Categories
Fréttir Greinar

Til hamingju!

Deila grein

19/04/2023

Til hamingju!

Tíma­mót í menn­ing­ar­sögu þjóðar­inn­ar eru í dag þegar að Hús ís­lensk­unn­ar verður vígt form­lega og end­an­legt nafn þess op­in­berað. Húsið á að hýsa starf­semi Stofn­un­ar Árna Magnús­son­ar í ís­lensk­um fræðum og Íslensku- og menn­ing­ar­deild Há­skóla Íslands og verður miðstöð rann­sókna og kennslu í ís­lensk­um fræðum: tungu, bók­mennt­um og sögu. Þar verða jafn­framt varðveitt frum­gögn um ís­lenska menn­ingu, þ.e. hand­rit, skjöl, orða- og nafn­fræðisöfn og þjóðfræðasöfn. Í bygg­ing­unni eru ýmis sér­hönnuð rými, svo sem fyr­ir varðveislu, rann­sókn­ir og sýn­ingu á forn­um ís­lensk­um skinn­hand­rit­um, vinnu­stof­ur kenn­ara og fræðimanna, lesaðstaða fyr­ir nem­end­ur, fyr­ir­lestra- og kennslu­sal­ir og bóka­safn með lesaðstöðu.

18 ára meðganga

Verk­efnið hef­ur átt sér nokk­urn aðdrag­anda en ákvörðun um fram­lag til að byggja húsið var tek­in á Alþingi árið 2005. Niðurstaða hönn­un­ar­sam­keppni um út­lit húss­ins var kynnt árið 2008. Árið 2013 tók þáver­andi mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra, og nú for­sæt­is­ráðherra, fyrstu skóflu­stung­una á lóðinni við Arn­gríms­götu 5 og var síðar ráðist í jarðvinnu á lóðinni. Á ár­un­um 2016-2018 fór síðan fram ít­ar­leg end­ur­skoðun og rýni á hönn­un húss­ins með það fyr­ir aug­um að ná fram hag­kvæmni í bygg­ingu og rekstri. Ég tók við þessu mik­il­væga kefli sem menn­ing­ar­málaráðherra árið 2017 en í maí 2019 var gengið frá samn­ing­um um bygg­ingu þess og hóf­ust fram­kvæmd­ir í kjöl­farið.

Það er virki­lega ánægju­legt að nú, tæp­um fjór­um árum síðar, sé komið að því að vígja þessa mik­il­vægu bygg­ingu en það er löngu tíma­bært að verðugt hús sé reist til að varðveita hand­rit­in okk­ar. Þau eru ein­ar merk­ustu ger­sem­ar þjóðar­inn­ar og geyma sagna­arf sem ekki aðeins er dýr­mæt­ur fyr­ir okk­ur held­ur hluti af bók­mennta­sögu heims­ins. Stjórn­völd eru staðráðin í að viðhalda og miðla þess­um menn­ing­ar­arfi okk­ar og kynna börn­in okk­ar fyr­ir þeim sem og kom­andi kyn­slóðir.

Tungu­málið í önd­vegi

Á und­an­förn­um árum hef­ur rík­is­stjórn­in sett ís­lensk­una í önd­vegi með fjölþætt­um aðgerðum. Þannig nam fjár­fest­ing í mál­efn­um ís­lensk­unn­ar á síðasta kjör­tíma­bili yfir 10 millj­örðum kr. Í nú­ver­andi stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­flokk­anna er áfram lögð áhersla á að styðja við ís­lenska tungu með ýmsu móti. Þegar litið er yfir far­inn veg hef­ur margt áunn­ist til þess að styðja við tungu­málið okk­ar. Þings­álykt­un um að efla ís­lensku sem op­in­bert mál á Íslandi var samþykkt á Alþingi 2019 og var aðgerðaáætl­un ýtt úr vör und­ir heit­inu „Áfram ís­lenska“.

