Í ljósi stóraukinna áhrifa loftslagsbreytinga sem leitt hafa til öfgakennds veðurfars, hækkandi sjávarstöðu og hnignunar vistkerfa á heimsvísu hafa þingmenn Framsóknar, þau Þórarinn Ingi Pétursson, Halla Hrund Logadóttir, Ingibjörg Isaksen, Sigurður Ingi Jóhannsson og Stefán Vagn Stefánsson lagt fram þingsályktunartillögu um þjóðarátak í landgræðslu og skógrækt. Tillagan felur í sér að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra komi á samstarfsvettvangi í samráði við atvinnuvegaráðherra fyrir lok árs 2026, þar sem stjórnvöld, stofnunin Land og skógur, bændur, atvinnulífið og almenningur taki höndum saman um aukna þátttöku almennings í kolefnisbindingu.
Kolefnisbinding og endurheimt vistkerfa
Markmið þessa mikilvæga þjóðarátaks er að efla kolefnisbindingu, hindra jarðvegsrof og græða upp örfoka land á Íslandi. Átakinu er ætlað að byggja á farsælum fyrirmyndum, svo sem verkefninu „Bændur græða landið“, sem hefur verið í gangi síðan 1990 með góðum árangri, sem og verkefninu „Landgræðsluskógar“ sem skógræktarfélög landsins standa fyrir. Þessi verkefni hafa sannað gildi sitt við að stuðla að landbótum og auka vitund almennings um mikilvægi umhverfisverndar.
Samkvæmt tillögunni yrði þátttaka almennings tvíþætt: annars vegar með beinni þátttöku í landgræðslu og skógrækt undir handleiðslu sérfræðinga Lands og skógar, og hins vegar með kolefnisjöfnun viðskipta í samstarfi við fyrirtæki. Með aukinni umhverfisvitund almennings hefur vaxið áhugi hjá fyrirtækjum á að bjóða viðskiptavinum sínum leiðir til kolefnisjöfnunar, og gæti þetta þjóðarátak verið góð leið til að efla slíkt samstarf.
Sérstaða Íslands í loftslagsmálum og umhverfisvernd
Íslendingar hafa einstaka möguleika á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með endurheimt vistkerfa, skógrækt og landgræðslu vegna sérstöðu landsins. Jarðvegseyðing hefur verið ein helsta áskorun í íslenskum umhverfismálum og brýnt er að grípa til aðgerða sem stuðla að sjálfbærri nýtingu lands. Jarðvegur er mikilvæg auðlind og forsenda fæðuöryggis, en á sama tíma er jarðvegseyðing mikil ógn á heimsvísu. Tillagan samræmist aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum frá 2024 og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sérstaklega markmiði nr. 13, um aðgerðir í loftslagsmálum. Hún styður einnig við alþjóðlega samninga eins og Parísarsáttmálann, samning Sameinuðu þjóðanna gegn eyðimerkurmyndun, samninga um líffræðilega fjölbreytni og rammasamning SÞ um loftslagsbreytingar.
Land og líf – skýr stefna til framtíðar
Árið 2022 gaf íslenska ríkið út sína fyrstu sameiginlegu stefnu í landgræðslu og skógrækt undir heitinu „Land og líf“, sem setur skýra framtíðarsýn um nauðsynlega stefnu og aðgerðir til ársins 2026. Samhliða þessu hefur sameining Landgræðslunnar og Skógræktarinnar í nýju stofnunina Land og skóg styrkt innviði umhverfisverndar og þjónustu við bændur og almenning.
Með þjóðarátaki í landgræðslu og skógrækt mun Ísland geta sýnt mikilvægt frumkvæði í alþjóðlegri baráttu gegn loftslagsbreytingum, en um leið aukið gæði og sjálfbærni íslenskrar náttúru. Þetta verkefni mun þannig ekki aðeins hjálpa okkur að mæta skuldbindingum Íslands gagnvart umheiminum heldur einnig efla umhverfisvitund þjóðarinnar og tryggja betri framtíð fyrir komandi kynslóðir.
Framsæknar lausnir – sjálfbærni til framtíðar
Tillagan fellur vel að öðrum framsæknum áherslum Framsóknar, svo sem hugmyndinni „Ræktum framtíðina“ um kauprétt ungs fólks á jarðnæði, sem hentar til matvæla- og fóðurframleiðslu, auk skógræktar, þar sem nýliðun í matvælaframleiðslu er lykilatriði í sjálfbærri þróun íslensks samfélags. Með því að samtvinna þessa þætti – umhverfisvernd, skógrækt, sjálfbæra matvælaframleiðslu og stuðning við ungt fólk – eru skapaðar raunhæfar leiðir til að treysta byggð á landsbyggðinni, efla nýliðun og tryggja velferð komandi kynslóða.
Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. mars 2025.