Categories
Fréttir

Það verður kosið um stöðugleika

Deila grein

06/10/2016

Það verður kosið um stöðugleika

thingmadur-willumthor-05„Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að fagna því, eins og aðrir hv. þingmenn, að formenn flokkanna eru alla vega í þann mund, trúi ég, að koma sér saman um það hvernig við háttum okkar störfum hér og getum lokið mikilvægum málum og klárað þingið. Það skiptir okkur öll máli vegna þess að ásýnd þingsins er ásköpuð. Þess vegna skiptir það okkur öll máli. Kosningabaráttan er löngu hafin, það má kannski segja að það sé viðvarandi barátta og eigi ekki að fela í sér nein tímabundin skil, upphaf eða endi, en auðvitað hefur maður skynjað hér á umræðunni og ekki síst í fundarstjórn forseta að leikar æsast.
Um hvað ætli verði kosið? Það má velta því fyrir sér. Málefnin, stefnan, loforðin. Ég tek með beinum hætti þátt í slíkri baráttu nú í annað sinn og get sagt það eitt að þetta er skemmtilegt og spennandi. Ég hlakka auðvitað bara til. Mikið hefur verið rætt um málefnin, um innviðauppbyggingu, húsnæðismál, heilbrigðis- og velferðarmál, menntamál jafnvel. Þetta hefur verið áberandi í umræðunni og það er skiljanlegt, en verður raunverulega kosið um það? Er það það sem skiptir máli, að við trompum hvert annað í loforðum og útgjaldaauka? Ég held ekki, ég held að raunverulega verði kosið um stöðugleika. Það orð eitt og sér felur það í sér að sá árangur sem náðst hefur á þessu kjörtímabili í efnahagslegri uppbyggingu, heimilin hafa lækkað skuldir sínar, atvinnulífið er á traustum grunni, býr við stöðugleika — ég held að það verði raunverulega kosið um áframhald á stöðugleika.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 6. október 2016.