég fagna þó öllum þeim framförum sem eiga sér stað í fjarskiptamálum á Íslandi því að það skiptir mjög miklu máli að vera í góðu sambandi.“