Meg­in­mark­mið henn­ar var að ís­lenska væri notuð á öll­um sviðum sam­fé­lags­ins, ís­lensku­kennsla og mennt­un yrði efld á öll­um skóla­stig­um og að framtíð ís­lenskr­ar tungu í sta­f­ræn­um heimi yrði tryggð með því að gera tækj­un­um okk­ar kleift að eiga í sam­skipt­um okk­ar á ís­lensku. Auk­in­held­ur var fjár­mun­um for­gangsraðað í að styðja skap­andi grein­ar þar sem ís­lenska er aðal­verk­færið. Bóka­út­gáfa var efld með nýju stuðnings­kerfi og hef­ur fjöldi út­gef­inna bóka á ís­lensku auk­ist mjög. Síðastliðið haust var svo ráðherra­nefnd um ís­lenska tungu sett á lagg­irn­ar sem ætlað að efla sam­ráð og sam­starf milli ráðuneyta um mál­efni ís­lenskr­ar tungu.

For­skot fyr­ir ís­lensk­una

Við erum far­in að sjá upp­sker­una birt­ast okk­ur með ýms­um hætti. Lang­ar mig sér­stak­lega að nefna ný­leg stórtíðindi þegar banda­ríska tæknifyr­ir­tækið OpenAI kynnti að ís­lenska hefði verið val­in í þró­un­ar­fasa fyr­ir nýj­ustu út­gáfu gervi­greind­ar­mállík­ans­ins GPT-4, fyrst allra tungu­mála fyr­ir utan ensku. Þetta er stór áfangi fyr­ir tungu­málið okk­ar en um er að ræða stærsta gervi­greind­ar­net heims sem nú er fínþjálfað til þess að skilja og miðla upp­lýs­ing­um á ís­lensku. Var þetta afrakst­ur ferðar minn­ar ásamt for­seta Íslands og ís­lenskri sendi­nefnd þar sem við heim­sótt­um alþjóðleg tæknifyr­ir­tæki til að tala máli ís­lensk­unn­ar. Fyr­ir­tæk­in geta nýtt þær tækni­lausn­ir sem ís­lensk stjórn­völd hafa fjár­fest í á und­an­förn­um árum en um 60 sér­fræðing­ar hafa unnið af mikl­um metnaði til þess að koma þess­um tækni­lausn­um á kopp­inn og gera ís­lensk­una í stakk búna til þess að hægt sé að nýta hana í snjall­tækj­um.

Fleiri hand­rit heim

Við eig­um að auka veg og virðingu menn­ing­ar­arfs­ins, að sýna hand­rit­in, ræða þau og rann­saka. Um 700 hand­rit eru í vörslu á söfn­um í Dan­mörku, en sátt­máli var gerður um vörslu þeirra árið 1965 milli Íslands og Dan­merk­ur. Ég tel að fleiri ís­lensk hand­rit eigi að koma til Íslands frá Dan­mörku og hef unnið að auknu sam­starfi ríkj­anna á þessu sviði. Þannig mun Árna­safn við Kaup­manna­hafn­ar­há­skóla taka þátt í nýrri hand­rita­sýn­ingu Stofn­un­ar Árna Magnús­son­ar í ís­lensk­um fræðum með lang­tíma­láni á hand­rit­um. Þá ætla lönd­in tvö að efna til átaks til að styrkja rann­sókn­ir, sta­f­ræna end­ur­gerð og miðlun á forn­um ís­lensk­um hand­rit­um með sér­stakri áherslu á að styrkja ungt fræðafólk og doktorsnema.

Hús þjóðar

Á morg­un, sum­ar­dag­inn fyrsta, verður opið hús í Húsi ís­lensk­unn­ar þar sem gest­ir geta skoðað bygg­ing­una áður en starf­semi hefst í henni. Boðið verður upp á fjöl­breytta dag­skrá fyr­ir alla fjöl­skyld­una þar sem ís­lensk tunga verður í aðal­hlut­verki. Til marks um mik­inn áhuga á hús­inu bár­ust til­lög­ur frá 3.400 þátt­tak­end­um í nafna­sam­keppni fyr­ir húsið. Ég vil þakka öll­um þeim stóra og fjöl­breytta hópi sem hef­ur komið að þessu verk­efni í gegn­um tíðina og ég óska ís­lensku þjóðinni til ham­ingju með húsið sitt – en af því get­um við öll verið stolt. Með til­komu þess verður menn­ing­ar­arfi okk­ar tryggt gott og ör­uggt þak yfir höfuðið og tungu­mál­inu okk­ar fært það langþráða lög­heim­ili sem það á svo sann­ar­lega skilið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. apríl 2023.